Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Um Þorláksbúð


Það er kannski ekki mesta nauðsynjamál samtímans að byggja upp Þorláksbúð í Skálholti, en hún hefur nú verið á döfinni um hríð og er senn fullgerð. Tilgátuverk hjá þjóð sem fátæk er af byggingarminjum. Auðunarstofa var byggð á Hólum, bær í Þjórsárdal eftir rannsóknum á Stöng, kirkja í Vestmannaeyjum svo eitthvað sé nefnt.
Nú hefur mönnum þótt ástæða til þess að fetta fingur út í þetta verkefni og til þess kunna að vera ástæður, en líklega allar í eftirþankanum. Sagt hefur verið um Rousseau að hann hafi ólíkt hinum orðsnara Voltaire aldrei vitað hvað rétt væri að segja fyrr en hann var á leið niður tröppurnar úr veislunum í París. Brjóstumkennanlegt.
Nú hefur það varla farið framhjá þeim sem unna Skálholti að uppbygging Skálholtsbúðar hafi verið á döfinni. Ekki hafa þeir reynst staðnum betri vökumenn en svo að þeir fara þá fyrst að hósta þegar loka á dyrum þessa verkefnis. Finnist þeim þetta svo mikið ólán, þá hefðu þeir átt að segja frá því fyrr.
Vissulega er þetta álitamál og kannski hefði þetta farið betur á annan veg. En þær ákvarðanir sem þetta varða voru teknar í sínum samtíma á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og skulu því dæmdar samkvæmt því, og nú er svo komið sem komið er.
Að sjálfsögðu þarf að tryggja að öll tilskilin leyfi og samsinni erfingja höfundarréttar séu fengin og rétt hjá Kirkjuráði að láta fara í athugun á því, en ekki má lengi tefja verkið svo ekki spillist.
Sjálfur hef ég séð aðdragandann svo sem úr fjarlægð og var ekki um sel þegar góðir og mætir menn fóru fram á ritvöllinn og mótmæltu þessu. Ég þakka framkomnar athugasemdir í fjölmiðlum að undanförnu og hef gert mér gagn að þeim. Mér sýnist hins vegar ótvírætt að þetta verk beri að klára samkvæmt áætlun.
Hvað staðsetningu varðar þá er það hún sem gefur verkefninu sterkustu sögutenginguna. Byggingin var í öndverðu sett niður þar sem kapítulahús stóðu helst við dómkirkjurnar og er því aldeilis kórrétt.
Þeir sem kunnugir eru staðháttum þarna sjá í hendi sér að hvergi gæti þetta hús staðið á staðnum þar sem það færi betur með kirkjunni; skyggir í engu á hana tilsýndar nema af staðartröðinni sem heimamenn einir nota. Aðkoman að staðnum, tilsýnin úr vestri, suðri og austri spillist í engu.
Skálholt er forn staður, en fátt það sem dregur hugann að fornum tíma ber fyrir augu annað en bæjarstæðið eitt, og göngin. Ef til vill munu bæjarrústirnar fá þann umbúnað síðar að úr bætist, en þetta verk ber að þakka.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband