Nokkrir þankar um kirkju og skóla
10.12.2007 | 14:11
Nokkrir þankar um kirkju og skóla Það er vert að skoða nánar ýmisegt sem hefur verið haft á orði í umræðunni um þessi mál að undanförnu. Fyrst það að aðkoma kirkjunnar að skólastarfi sé nýtilkomin. Það má ef til vill gilda um leikskólann og er enda þar flest nýtt. En um grunnskólann gegnir öðru máli og er skilt skeggið hökunni í þeim efnum þó minna sé en sumir vildu. Nú má ég af sjálfum mér reyna þetta nokkuð. Prestar sátu jafnan í skólanefndum, voru kennarar og prófdómarar í barnæsku minni og helgaðist það af því að þeir höfðu löngum borið ábyrgð á barnafræðslunni í sveitum sínum. Lnagafar mínir tveir voru barnafræðarar og störfuðu á ábyrgð prestanna. Sjálfur kenndi ég talsvert bæði sem guðfræðinemi og prestur. Ég hafði allan aðgang að skólunum sem ég gat við komið enda óskað eftir samstarfi kirkju og skóla þar sem ég starfaði úti á landi. Þetta munu flestir prestar geta tekið undir og velflestum fundist eðlilegt. Það er fyrst á seinni árum að það fer að bera nokkuð á tregðu af hálfu skólans í þessu efni. Á sama tíma eykst mjög viðvera barnanna í skóla. Sá tími sólarhrings sem börn verja með foreldrum sínum og hafa til ráðrúms fyrir tómstundastarf minnkar. Það þrengir um þann tíma sem trúfræðslu verður viðkomið utan skólans. Um leið er jafnt og þétt dregið úr kristinfræðikennslu. Auðvitað verða það eðlileg viðbrögð kirkju og presta að bjóða stuðning og leita leiða til þess að styrkja kristinfræði í skólunum. Í lengdri viðveru grunnskólans hefur skapast rými fyrir þessa fræðslu og hefur það sumsstaðar verið nýtt. Og kirkjan hefur eflt á sama tíma starf sitt í þágu barna og ungmenna. Mér sýnist þetta allt eðlileg viðbrögð. Það er talað um að þessi fræðsla verði að vera á faglegum grunni og látið hljóma eins og prestar og djáknar séu amatörar í þessu starfi. Þetta er allt gagnmenntað fólk og væri nær að líkja þeim við sérkennara í sínu fagi. Starfið er einnig unnið í stærra samhengi safnaðarstarfs og undir umsjá sónarprestsins. Svo er talað um sálnaveiðar eins og börnin séu utan samhengis kirkjunnar. Grundvöllur starfanna er sá að flest börnin tilheyra Þjóðkirkjunni og foreldrarnir samþykkja og óska eftir því að þessi þjónusta sé veitt. Og aðeins um tilhliðrun skólans vegna starfa kirkjunnar. Hvað þá um íþróttastarf og listastarf? Er það ekki bannað líka? Ég held að fólk sem starfar með börnum og unglinum vítt út um landið og í mörgum hverfum höfuðborgarsvæðisins skilji ekki þetta tal. Sveitarfélagið og hverfin eru samfélagsheildir þar sem samhæfing hefur orðið að nauðsyn eftir því sem tilboðum um verkefni og vettvang fyrir ungviðið hefur vaxið og augljósari þörfin að halda utan um það og forða frá illu. Auðvitað er skólinn þátttakandi í þessari tilhliðrun. Hið opinbera er ekki og vill ekki vera neinn “stóribróðir” sem allir aðrir verða að lúta. Umfang hans eitt nægir honum til þess að hafa forgang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)