Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Húsafriðunarnefnd hefur ekkert lært

Húsafriðunarnefnd vaknar nú enn einu sinni af Þyrnirósarsvefni og geysist fram gegn byggingu Þorláksbúðar í Skálholti. Bæði hún og aðrir sem hafa talað gegn þessu verki hafa í raun fyrirgert rétti sínum til afskipta af málinu, því það er rétt sem sagt er að þetta mál hefur ekki gengið fram í neinum felum og aðilar nánir td Húsafriðunarnefnd hafa haft um málið að segja og ekki lagst gegn. Hins vegar er það kannski klökkt á að horfa að æsingu skuli þurfa til þess að opinberar stofnanir hrökkvi í gír. Það að þær séu opinberar, á vegum ríkis eða bæja, veitir þeim ekki rétt til þess að vaða yfir verk manna eins og þursar.
Nú er og á að líta að þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá andmælendum verkefnisins standast ekki röklega skoðun. „Folald skyggir ekki á móður sína“, né skyggir móðir á barn sitt. Við það verður að búa að Skálholtsdómkirkja hin nýja dvelur í umhverfi þar sem forminjar eiga sér helgaðan sess frá því áður en hún reis, svo tilkomumikil sem hún er. Til þess verður að taka tillit. Mönnum kann jafnvel að þykja ástæða til að leiða fram úr mósku aldanna fleiri eldri byggingar og ekki er við hæfi að hún, svo reisuleg sem hún er, leggi allar slíkar athafnir í Dróma ef komandi tími vill hið andstæða. Til þess hefur hún ekki kall.
Nýbyggingin er byggð yfir forminjarnar á svo haglegan máta að ekki verða þær betur varðveittar en ráð er fyrir gert. Hún sýnir okkur inn í ríka sögu staðarins og minnir með áþreifanlegum hætti á fornan veruleika fyrir okkur að sjá og meta. Hvergi skyggir hún á dómkirkjuna nema frá stíg heimamanna. Í fjarsýn og ekki heldur af heimreið ber hana við helgidóminn. Þorláksbúð gæti í raun ekki verið betur staðsett gagnvart hinni nýju kirkju en hún er og ef til vill var það hugsunin í fyrndinni því dómkirkjan stendur þar sem þær hafa ævinlega staðið; hugsun sem kannski ber að meta.
Ég hef áður séð Húsafriðunarnefnd gera tilraun til þess að spilla miklum fjármunum fyrir fólki með því að hrökkva upp af svefni þegar aðrir höfðu verið lengi á fótum við verk sín og æðrast yfir því sem fram hefur farið á meðan hvíldar var notið. Ég get því fullyrt að hún kann að koma ringulreið á svið þar sem hún átti að fara fyrir með fortölum ef hún vildi koma sjónamiðum sínum áleiðis.
Áður var stundum sagt að menn skyldu segja meinbugi á þá og þegar eða þegja ella. Það hefur átt við Húsafriðunarnefnd í þessu tilfelli og gildir sama um þá sem hófust upp nú á haustmissirinu um málefni Skálholts.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband