Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Bágstaddar þjóðir

 Ég las grein Lydíu Geirsdóttur sem var viðbúið framlag í umræðunni um þróunaraðstoð og neyðarhjálp. Það er hægt að taka undir með henni í einu og öllu og leggja inn vinkil sem ég tæpti á í gær. Það er nefnilega svo að við nú eldri menn gleymum því stundum að það er ekki rétt sem okkur var kennt að vísindin efli alla dáð, hugsað í þeirri merkingu að vísindin leysi  allt. - Vísindin geta ekki markað vilja manns. Þau upplýsa að sönnu huga hans og vísa veg að lausnum en ákvörðun manna er rótuð í vilja þeirra. Þess vegna kemur þróunaraðstoð aldrei að fullu gagni. Það verður ekki úr henni nákvæmlega það sem við ætlumst til.Valdamaður á hörmungasvæðum tekur ákvarðanir á sínum forsendum og þær eiga sér aðrar ástæður en okkur þykja liggja í augum uppi. Hjálpin kemur því ekki að fullu gagni. Hvað gerum við þá, vestrænir vísindahyggjumenn? Við gerðum vel í að spyrja nokkurra spurninga og setja okkur betur inn í aðstæður manna. Og við gefumst ekki upp. Réttlætum ekki O,25% okkar með því að segja að það þýði ekkert að reyna að hjálpa þessu fólki.Við skulum kenna þeim sumt af því sem við kunnum. Ekki allt, því ekki er allt okkar hæft til útflutnings. Við lærum af þeim um leið hvernig þau hugsa og meta land sitt og sjá þjóðfélag sitt. Og við kennum þeim líklega ekkert betra en að sjá tilveruna sem sköpun elskandi Guðs og að líta á manninn sömu augum og Jesús frá Nasaret. Ég hef séð með eigin augum hverju það breytir. Ný sýn, nýjir möguleikar og kjarkur til að taka sér nýtt fyrir hendur. Framtíðarsýn hér og handan heims. Kennum þeim svo að bjarga sér betur. Kennum þeim betra verklag og að hirða betur um heilsu sína. Hjálpum þeim að nýta landið betur.Við skulum svo afla okkur þess orðs að við séum manna snöggvastir til að skunda til hjálpar og veita bráðnauðsynlega fyrstu aðstoð. Hér erum boðleiðir styttri en nokkurs staðar í veröldinni. Á tveimur dögum getum við sett á loft flugvél hlaðna hjálpargögnum og hjálparliðum og verið komin á vettvang. Gaman væri a verða fræg af slíku. Það mundi muna meira um okkar litla skerf með þessu móti.Við gefumst ekki upp þótt sum af okkar framlögum komi ekki fyllilega að notum og kippum ekki að okkur hendinni þó hún særist við að rétt fram framlagið.Það er verðug virðing borin fyrir því fólki úr okkar röðum sem hafa gegnið fram fyrir skjöldu að leggja fátækum þjóðum lið og eim stofnunum sem á að því standa.

Um gjafmildi

Fermingarkrakkar eru að ganga í hús þessa dagana. Einn fermingardrengur frá í vor vildi gefa alla ferminagrpeningana sína en foreldrar hans forðuðu honum að nokkru frá þeirri vitleysu! Rauði krossinn er að safna handa fólki í Afríku og Björgunarsveitirnar eru líka að safna. Sumir söfnuðir Þjóðkirkjunnar eru að taka upp þann sið að hafa samskot í messum eins og gjörvöll kirkjan hefur gert frá upphafi. Ég staldra við þetta og rifja upp fyrir mér stórar safnanir sem ég hef komið nærri og hugsa með frænda mínum Sigurði Guðmundssyni nýkomnum frá Malaví að ekki komi nú allt að sama gagni. Ég rekst þá á þessar hugleiðingar sem komu til mín á netinu í gær í samhengi hvor við aðra. Það er Jesús frá Nasaret sem talar í þeirri fyrri: „Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald. Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.“ Lúk 14:12-14
Svo leggur einn hinna fornu kirkjufeðra út textann með þessum hætti: ”Dragið lærdóm af ógæfu annarra og berið hag hinna þurfandi fyrir brjósti, jafnvel þó að hjálpin sé ekki mikil. Fyrir þann sem skortir allt vegur þetta þungt. Sama má segja um Guð ef þið hafið gert það sem þið getið. Verið skjót til að veita hjálp þó að gjöf ykkar sé ekki mikil að vöxtum. Ef þið hafið ekkert fram að færa bjóðið þá tár ykkar. Samúð sem sprettur fram úr hjartanu veitir hinum ógæfusömu mikla huggun og einlæg meðaumkun gæðir beiskju þjáninganna sætleika.” (Heil. Gregoríos frá Nazíanzen 330-390)
 Ég sé hinn samúðarfulla mann í nokkrum vanda, þann mann sem ekki vill ganga framhjá þurfandi fólki. Á samvisku hans hvílir sú vitund að hann skuli hjálpa. Hann skuli ekki láta undir höfuð leggjast, hvorki vegna óvissu um að hjálpin komi að tilætluðu gagni, né af því að hann sé illa aflögufær. Hann gefur því, og af því að hann liggur ekki á liði sínu á hann rétt á að hjálparstofnanir fari með framlag hans af ábyrgð og biður fréttamenn og opinbera eftirlitsaðila að fylgjast með því. En hann gerir meira. Hann tekur þátt í umræðu um það hvernig aðstoð skuli háttað og spyr uppi álit og hagi þeirra sem aðstoðina eiga að þiggja og leggur mat á ásamt öðrum áhugasömum. Og hann gefur ekki hina bágstöddu upp á bátinn þó einhverjum verði á í messunni, því það er óhjákvæmilegt hvort eð er. Þannig er nú mannana verkum einu sinni farið alla jafnan. Af mistökunum lærum við og höldum ótrauð áfram og gefum af meiri ábyrgð en áður. PS Ég vona að alþingismenn verði ekki svo lánlausir að leyfa sölu víns í MATVÖRUVERSLUNUM! ( Ég held að nær sé þá að leyfa sölu hass og amfetamíns í áfengisverslununum!)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband