Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Skóli og trúarbrögð

Ef við ætlum að ganga heilshugar til móts við fjölgreint samfélag eigum við að hylla fjölbreytnina hvar og hvenær sem við getum. Þá á meðal í skólanum.
Þannig kennum við ungviðinu að það sé ekkert athugavert við það að vera sérstakur eða jafnvel nokkuð almennur.
Þannig verður ekkert athugavert við það að imam komi í skólann til þess að hitta þau börn sem það vilja eða bjóða til sín í moskuna ef tilefni væri til. Heldur ekki búddamunkur, siðmenntarfræðari eða prestur.
Það ætti jafnvel að láta svolítið með þetta af því að tilefnið væri líklegast mikilvægt í augum þess sem það tengdist. Þannig mætti kenna um ólíka siði manna og sömuleiðis að það væri bara fínt að vera svona eða hinsegin svo lengi sem maður er ekki vondur við neinn.
Afstaða af þessu tagi eflir sjálfstraust barna og opnar hugsun allra fyrir margbreytileika mannlífsins; verður jafnframt gott verkfæri í baráttunni gegn einelti.
Það að banna allt mögulegt leiðir til þröngrar einsleitni, umburðarleysis, og harðlyndi eins og saga okkar hér á Skerinu lýsir. Innleiðum ekki nýtt form af skoðunarhömlum. Hyllum frelsið og fjölbreytnina, alla liti regnbogans!

Um þagnarskylduna

Um leið og ég tek undir með biskupi um skýrar lagaskyldur þá varpa ég fram nokkrum spurningum:

  • Hvernig eiga skjólstæðingar presta að átta sig á takmörkunum þagnarskyldu?
  • Er heppilegt að loka brotamanninn svo úti að hann nái hvergi tengslum við skynsama manneskju án þess að farið verði með það til yfirvalda?
  • Brotamaður er einnig manneskja eins og við, Guðs barn og er í sárari þörf fyrir aðstoð en  flestir menn. Þarf ekki að gefa honum gaum sem manneskju, vísa honum á rétta leið?
  • 'A manneskja sem hefur orðið fyrir misbeitningu ekki að eiga þess kost að ræða við ráðgjafa án þess að hann fari með það til yfirvalda?
  • Hvað á að koma í staðin fyrir örugga þagnarskyldu?

Kirkjan og kynferðisbrotin

 Umræðan þessa dagana finnst mér bera keim af Þórðargleði, ef ekki hreinni meinfýsni. Í leiðara Fréttablaðsins í dag ber og á einhverju yfirlæti sem ég kann ekki við. Þjóðkirkjan hefur lært sína lexíu hygg ég, og gekk í gegnum þrengingar vegna umtalaðra mála. Í tilviki fyrrum yfirmanns hennar vorum við í þeim sérstæða vanda að hann var einmitt það, yfirmaður okkar, og hafði aðstöðu til þess að gera ýmsa í kringum sig meðvirka. Ekki síst vegna þess að það var svo vont að fá sig til þess að trúa því upp á hann sem hann var sakaður um. Það mál virðist ekki hafa náð til enda enn og vont um að ræða þar sem maðurinn er látinn. Þó hefur konan sem brotið var á fengið afsökunarbeiðni æðstu stjórnar kirkjunnar og virðist eftir atvikum sátt við þær málalyktir.Í kjölfarið hefur Þjóðkirkjan gert margvíslegar ráðstafanir og umbætur og sýnt greinilegri vilja en flestir aðrir í þjóðfélaginu til að læra af reynslunni og þróa leiðir til að sporna við ónáttúrunni og vonskunni sem og viðbrögðum við misgjörðum ef þær henda.Málefni sóknarprests eins sem mikið var rætt þvældist fyrir Þjóðkirkjunni vegna ákvæða laga sem miða við nokkuð aðra stöðu en er innan kirkjunnar. Kirkjan er mótandi og leiðbeinandi siðgæðis og getur ekki þolað neinn vafa um starf sitt í þeim efnum. Þannig verður embættismaður hennar einfaldlega að stíga til hliðar ef kynferðisbrotamál sem á hans hendur er beitt kemur upp, jafnvel þó það kunni að virðast ósanngjarnt og gefa andstæðingum hans mögulegum vopn í hendur. Það var vanda bundið í því tilfelli, en af báðum dæmunum má læra einmitt nauðsyn þessa fyrir prest, kirkju og brotaþola eða ákæranda. Öllum farnaðist betur ef með mál þeirra nyti faglegrar meðhöndlunar í skjóli fyrir almennri umfjöllun, án þess þó að efni og niðurstöðu máls þyrfti að þagga.Sem sagt: Þjóðkirkjan hefur sýnt vilja og viðbrögð til þess að hafa meðhöndlun kynferðisbrotamála í lagi hjá sér og óþarft að tala niður til hennar þessa vegna. Það er víðar bottur brotinn og gái hver að sér.

Kirkja að starfi

Það er undarlegt þegar heimsviðburðirnir taka að stýra athöfnum manns. Ég ætlaði að vera kominn suður til Keníu í sólina þar og vera farinn að kenna þarlendum trúsystkinum að prédika Guðs orð. Þar eru hinsvegar mannskæðar óeirðir og ég er beðinn að fara hvergi. Ég sit í staðinn og reyni að skrifa eitthvað og fer á mannamót. Í gær var mér boðið að vera við innsetningu sr. Þorvaldar Víðissonar í embætti miðborgarprests. Það embætti átti ég hlut að að stofna í Samvinnu við KFUM&K þegar sr. Jóna Hrönn Bolladóttir kom til starfa í Dómkirkjunni árið 1998. Nú er því skipað með samstarfssamningi borgar og Dómkirkju. Bæði eru þau og aðrir sem þessu starfi hafa gegnt mikið ágætisfólk. Sr. Þorvaldur hefur farið upp með marga góða hluti nú þegar og það er Dómkirkjunni til mikils vegsauka að standa fyrir þessu starfi. Dagur Eggertsson, borgarstjóri, var viðstaddur og lýsti áhuga allra borgarráðsmanna með þetta starf í miðborginni og sagði jafnframt að hann hefði tekið eftir því að sífellt væri þess merki að sjá að eitthvað væri um að vera í kirkjum borgarinnar. Ævinlega væru bílar í hlaði kirknanna þegar maður færi þar hjá. Hann dró athygli að margháttuðu samstarfi borgaryfirvalda við trúfélögin í borginni. Bæði er þar um að ræða störf á tómstundasviði, félagsþjónustu og fræðslu. Þetta er af því að kirkjurnar eru virkar í þjóðfélaginu og hafa á að skipa fagfólki og áhugafólki um velferð og uppbyggingu manna. Það liggur í eðli kirknanna. Á þessu sviði hefur enginn talað um aðskilnað og þó eru margháttuð gagnvirk samskipti. Í þessu efni er ekki eðlismunur á samskiptunum hvað varðar ríkið. Munurinn felst í formi samskiptanna. Samskipti Þjóðkirkjunnar við ríkið eru byggð á sögulegum formum á þjónustu sem varða heill þegna landsins. Og það má Þjóðkirkjan eiga að varla eru um það dæmi að hún geri sér mannamun eftir trúfélagsaðild þegar kemur að hjálparþörf. Ef til vill er hér komin ákveðin skýring á viðleitni hennar til að koma þjónustu sinni sem víðast að. Það er eðli þjóðkirkju að vera alltumfaðmandi og það er sérstakt einkenni lúthersku að draga ekki mörk, loka ekki borði sínu fyrir neinum. Það eru fyrst og fremst aðrir sem gera það. Þjóðkirkjunni gengur ekki annað en gott til með þessu, en þó má hafa skilning á því að ýmsir vilja að sumt af þessu að minnsta kosti sneiði hjá þeirra garði. Ég er ekki viss um nema það sé eðlilegt að þeir beri sjálfir ábyrgð á því að afsaka sig frá þessu miðað við hvernig er í pottinn búið. Ég held að allir, bæði prestar og aðrir ábyrgðamenn vilji sýna slíku skilning og fara þannig með að það styggi sem fæsta.

"Sígild" grein um kirkju og skóla

Ég birti grein undir neðangreindu nafni í febrúar 2003 líklega í DV. Mér finnst hún eiga við enn í dag.

Ólík trúarviðhorf í fjölgreiningarsamfélagi Á dögunum (Feb 2003) var haldinn fundur með prestum og leikskólastjórum í Vesturbænum um nærveru kirkjunnar í leikskólanum. Sá fundur var haldin í kjölfar umfjöllunar í leikskólaráði borgarinnar um það efni. Að sjálfsögðu var þar áréttað að ekki væri við hæfi að vera með "trúaráróður" í leikskólunum en talið sjalfsagt að skólar gætu haft kirkjuheimsóknir á dagskrá sinni.Einn prestanna sr. Sigurður Pálsson sem einnig er uppeldisfræðingur gaf út í fyrra bókina Börn og trú þar sem fjallað er um trúaruppeldi barna. Þar færir hann fram rök fræðimanna sem hníga að því að ekkert barn verði alið upp í trúarlegu tómarúmi. Annað hvort er það alið upp í einhverri trú eða trýleysi sem einnig er trúarafstaða sem mótar viðhorf þess. Hann rekur ennfremur að foreldrarnir eru sterkustu mótunaraðilarnir í þessum efnum sem öðrum. Nær ómögulegt er að komast þar fram með nokkur áhrif sem standa gegn viðhorfum foreldranna. Í skólastarfi ber það bestan árangur sem er í bestu samræmi við heimili hvers bans.Ísland er eins og önnur vestræn lönd að verða fjölmenningarland. Þetta er einmitt mest áberandi í Vesturbænum af einhverjum ástæðum. Þar er nær fimmti hver maður utan Þjóðkirkjunnar. Þetta kemur fram í skólunum einnig. Þar eru börn af ýmsum trúarbrögðum, litarafti, þjóðerni og sambúðin er ekki alltaf alveg árekstalaus.Hvernig á að snúast í þessu? Er unnt að skapa eitthvert hlutleysi til viðhorfa og siða og móta kennslu og skólastarf af því? Hver maður hlýtur að sjá að það er ómögulegt.Fulltrúi frá Alþjóðahúsinu gerði grein fyrir því á fundi fyrir skömmu að þau börn næðu bestum árangri í námi sem hefðu best tök á móðurmáli sínu og þjóðmenningu. Þetta hafa fleiri fundið og Íslendingar á Norðurlöndum hafa verið þakklátir fyrir alla kennslu fyrir sín börn í þeim efnum.Eina leiðin í þessum efnum er að kenna virðingu fyrir ólíkum háttum og viðhorfum manna í fjölgreiningarþjóðfélaginu og það ber að hefja það strax í bernsku. Það er allt í lagi að fólk hafi mismunandi trú, litaraft, þjóðerni, já og kynferði.Það er td. ekkert vandamál fyrir stráka að skilja það að þeir eigi ekki að fara á sömu salernin og stelpurnar og að það er í jafn góðu lagi fyrir stelpur að vera stelpur og fyrir stráka að vera stráka. Þannig er það einnig í lagi að vera þeldökkur eða rauðhærður og freknóttur. Þannig er það í besta lagi að vera í Þjóðkirkjunni og kunna ekkert annað en íslensku og líka að vera búddisti og tala best thailensku þó maður þekki ekkert land betur en Ísland.Leikskóli og skólastarf tekur orðið yfir svo mikinn tíma af degi og tilveru hvers barns að það hlýtur að teljast afar mikilvægt hvað þar fer fram og hvernig háttum er hagað þar. Því er hollt að leikskólastafið sé auðgað með heimsóknum á báða vegu, þó innan takmarka reglu og hæfilegs stöðguleika í dagsrásinni.Kirkja og foreldrar ganga við skín barna inn í samkomulag um samstöðu í trúaruppeldi. Hvor aðilinn um sig hefur tilteknar skyldur í því efni. Kirkjan að sínu leyti að veita fræðslu í kristindómi og tækifæri til samfélags í trú. Foreldrarnir að kenna börnum bænir og veita þeim holla fyrirmynd í orði og æði.Niðurstaðan af þessu er að það er eðlilegt að kirkjan bjóði leikskólabörnum sem og öðrum skírðum börnum í heimsókn í kirkjuna og sæki þau heim með fræðslu og helgihald. Þau börn sem foreldrarnir telja að slíkt eigi ekki erindi við þeirra börn láta þá af því vita og þeim er séð fyrir annari dagskrá á meðan. Sömuleiðis væri eðlilegt að fræðari í búddadómi fengi að heimsækja á leikskólanum sín safnaðarbörn og að þau börn sem ekki teldust eiga erindi við hann hefðu þá dagskrá á meðan með sama hætti.Þannig læra börn frá fyrsta fari að virða trú hvers annars og lifa saman í einu þjóðfélagi sátt við þá staðreynd að ekki eru allir eins, hvorki í trúarefnum sem öðrum.

Jesús og síminn

 Úr prédikun sunnudagsins sjá www.domkirkjan.is

Samfélagið má vel taka í hornin á kirkjunni og hjálpa henni að sjá í hverju henni er áfátt en hún getur ekki byggt sig út fyrir grundvöll sinn. Þá hrynur hún eða breytist einfaldlega í geimstöð, án sambands við raunveruleikann. Og sá grundvöllur er Kristur. Við megum alls ekki skola honum út með þvottavatninu þegar við hreinsum kirkjuna okkar, því það er hann sem hreinsar okkur, ekki öfugt. Jesús Kristur er söguleg persóna, gleymum því aldrei. Guð kom til fundar við okkur mennina í þessum smið frá Galíleu fyrir 2000 árum. Umræðuefnið er því hvað hann sagði og gerði. Með því að vega það og meta og skoða í ljósi samtíðar okkar og samhengis hans munum við fá þá vitneskju sem við þurfum til þess að sjá með augum Guðs hvernig hlutunum er varið. Til þess var auglýsing Jóns Gnarrs vel til fallin. Verst að hann skyldi ekki hafa aðra leið en að auglýsa alls óskylt efni í leiðinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband