Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Tannlæknavandræði

Hún sonardóttir mín 8 ára varð fyrir því um helgina að það brotnuðu framtennur í henni í Sundlaug Akureyrar. Það var slys af því tagi sem helst ekki eiga að geta orðið en verða því miður af því við erum ekki alltaf til í að fara eftir reglum þó hún séð það nú blessuð jafnan sem og í þetta sinn.

Nú vissu þau foreldrar hennar ekki nema að þau væru að keppa við tímann um að bjarga einhverju blíðasta brosi samtímans og það tók því nokkuð á taugar þeirra að leita eftir tannlækni. En þannig háttar til á Akureyri að ef verður slys af þessu tagi og gildir þá einu hvort bráðavaktin á í hlut ellegar ótýndur almúginn að maður fær í hendur lista yfir þá + 20 tannlækna sem eru á þeim slóðum og svo hringir maður. Þessi er ekki í bænum og því löglega afsakaður, þessi ansar ekki svona nema maður sé hjá honum, þessi er að halda upp á afmæli osfrv. Enginn er á vakt og undursamlegasta bros Norðurlands í hættu!

 Þökk sé henni Regínu sem var rétt að koma í bæinn þá komst broslausa stúlkan í réttar hendur og fékk aðhlynningu og hefði litlu skipt hvort hún komst að augnablikinu fyrr eða síðar, en foreldrar hennar eru þó ágætlega menntuð séu ekki tannlæknar og gátu því ekki vitað neitt um það.

Sætta Akureyringar sig við svona þjónustu, eða var þetta svona af því að um utanbæjarmanneskju var að ræða eins og fyrr var sagt?

Ég ætla ekki að koma með hugleiðingu um þann vitnisburð sem tannlæknar fá almennt af þessu atviki!


ÓHEILNÆMI FÉLGASLEGRA SKÚMASKOTA

"Ísland fyrir Íslendinga." Þetta herhróp var aldrei gott og heyrist nú sjaldan sem betur fer.  Þó er ástæða til þess að hugleiða hvort okkur er alveg sama hvernig þjóðfélag okkar verður. Umræða um þátt trúar í mótun þjóðfélags hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu ma vegna heimsókna tveggja kvenna á rithöfundaþing. Þær telja áhrif trúar á þjóðfélögin yfirleitt vond. Ég veit ekki hvaða gagn er af yfirlýsingum af þessu tagi. Öll þjóðfélög hafa mótast af trúarviðhorfum. Miklu gagnlegra væri að greina hvernig trú hefur mótað þjóðfélög. Nú er það undarleg þverstæða að Vesturlönd sem  hafa einhverjar bestu almannatryggingar, heilbirgðis- og félagsþjónustu eru um leið þau þjóðfélög sem hafa hvað verstan feril hvað blóðsúthellingar varðar. Vissulega má segja að um hið fyrra fari alveg að gildum kristins boðskapar en alls ekki hið síðara.

Lútherdómur leggur þá meginreglu að skynsemin þurfi að leiða trúna og trúin skynsemina. Með þjóðum mótmælenda þróaðist líka á seinni öldum gagnrýnin Biblíurannsókn. Ég tel að það megi færa mörg rök fyrir ágæti þessarar samfylgdar. Um leið er ég líka að leggja ákveðinn mælikvarða á trúarbrögð og jafnvel setja norm fyrir trúarbrögð. Ég meina að okkur sé ekki aðeins heimilt heldur skylt að krefja trúabragðaboðendur um glóruna í því sem þeir fara með. Opinberanirnar sem þeir byggja á gefa ekki tilefni til þess að fara með boðskapinn hvert sem mönnum líkar.

Múhammeð og Búdda komu báðir fram með skoðanir sem hafa mikilsvert gildi fyrir túlkun okkar mannanna á heiminum og ástæðum okkar mannanna almennt. Það er hægt að virða þær þó þær séu gagnrýndar í ljósi vísinda og skoðunar á gagnsemi mannsins. Helgi einstaklings og heill samfélagsins má meta á vísindalegum forsendum og spyrja að því hvort tiltekin túlkun trúarinnar standist í því ljósi.

Þessu hefur kristnin orðið að sæta á sínum vettvangi um aldir og í raun almennt talað farið vel út úr þeirri samræðu og mikið af henni lært. En hún er jafn rótföst í opinberuninni um að maður og Guð eigi sátt sín á milli fyrir Jesú Krist, og að menn skuli hafa að leiðarljósi hvernig hann leit á náunga sinn og kom fram við fólk. Heimsýn kristinna er opin, opin fyrir náunganum og opin fyrir sköpuninni. Hvort tveggja á sinn sjálfstæða rétt.

Ég meina látum hvorki fasista né bullur; múslima, kristna né aðra í friði með að móta í gettóum sínum andfélagsleg viðhorf, hafa hindurvitni í stað viðurkenndrar og prófaðrar þekkingar né stunda kúgun á sínum né brugga saklausu fólki launráð. Drögum máltilbúnað þeirra fram í dagsljósið og sýnum fram á villu þeirra. Ef það dugar ekki til sendum þá Stefán og félaga á þá og drögum þá til ábyrgðar en stundum endilega að öllu öðru leyti frið við alla menn.


Jesús og síminn

 Úr prédikun sunnudagsins sjá www.domkirkjan.is

Samfélagið má vel taka í hornin á kirkjunni og hjálpa henni að sjá í hverju henni er áfátt en hún getur ekki byggt sig út fyrir grundvöll sinn. Þá hrynur hún eða breytist einfaldlega í geimstöð, án sambands við raunveruleikann. Og sá grundvöllur er Kristur. Við megum alls ekki skola honum út með þvottavatninu þegar við hreinsum kirkjuna okkar, því það er hann sem hreinsar okkur, ekki öfugt. Jesús Kristur er söguleg persóna, gleymum því aldrei. Guð kom til fundar við okkur mennina í þessum smið frá Galíleu fyrir 2000 árum. Umræðuefnið er því hvað hann sagði og gerði. Með því að vega það og meta og skoða í ljósi samtíðar okkar og samhengis hans munum við fá þá vitneskju sem við þurfum til þess að sjá með augum Guðs hvernig hlutunum er varið. Til þess var auglýsing Jóns Gnarrs vel til fallin. Verst að hann skyldi ekki hafa aðra leið en að auglýsa alls óskylt efni í leiðinni.

Samhjálp í verki

Í starfi mínu sem prestur í miðborginni hef ég margsinnis séð í hendi mér mikilvægi kaffistofu samhjálpar og séð ástæðu til að þakka það sem og rekstur þeirra á Gistiskýlinu. Það verður að tryggja áframhaldandi rekstur kaffistofunnar og sömuleiðis að Samhjálparfólk haldi áfram þeim rekstri.

Það getur verið afar dapurlegt að senda frá sér þurfamann án þess að hafa fundið ráð til hjálpar í brjáðum vanda en huggun að vita að hann á vísa saðnigu hjá Samhjálp og möguleika á gistingu á Gistiskýlinu. Það er þó alltof takmörkuð lausn og þarf að þróa frekar.


mbl.is Kaffistofu Samhjálpar lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingin

Jón Gnarr á líklega svolítið erfiða daga. Það var viðbúið en ég finn svolítið til með honum samt. Auglýsingin var smekkleg og vel gerð og augljóslega góður hugur á bak við hjá honum. Hann er að vekja athygli á M3 símanum og fyrir það fær hann borgað, en hann vekur líka athygli á sögunni um Krist og það hefur margsinnis komið fram að hún er Jóni heilagt alvörumál. Píslarsöguna höfum við ekki í flimtingum af því við berum lotningu fyrir Guði, leggjum ekki nafn hans við hégóma og við eigum að bera virðingu fyrir tilfinningum annara. Það er kurteisi og án hennar verður svo hráslagalegt í mannheimum. En kvöldmáltíðin er þó sá þáttur píslarsögunnar sem hefur glaðlegt andlit og þolir meira, held ég, en annað þar.Samt fór hann Jón yfir strikið vegna samhengisins. Þatta er auglýsing, torghróp: “Kaupið Símann. Jesús notar hann. Þú skalt nota hann líka.” Þetta er að nota Jesú til þess að selja eitthvað og ÞAÐ finnst mér ósmekklegt. Samt ekki eins ósmekklegt og það hjá Þangbrandi að nota sverðið við að boða Íslendingum trúan en í sama stíl samt. Einhvern vegin tókst Guði samt að nota séra Þangbrand til góðs og ég er viss um að hann getur og er að nota Jón Gnarr til góðs. Við verðum kristin aftur hér á Íslandi ma. fyrir svona kalla eins og þá tvo!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband