Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Jólatré - Logandi runni 2Mós 3

 

 

IMG_8600Jólatréð hefur ekki átt sér ýkja langa samleið með kristninni en var í heiðni tengt ásatrúnni. Það er þó til eftirtektarverðs dæmis um hverning kirkjan hefur helgað sér eldri trúararf.

Yggdrasill var helgur meiður og fórnartré og um hann hefur ýmislegt verið lesið út frá krossi Krists en nú skulum við hugsa um annað.

Ég veit ekki hvernig litum þú manst eftir á jólatrénu þínu en ég man eftir marglitum seríum bernsku minnar, bláu stjörnuseríunni sem pabbi útvegaði einhvers staðar. Ég leitaði náttúrlega að blárri seríu þegar við Auður skreyttum okkar fyrsta jólatré, endurnýjaði seinna en svo fann ég enga bláa fyrir einhverjum árum og þá keypti ég eina rauða og núna erum við með hvít batterískerti á tré sem ég bjó til.

Þegar rauðu ljósin voru við lýði fór ég að hugsa um líkinguna við hinn logandi þyrnirunna úr frásögunni af því þegar Guð kallaði Móse til að verða leiðtogi fólks síns svo sem skrifað stendur í annari Mósebók 3. kafla. Sú saga hefur verið til tákns um sitthvað í kristinni trúararfleifð.

Móse tók eftir að runninn brann ekki – hann logaði, eldurinn sem stóð upp af honum læsti sig ekki í greinar hans og það er sem höfundur textans telji sig vita meira en Móses um þetta atriði, því hann segir að þetta hafi verið engill sem stóð upp af þyrninrunnanum; sveif í loftinu.

En rödd Guðs hljómaði úr miðjum runnanum og kallaði nafn hans tvisvar og Móse svaraði: Hér er ég. Þá sagði Guð til sín og að Móses skyldi draga skóna af fótum sér því staðurinn sem hann stæði á væri heilög jörð vegna nærveru sinnar. Það gerði Móse og fékk síðan fyrirmæli sín og verkfæri og setti mótkröfur (!) og sættust þeir síðan á samning um verkefnið.

Runninn sem ekki brann en logaði er því tákn um nærveru Guðs. Þetta þótti okkur systkinunum sjálfsagt í gamla daga, enda þó það væri ósagt, þegar við fengum að koma inn í stofuna heima í Ásgarði áður en haldið var til kirkju klukkan sex. Já við áttuðum okkur á því að nú var stofan okkar heilagt rými þó enginn segði okkur það og allir pössuðu vandlega upp á það að grenitréð okkar færi nú ekki að brenna, því í fyrstunni vorum við með kertaljós sem loguðu svo fallega og lítil börn vildu snerta í hrifningu sinni.

Pabbi sem flest gat nú var oft í vandræðum með seríuna sem hann fékk sér vegna eldhættunnar strax og slíkur búnður var fáanlegur. Svo fór að það kom aldrei eldur í tréð en það logaði á ljósi á hverri grein.

Jólatréð í stofunni þinni á að segja þér að himininn hafi teygst alla leið niður á stofugólfið hjá þér og Guð sé hér, hjá þér og þínum og ekki aðeins það, heldur vilji hann þér nokkuð. Þú hefur eins og Móses sitthvað um það að segja og getur gert gagnkröfur og þannig verður til samningur ykkar á milli, gagnkvæmur samningur. Það heitir í alþjóðastjórnmálunum „bilateral“ samningur.

Já, þú ert ekki róbót eða strengjabrúða og þarft að samþykkja fyrir þitt leyti samninginn og þá segja til hvað til þurfi að þú fallist á hann. Og sjáðu hve mikils Guð virðir þig að hann yfirleitt hlusti á þig; hann er sannur diplomat. Og af því þetta er svona og þú og aðrir frjálsir að vali sínu og gerðum þá geturðu ekki kennt Guði um ef illa fer. Ef þú hugsar þig vel um þá muntu sjá að fátt er Guði að „kenna“, en hann tekur hins vegar ábyrgð á öllu havaríinu og bætir um; hefur allan heimsins mátt margfaldan og eilífðina til þess.

Sennilega er óvíst hvor ykkar kemur fram með fyrsta samningasatriðið – fjölskyldu þína. Hann felur þér að leiða þitt fólk eins og Móse og þú biður hann að gæta þess. Þú minnir hann á að þú sért ekki mikils máttugur sjálfur og þá lofar hann þér aðstoð þeirra sem heilagur andi hans miðlar eftir sínum ókennilegu leiðum. Fólk hjálpar eða ekki og ber því ábyrgð á aðgerðarleysi sínu sem og meingerðum. Guð er ekki á ferðinni með strokleður og strokar út úr tilverunni vond verk manna, því við erum öll ábyrg fyrir þeim og afleiðingum þeirra, hvort sem við trúum á hann eða ekki. Lífið er í alvöru en ekki eins og þegar mamma passaði mann óvita barn.

Hugsa sér að Guð skuli virða okkur svo mikils að mega setja mark okkar á sköpun hans hvort sem við viljum skemma aða bæta. Hann beinir okkur hins vegar aðeins að því fagra góða og fullkomna, því sá er vilji hans.

Hlustaðu á rödd Guðs frá jólatrénu og segðu: Til er ég!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband