Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Eftir vantrauststillögu

Naumara gat það varla verið! Lagast kannski þegar Sif og Guðmundur Steingrímsson verða komin í Samfylkinguna. Vg eru hins vegar klofin í herðar niður og áhugavert að spá í hvorar áttir helmingarnir falla. Er ekki rétt að Ásmundur fari í bændaflokkinn og bæti þeim þannig skaðann? Lilja gæti slegið sig saman með Hreyfingunni og væri þeim þannig bættur Þráinn. Atli passar hvergi lengur. Hins vegar væri kannski eðlilegt að allir kettirnir í Vg settu saman nýjan flokk og þá gæti mögulega restin farið heim til félagshyggjufólksins lærdóminum ríkari á að það þarf að afla fjár fyrir velferðina og jafnfram eflt þann flokk í umhverfismálum. Þeim veitti ekki af því.Það er gaman að horfa á framþróun sápunnar en varla hægt að missa af neinum þætti því núna eru hlutirnir að ske. Þetta er ekki í alvöru, er það nokkuð?

Vantraust á ríkisstjórnina

Það er í hæsta máta eðlilegt að fram komi vantrauststillaga á Alþingi á þessa ríkisstjórn. Svo margt hefur borið við að undanförnu og margt komið fram að rétt er að til atkvæðagreiðslu verði efnt og kannað hvort hún nýtur enn stuðnings. Stjórnin sem hefur unnið af eindæma þráa við að koma okkur áfram í hafvillum kreppuára hefur misst kúrsinn og það sem verra er að hefðu menn grun um stefnuna þá miðar ekki neitt.Fólk og fyrirtæki reyna að bjarga sér og vesöld krónunnar veldur því að útflutningsgreinarnar skila mörgum krónum í þjóðarbúið eins og er. En hvorki fólkið né fyrirtækin tolla hér, enda kalla menn á að viðnám sé veitt. Um sókn þora menn ekki að tala. En það er það sem við þurfum. Vinstri græn halda öllu í krampataki sínu, að sínu leyti lík bátsmanni sem hamast við að ausa lekan bát í stað þess að þétta hann og reyna að koma á hann ferð að áfangastað. Samfylkingin er lánleysið uppmálað við þessar aðstæður og Össur verður að Donkíkóta með EU umsókn sína. (Hún mun seinna verða tímabær en ekki við þær aðstæður sem við búum við núna.)Nei, við verðum að kjósa nýtt þing, kalla fram farsælli ferðaáætlun og afhenda nýtt umboð til leiðsagnar á fast land fyrir þjóðina. Það er allt í lagi að kjósa. Við ræðum pólitík alla daga hvort eð er og það tekur augnablik að skjótast á kjörstað. Kjósum meðan sól hækkar enn á lofti!

Það þarf að klára þetta.

Ég er búinn að kjósa og sagði JÁ. Allt fannst mér bjóða það. Þó urðu þeir Ragnar Hall og Jesús til að setja í mig sannfæringuna. Fyrst Jesús því hann sagði: Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann... Lúk 12:58 Ragnar sagði það sama og taldi engan vanheiður af því að sættast á mál þó manni finndist að rétturinn væri manns megin. Að sættast á mál er líka dæmi um samskiptahæfni. (Fer að vísu eftir niðurstöðunni.) Málalok er líka góður áfangi.

Segjum því JÁ og höldum áfram að vinna okkur út úr kreppunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband