Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Kirkja að starfi

Það er undarlegt þegar heimsviðburðirnir taka að stýra athöfnum manns. Ég ætlaði að vera kominn suður til Keníu í sólina þar og vera farinn að kenna þarlendum trúsystkinum að prédika Guðs orð. Þar eru hinsvegar mannskæðar óeirðir og ég er beðinn að fara hvergi. Ég sit í staðinn og reyni að skrifa eitthvað og fer á mannamót. Í gær var mér boðið að vera við innsetningu sr. Þorvaldar Víðissonar í embætti miðborgarprests. Það embætti átti ég hlut að að stofna í Samvinnu við KFUM&K þegar sr. Jóna Hrönn Bolladóttir kom til starfa í Dómkirkjunni árið 1998. Nú er því skipað með samstarfssamningi borgar og Dómkirkju. Bæði eru þau og aðrir sem þessu starfi hafa gegnt mikið ágætisfólk. Sr. Þorvaldur hefur farið upp með marga góða hluti nú þegar og það er Dómkirkjunni til mikils vegsauka að standa fyrir þessu starfi. Dagur Eggertsson, borgarstjóri, var viðstaddur og lýsti áhuga allra borgarráðsmanna með þetta starf í miðborginni og sagði jafnframt að hann hefði tekið eftir því að sífellt væri þess merki að sjá að eitthvað væri um að vera í kirkjum borgarinnar. Ævinlega væru bílar í hlaði kirknanna þegar maður færi þar hjá. Hann dró athygli að margháttuðu samstarfi borgaryfirvalda við trúfélögin í borginni. Bæði er þar um að ræða störf á tómstundasviði, félagsþjónustu og fræðslu. Þetta er af því að kirkjurnar eru virkar í þjóðfélaginu og hafa á að skipa fagfólki og áhugafólki um velferð og uppbyggingu manna. Það liggur í eðli kirknanna. Á þessu sviði hefur enginn talað um aðskilnað og þó eru margháttuð gagnvirk samskipti. Í þessu efni er ekki eðlismunur á samskiptunum hvað varðar ríkið. Munurinn felst í formi samskiptanna. Samskipti Þjóðkirkjunnar við ríkið eru byggð á sögulegum formum á þjónustu sem varða heill þegna landsins. Og það má Þjóðkirkjan eiga að varla eru um það dæmi að hún geri sér mannamun eftir trúfélagsaðild þegar kemur að hjálparþörf. Ef til vill er hér komin ákveðin skýring á viðleitni hennar til að koma þjónustu sinni sem víðast að. Það er eðli þjóðkirkju að vera alltumfaðmandi og það er sérstakt einkenni lúthersku að draga ekki mörk, loka ekki borði sínu fyrir neinum. Það eru fyrst og fremst aðrir sem gera það. Þjóðkirkjunni gengur ekki annað en gott til með þessu, en þó má hafa skilning á því að ýmsir vilja að sumt af þessu að minnsta kosti sneiði hjá þeirra garði. Ég er ekki viss um nema það sé eðlilegt að þeir beri sjálfir ábyrgð á því að afsaka sig frá þessu miðað við hvernig er í pottinn búið. Ég held að allir, bæði prestar og aðrir ábyrgðamenn vilji sýna slíku skilning og fara þannig með að það styggi sem fæsta.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband