Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Hvað getum við tekið jólin langt?

 

Mönnum verður á þessum dögum árs tíðrætt um þýðingu jólanna og takast aðeins á um hvað þau eru eiginlega. Þau eru eflaust eldforn og hvert menningarsamfélag hefur gefið þeim inntak að sínum hætti. Heitið jól er komið úr norrænni heiðni og tengist mánaðarheitinu jólnir sem einnig er eitt nafna Óðins. Menn vita ekki merkingu þess. Sumir nefna tengsl þess við heitið öl og þann sið að „drekka jól.“

Ég velti fyrir mér hvort menn nýta sér ekki hátíðina á misjafnan hátt; taki hana mis „langt.“ Þá gæti það ef til vill verið einhvern veginn  svona

  1. Jólin eru miðsvetrarhátíð á norðurhveli jarðar og þá fagna menn því að dag fer aftur að lengja.
  2. Jólin eru kærkomnir frídagar á miðjum vetri, tækifæri til að gera sér dagamun.
  3. Jólin eru fjölskylduhátíð með börnin í forgrunni.
  4. Jólin eru fjölmenningarleg hátíð með trúarlegu ívafi.
  5. Jólin eru kristin/ gyðingleg/ ásatrúar meginhátíð.
  6. Jólin eru fyrir kristnum mönnum fæðingarhátíð Frelsarans og hafa mótað menningu vestrænna þjóða gífurlega.
  7. Jólin eru kirkjulegur fögnuður yfir nærveru Guðssonarins í lífi mannanna.

Það má gera sér það í senn til gamans og gagns að staðsetja sjálfan sig á þessum skala. Hvað tekur þú jólin langt. Stig 6 og 7 eru auðvitað bundin við menningarheim okkar, enda eru ekki allir uppteknir af þessum snúningi jarðar um sólu sem okkur skiptir svo miklu máli. Aðrar menningarheildir hafa auk þess annan trúargrundvöll til að túlka lífsrás sína.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband