Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Kirkja í vanda

Nú er kirkjuráð búið að marka stöðu í vígslumálum samkynhneigðra. Það er búið að taka tímann sinn og líklega ekki allt búið enn. Það er leitt að heyra hvað sumir una niðurstöðunni illa og eru óánægðir með kirkjuna sína. Það er aftur á móti viðbúið að þau sem hafa að nokkru markað sér stöðu sem ekki meðlimir, þó þeir kannski séu formlega innan garðs, skuli halda áfram að senda út meiningar í þessa veru.Það er ekki hægt að segja að málið hafi ekki verið rannsakað og rætt og nú er komin niðurstaða og hún er fengin með lýðræðislegum hætti. Er ekki það þá félagsleg hugsun að bíta á jaxlinn og reyna að kyngja því? Svo er ekki heldur sannfærandi málflutningurinn sem heldur því fram að Þjóðkirkjan hafi eitthvað út úr því að níðast á samkynhneigðu fólki. Engin athugasemd hefur verið gerð um það þótt samkynhneigt fólk sé í og starfi fyrir kirkjuna. Já, jafnvel í prestembættum, enda er það í góðu lagi. Frá því kirkjan ályktað um samkynhneigð hefur það allt verið í jákvæðum anda.Málið hefur í raun snúist um hjónabandið en ekki samkynhneigð, en við höfum ekki rætt um hvað við höldum um það, eins og bent var á á kirkjuþinginu. Fyrr en við höfum ályktað um hvað það er getum við ekki breytt ályktunum okkar um það. Sjálfsagt förum við nærri um það en við höfum ekki meitlað neitt í stein svosem að heldur. Má nú ekki meta það við Íslensku þjóðkirkjuna að með samþykkt sinni hefur hún gengið lengra en nokkur önnur almenn kirkja? Er það einhver dyggð orðin að sparka í hana? Af hverju sparka menn ekki heldur í ömmur sínar? Það er í flestum tilvikum nærtækara! Sama er uppá teningnum um nýju biblíuþýðinguna. Hver þykist öðrum frægari sem fjargviðrast út í hana. Eigum við nú ekki bara að horfast í augu við að verk okkar eru aldrei betri en við sjálf og sættast við það að betur getur enginn gert en svo. Getum við ekki gert gott úr því besta sem við áorkum? Ákvarðanir og tæki, eins og hér um ræðir, marka heldur ekki allt heldur hvernig er á öllu haldið í framhaldinu.

Las í blöðunum

Að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um hjónavígslu á vegum Siðmenntar í Fríkirkjunni. Prestar Þjóðkirkjunnar hafa haft nokkra skoðun á því máli. Ég er ekki viss um að þeim komi það mikið við hvað sú kirkja gerir í slíkum málum. Samband hennar við Þjóðkirkjuna er reyndar svolítið sérkennilegt. Að sumu leyti er Fríkirkjan eins og hvert annað trúfélag réttarfarslega en hefur samt bundið sig kenningagrunndvelli Þjóðkirkjunnar. Það kemur í ljós í þeirri staðreynd td að ekki fyrir löngu vígði biskup Íslands prest fyrir Fríkirkjusöfnuðinn svo sem venja er til um. Annað virðist biskup ekki hafa með málefni hennar að gera. En það er líka þeirra mál, en það lýsir víðsýni og opnum faðmi Þjóðkirkjunnar að biskup skuli gera þetta fyrir þau umyrðalaust. Honum fer líkt og safnaðarpresti Fríkirkjunnar sem opnar faðm sinn fyrir Siðmennt. Reyndar er nokkuð sem Fríkirkjuprestur hefur oft á orði og ma í Blaðinu í morgun, það að prestar Þjóðkirkjunnar séu ríkisstarfsmenn. Það er rangt og heldur áfram að vera rangt þó hann segi það þúsund sinnum, jafnrangt og að Þjóðkirkjan sé ríkiskirkja. Ég veit ég mun ekki með þessu skrifi breyta skoðunum hans en ég get upplýst hugsanlega lesendur þessa mikið um þetta mál þó ég láti lítið eitt nægja að sinni.Prestslaun eru borin uppi eins og frá upphafi kristni í landinu af eignasafni sem fólkið í kirkjunni hefur lagt til í þessu skyni. Einingar þess hafa kallast brauð af því að það var lifibrauð prestsins og fjölskyldu hans. Með samkomulagi milli ríkis og kirkju frá 1997 var brauðunum steypt saman í eitt safn og afhent ríkinu til frjálsar ráðstöfunar gegn því að ríkið greiddi 138 prestum og 18 öðum starfmönnum þjóðkirkjunnar laun. Sér til hagræðis fer ríkið líkt með presta og aðra starfsmenn ríkisins og sömuleiðis sér til hagræðis og í anda þessa samkomulags er launaskrifstofa presta á biskupsstofu. Þannig eru prestar alls ekki ríkisstarfsmenn þó þeir njóti í ýmsu réttinda ríkisstarfsmanna. Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag sem á mikilvægan samning við ríkið svo sem fræðimenn hafa greint.Samningurinn frá 1997 er merkilegur og í anda Þorgeirs ljósvetningagoða. Það er í honum ákvæði um að þessum 138 embættum skuli fjölga eða fækka fyrir hver 5000 sem bætist eða minnkar í Þjóðkirkjunni. Ekki einusinni Salómon kóngur slær þessa snilli út. Með því er það lagt í hendur (undir fætur) fólksins í landinu hvað það vill að Þjóðkirkjan hafi úr ríkiskassanum. Það greiðir atkvæði þar um með fótunum! Meðan það er í Þjóðkirkjunni nýtur hún þess. Fari það annað geldur hún þess og fólkið fær í gegnum ríkið embættin til annarar ráðstöfunar. Segjum að fjöldaúrsagnir yrðu úr Þjóðkirkjunni og í henni minnkaði um helming. Þá fækkar prestembættum líka um helming og útgjöld ríkisins vegna Þjóðkirkjunnar minnka að sama skapi. Þett finnst mér bæði klókt og réttlátt – afar lýðræðislegt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband