Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Nýja stjórnarskrá núna.

Mér líkar ekki hvernig Alþingi hefur tekið á stjórnarskrármálinu!
Ég ætla því að taka það úr höndum þess uppúr hádeginu þann 20. október næstkomandi og hafa það í eina mínútu en skila því svo aftur í sömu hendur með þeim skilaboðum að það vinni sitt verk á stjórnarskrárfrumvarpinu snöfurmannlega, af ábyrgð og með bestu manna yfirsýn.
Ef við verðum mörg sem samþykkjum að á frumvarpi Stjórnlagaráðs verði byggt er það áskorun á Alþingi að gera því skil eftir þess hljóðan. Ef við verðum mjög mörg þá duga því engin undanbrögð lengur að það taki sinn lögmælta þátt í að setja þjóðinni stjórnarskrá.
Dugleysi Alþingis í þessu efni er dapurlegt og metnaðarleysið grátlegt. Í 68 ár hefur verkið verið á dagskrá og væri í sjálfu sér alger ómerking á Alþingi ef mannréttindakaflinn hefði ekki orðið til á hálfrar aldar afmæli hennar. Nær allur atbeini þingsins er dæmi um klaufaskap og einurðarleysi.
Spurningarnar á atkvæðaseðlinum eru að nokkru dæmi um sleifarlag. En grundvallarspurningin er klár og það dugir mér til þess að koma vilja mínum til skila. Hún er milljónarspurningin! Ég brenn í skinninu að svara henni!
Lofsvert er hins vegar það starf sem Þjóðfundur, Stjórnlaganefnd og Stjórnlagaráð hafa unnið svo langt sem það getur náð. Það er þannig til orðið að ekki er annað hægt að virða það frumvarp sem fyrir liggur. En það þarfnast ákveðinnar yfirvegunnar, rannsóknar og ábyrgðar sem aðeins Alþingi getur staðið undir.
Nú ætla ég að skora á fólkið í landinu að koma með mér á kjörstað 20. október og segja þingmönnum fyrir verkum. Þeir eru í vinnu hjá okkur og eiga að vinna sitt verk eftir okkar forsögn.
Nýja stjórnarskrá eftir fyrirsögn Stjórnlagaráðs, fyrir vorið, takk fyrir. Við bíðum ekki lengur!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband