Færsluflokkur: Bloggar

Jólatré - Logandi runni 2Mós 3

 

 

IMG_8600Jólatréð hefur ekki átt sér ýkja langa samleið með kristninni en var í heiðni tengt ásatrúnni. Það er þó til eftirtektarverðs dæmis um hverning kirkjan hefur helgað sér eldri trúararf.

Yggdrasill var helgur meiður og fórnartré og um hann hefur ýmislegt verið lesið út frá krossi Krists en nú skulum við hugsa um annað.

Ég veit ekki hvernig litum þú manst eftir á jólatrénu þínu en ég man eftir marglitum seríum bernsku minnar, bláu stjörnuseríunni sem pabbi útvegaði einhvers staðar. Ég leitaði náttúrlega að blárri seríu þegar við Auður skreyttum okkar fyrsta jólatré, endurnýjaði seinna en svo fann ég enga bláa fyrir einhverjum árum og þá keypti ég eina rauða og núna erum við með hvít batterískerti á tré sem ég bjó til.

Þegar rauðu ljósin voru við lýði fór ég að hugsa um líkinguna við hinn logandi þyrnirunna úr frásögunni af því þegar Guð kallaði Móse til að verða leiðtogi fólks síns svo sem skrifað stendur í annari Mósebók 3. kafla. Sú saga hefur verið til tákns um sitthvað í kristinni trúararfleifð.

Móse tók eftir að runninn brann ekki – hann logaði, eldurinn sem stóð upp af honum læsti sig ekki í greinar hans og það er sem höfundur textans telji sig vita meira en Móses um þetta atriði, því hann segir að þetta hafi verið engill sem stóð upp af þyrninrunnanum; sveif í loftinu.

En rödd Guðs hljómaði úr miðjum runnanum og kallaði nafn hans tvisvar og Móse svaraði: Hér er ég. Þá sagði Guð til sín og að Móses skyldi draga skóna af fótum sér því staðurinn sem hann stæði á væri heilög jörð vegna nærveru sinnar. Það gerði Móse og fékk síðan fyrirmæli sín og verkfæri og setti mótkröfur (!) og sættust þeir síðan á samning um verkefnið.

Runninn sem ekki brann en logaði er því tákn um nærveru Guðs. Þetta þótti okkur systkinunum sjálfsagt í gamla daga, enda þó það væri ósagt, þegar við fengum að koma inn í stofuna heima í Ásgarði áður en haldið var til kirkju klukkan sex. Já við áttuðum okkur á því að nú var stofan okkar heilagt rými þó enginn segði okkur það og allir pössuðu vandlega upp á það að grenitréð okkar færi nú ekki að brenna, því í fyrstunni vorum við með kertaljós sem loguðu svo fallega og lítil börn vildu snerta í hrifningu sinni.

Pabbi sem flest gat nú var oft í vandræðum með seríuna sem hann fékk sér vegna eldhættunnar strax og slíkur búnður var fáanlegur. Svo fór að það kom aldrei eldur í tréð en það logaði á ljósi á hverri grein.

Jólatréð í stofunni þinni á að segja þér að himininn hafi teygst alla leið niður á stofugólfið hjá þér og Guð sé hér, hjá þér og þínum og ekki aðeins það, heldur vilji hann þér nokkuð. Þú hefur eins og Móses sitthvað um það að segja og getur gert gagnkröfur og þannig verður til samningur ykkar á milli, gagnkvæmur samningur. Það heitir í alþjóðastjórnmálunum „bilateral“ samningur.

Já, þú ert ekki róbót eða strengjabrúða og þarft að samþykkja fyrir þitt leyti samninginn og þá segja til hvað til þurfi að þú fallist á hann. Og sjáðu hve mikils Guð virðir þig að hann yfirleitt hlusti á þig; hann er sannur diplomat. Og af því þetta er svona og þú og aðrir frjálsir að vali sínu og gerðum þá geturðu ekki kennt Guði um ef illa fer. Ef þú hugsar þig vel um þá muntu sjá að fátt er Guði að „kenna“, en hann tekur hins vegar ábyrgð á öllu havaríinu og bætir um; hefur allan heimsins mátt margfaldan og eilífðina til þess.

Sennilega er óvíst hvor ykkar kemur fram með fyrsta samningasatriðið – fjölskyldu þína. Hann felur þér að leiða þitt fólk eins og Móse og þú biður hann að gæta þess. Þú minnir hann á að þú sért ekki mikils máttugur sjálfur og þá lofar hann þér aðstoð þeirra sem heilagur andi hans miðlar eftir sínum ókennilegu leiðum. Fólk hjálpar eða ekki og ber því ábyrgð á aðgerðarleysi sínu sem og meingerðum. Guð er ekki á ferðinni með strokleður og strokar út úr tilverunni vond verk manna, því við erum öll ábyrg fyrir þeim og afleiðingum þeirra, hvort sem við trúum á hann eða ekki. Lífið er í alvöru en ekki eins og þegar mamma passaði mann óvita barn.

Hugsa sér að Guð skuli virða okkur svo mikils að mega setja mark okkar á sköpun hans hvort sem við viljum skemma aða bæta. Hann beinir okkur hins vegar aðeins að því fagra góða og fullkomna, því sá er vilji hans.

Hlustaðu á rödd Guðs frá jólatrénu og segðu: Til er ég!


Hvað getum við tekið jólin langt?

 

Mönnum verður á þessum dögum árs tíðrætt um þýðingu jólanna og takast aðeins á um hvað þau eru eiginlega. Þau eru eflaust eldforn og hvert menningarsamfélag hefur gefið þeim inntak að sínum hætti. Heitið jól er komið úr norrænni heiðni og tengist mánaðarheitinu jólnir sem einnig er eitt nafna Óðins. Menn vita ekki merkingu þess. Sumir nefna tengsl þess við heitið öl og þann sið að „drekka jól.“

Ég velti fyrir mér hvort menn nýta sér ekki hátíðina á misjafnan hátt; taki hana mis „langt.“ Þá gæti það ef til vill verið einhvern veginn  svona

  1. Jólin eru miðsvetrarhátíð á norðurhveli jarðar og þá fagna menn því að dag fer aftur að lengja.
  2. Jólin eru kærkomnir frídagar á miðjum vetri, tækifæri til að gera sér dagamun.
  3. Jólin eru fjölskylduhátíð með börnin í forgrunni.
  4. Jólin eru fjölmenningarleg hátíð með trúarlegu ívafi.
  5. Jólin eru kristin/ gyðingleg/ ásatrúar meginhátíð.
  6. Jólin eru fyrir kristnum mönnum fæðingarhátíð Frelsarans og hafa mótað menningu vestrænna þjóða gífurlega.
  7. Jólin eru kirkjulegur fögnuður yfir nærveru Guðssonarins í lífi mannanna.

Það má gera sér það í senn til gamans og gagns að staðsetja sjálfan sig á þessum skala. Hvað tekur þú jólin langt. Stig 6 og 7 eru auðvitað bundin við menningarheim okkar, enda eru ekki allir uppteknir af þessum snúningi jarðar um sólu sem okkur skiptir svo miklu máli. Aðrar menningarheildir hafa auk þess annan trúargrundvöll til að túlka lífsrás sína.


Dauðarefsingar

 http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/03/16/eg_brenn_allur_ad_innan_3/

 

Óskiljanlegt og hörmulegt eru hugsanir sem koma upp í hugann þegar lesnar eru greinargerðir af þessu tagi um líflátsdóma og fullnustu þeirra.

Bandaríkjamenn eru svo viðkvæmir að þeir geta ekki hugsað sér dráp hvala og skiptir þá engu máli hvort þeir eru raunverulegir meðbiðlar mannsins til matarins eða ekki. Þó skirrast þeir ekki við að taka nautskálfa frá mærum sínum og ala í lokuðum búrum alla þeirra daga og leiða þá ranghvolfandi í sér augunum  til slátrunar sem ekki er nokkurn tíma fagur atburður en stundum sérlega ljótur.

Tólfunum kastar þó þegar á það er horft að um tveggja alda afmæli Bandaríkjanna hurfu þeir aftur til þeirrar ömurlegu fortíðar að taka samborgara sína af lífi. Ekki tekst þeim öllu betur upp við þá framkvæmd en nautgripaslátrunina. Mennirnir kveljast í óhugnanlega langa stund áður en þeir hafa gefið upp öndina. Allir þeir sem að koma fár sár á sálina vegna þessara voðaverka sem þeir eiga aðild að, og lyfjafyrirtæki vilja ekki leggja nafn sitt við að afhenda lyf til verknaðarins, sem i sjálfu sér gerir hann ótryggari.

Í ljós hefur verið leitt að kostnaður samfélagsins af þessu kerfi er mun meiri en af lífstíðardómum en áfrýjunarlögmenn lifa af þessu stórum hópum og fjölskyldur sligast undan málskostnaðinum sem engin leið er að komast hjá að borga.

Dapurlegast af þessu öllu er þó að í ljós hefur verið leitt að hundruð þeirra sem líflátnir hafa verið eru ýmist saklausir eða eiga ekki líflátsdómana skylið að lögum. Svo eru óhugnanlega margir þeirra blökkumenn, allsendis úr hlutföllum glæpamannanna.

Kannski er enn dapurlegra að verða að horfast í augu við það að Bandaríkjamenn eru flestra þjóða kristnastir og bera því nafni Frelsarans dapurlegan vitnisburð. Viðeigandi því að enda þessi orð á að segja við vinaþjóðina: Hættið þessu í Drottins nafni!


"Úlfur, úlfur" einum of oft.

Nú er svo komið að göbb hafa orðið of mörg við Faxaflóa og mannlegt að menn taki þessu ekki af fullri alvöru í eitthvar næsta skiptið. Ásetningurinn er þó  sá að taka allt alvarlega. Það væri dapurlegt ef sá sem gabbar reynist svo einmitt vera í neyð þegar mannlegi þátturinn slær inn og hann bíður hjálpar of lengi - hún komi jafnvel of seint.

Þetta minnir líka á aðgæsluleysið sem getur valdið gróðureldum sem engu eira og ekki verður við ráðið í sérstökum veðufarsaðstæðum. Bruninn a Mýrum um árið og í Laugardal í Djúpi í hitteðfyrra mega vera í fersku minni. Norðmenn mæta þessu núna með hörmulegu eignatjóni. Heimili fólks brenna til grunna!

Við verðum  að reynast ábyrg, ekki bara fyrir okkur heldur líka óvitunum, eldri sem yngri. Við þurfum að temja okkur hugarfar björgunar- og hjálparsveita og gera okkur ómak að koma til skjalanna þegar þörf er á og við stefnum sjálfum okkur ekki í hættu. 

Gabbhneigðir, prakkarar, sitjið á strák ykkar en gerið ekki lítið úr ykkur.


Hetjur hversdagslífsins

Í gær sótti ég messu í Hallgrímskirkju þar sem Hallvarður Björgvinjarbiskup prédikaði. Guðspjallið var Jesús kyrrir vind og sjó og gerði hann að sérstöku hugleiðingarefni töf Jesú á því að kyrra vindinn og lægja sjóina. Í biðinni er Jesús hjá lærisveinunum og ræðir við þá. Það er tími samfélags og þroska.
Þannig er þetta líka oftast þegar við mætum áföllum sem við biðjum heitt að megi skilja við okkur ósködduð. Þegar Jesú síðan vill breytir hann stormi í blíðviðri. Okkur finnst það jafnan of seint og sjáum jafnvel dauðann koma í veg fyrir hjálpina, en það er ekki rétt ef við skiljum eilífðina vera sæla tilveru. Hann leysir líf hins sjúka til sín, til þeirrar tilveru sem hann hefur óbundnar hendur. (Ekki svo að skilja að hann geti ekki leyst af sér þau bönd þegar hann vill.)
Stundum hafa hlutirnir sinn gang og lítið barn með heilabólgu, úr dæmi sem hann rakti, kemur stórskaddað úr áfallinu. Þá spyrja foreldrarnir að því hvers vegna Guð láti þetta viðgangast og fá ekki svör. Illt hendir, það vitum við. En hið góða hendir líka og er fremur á okkar valdi en hitt.
Það sem ég hefði viljað bæta við hjá biskupinum er það sem ég heyri foreldra segja sem eiga börn sem hafa mætt svo alvarlegum örlögum: Það skal vera heppið að eiga okkur úr því þetta þurfti að fara svona. Þá breytast foreldrarnir úr fórnarlömbum í harðsnúið björgunarlið sem veður gegnum skafla og bylji erfiðleikanna til þess að koma barninu sínu til hjálpar.
Ég þekki svona hetjur og veit að þær eru til, fullt af þeim!
http://www.jakobagust.is/?p=2078


Húsafriðunarnefnd hefur ekkert lært

Húsafriðunarnefnd vaknar nú enn einu sinni af Þyrnirósarsvefni og geysist fram gegn byggingu Þorláksbúðar í Skálholti. Bæði hún og aðrir sem hafa talað gegn þessu verki hafa í raun fyrirgert rétti sínum til afskipta af málinu, því það er rétt sem sagt er að þetta mál hefur ekki gengið fram í neinum felum og aðilar nánir td Húsafriðunarnefnd hafa haft um málið að segja og ekki lagst gegn. Hins vegar er það kannski klökkt á að horfa að æsingu skuli þurfa til þess að opinberar stofnanir hrökkvi í gír. Það að þær séu opinberar, á vegum ríkis eða bæja, veitir þeim ekki rétt til þess að vaða yfir verk manna eins og þursar.
Nú er og á að líta að þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá andmælendum verkefnisins standast ekki röklega skoðun. „Folald skyggir ekki á móður sína“, né skyggir móðir á barn sitt. Við það verður að búa að Skálholtsdómkirkja hin nýja dvelur í umhverfi þar sem forminjar eiga sér helgaðan sess frá því áður en hún reis, svo tilkomumikil sem hún er. Til þess verður að taka tillit. Mönnum kann jafnvel að þykja ástæða til að leiða fram úr mósku aldanna fleiri eldri byggingar og ekki er við hæfi að hún, svo reisuleg sem hún er, leggi allar slíkar athafnir í Dróma ef komandi tími vill hið andstæða. Til þess hefur hún ekki kall.
Nýbyggingin er byggð yfir forminjarnar á svo haglegan máta að ekki verða þær betur varðveittar en ráð er fyrir gert. Hún sýnir okkur inn í ríka sögu staðarins og minnir með áþreifanlegum hætti á fornan veruleika fyrir okkur að sjá og meta. Hvergi skyggir hún á dómkirkjuna nema frá stíg heimamanna. Í fjarsýn og ekki heldur af heimreið ber hana við helgidóminn. Þorláksbúð gæti í raun ekki verið betur staðsett gagnvart hinni nýju kirkju en hún er og ef til vill var það hugsunin í fyrndinni því dómkirkjan stendur þar sem þær hafa ævinlega staðið; hugsun sem kannski ber að meta.
Ég hef áður séð Húsafriðunarnefnd gera tilraun til þess að spilla miklum fjármunum fyrir fólki með því að hrökkva upp af svefni þegar aðrir höfðu verið lengi á fótum við verk sín og æðrast yfir því sem fram hefur farið á meðan hvíldar var notið. Ég get því fullyrt að hún kann að koma ringulreið á svið þar sem hún átti að fara fyrir með fortölum ef hún vildi koma sjónamiðum sínum áleiðis.
Áður var stundum sagt að menn skyldu segja meinbugi á þá og þegar eða þegja ella. Það hefur átt við Húsafriðunarnefnd í þessu tilfelli og gildir sama um þá sem hófust upp nú á haustmissirinu um málefni Skálholts.

Um Þorláksbúð


Það er kannski ekki mesta nauðsynjamál samtímans að byggja upp Þorláksbúð í Skálholti, en hún hefur nú verið á döfinni um hríð og er senn fullgerð. Tilgátuverk hjá þjóð sem fátæk er af byggingarminjum. Auðunarstofa var byggð á Hólum, bær í Þjórsárdal eftir rannsóknum á Stöng, kirkja í Vestmannaeyjum svo eitthvað sé nefnt.
Nú hefur mönnum þótt ástæða til þess að fetta fingur út í þetta verkefni og til þess kunna að vera ástæður, en líklega allar í eftirþankanum. Sagt hefur verið um Rousseau að hann hafi ólíkt hinum orðsnara Voltaire aldrei vitað hvað rétt væri að segja fyrr en hann var á leið niður tröppurnar úr veislunum í París. Brjóstumkennanlegt.
Nú hefur það varla farið framhjá þeim sem unna Skálholti að uppbygging Skálholtsbúðar hafi verið á döfinni. Ekki hafa þeir reynst staðnum betri vökumenn en svo að þeir fara þá fyrst að hósta þegar loka á dyrum þessa verkefnis. Finnist þeim þetta svo mikið ólán, þá hefðu þeir átt að segja frá því fyrr.
Vissulega er þetta álitamál og kannski hefði þetta farið betur á annan veg. En þær ákvarðanir sem þetta varða voru teknar í sínum samtíma á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og skulu því dæmdar samkvæmt því, og nú er svo komið sem komið er.
Að sjálfsögðu þarf að tryggja að öll tilskilin leyfi og samsinni erfingja höfundarréttar séu fengin og rétt hjá Kirkjuráði að láta fara í athugun á því, en ekki má lengi tefja verkið svo ekki spillist.
Sjálfur hef ég séð aðdragandann svo sem úr fjarlægð og var ekki um sel þegar góðir og mætir menn fóru fram á ritvöllinn og mótmæltu þessu. Ég þakka framkomnar athugasemdir í fjölmiðlum að undanförnu og hef gert mér gagn að þeim. Mér sýnist hins vegar ótvírætt að þetta verk beri að klára samkvæmt áætlun.
Hvað staðsetningu varðar þá er það hún sem gefur verkefninu sterkustu sögutenginguna. Byggingin var í öndverðu sett niður þar sem kapítulahús stóðu helst við dómkirkjurnar og er því aldeilis kórrétt.
Þeir sem kunnugir eru staðháttum þarna sjá í hendi sér að hvergi gæti þetta hús staðið á staðnum þar sem það færi betur með kirkjunni; skyggir í engu á hana tilsýndar nema af staðartröðinni sem heimamenn einir nota. Aðkoman að staðnum, tilsýnin úr vestri, suðri og austri spillist í engu.
Skálholt er forn staður, en fátt það sem dregur hugann að fornum tíma ber fyrir augu annað en bæjarstæðið eitt, og göngin. Ef til vill munu bæjarrústirnar fá þann umbúnað síðar að úr bætist, en þetta verk ber að þakka.

Biðraðir þurfamanna

Það er dapurlegt að hugsa til þess og sjá á sjónvarpskermi fólk bíða í röðum eftir mataraðstoð. Í mörg ár tók ég á móti fólki sem var í sömu erindum og vissi svosem að það var jafn margvíslegt og mannfólkið er yfirleitt. Oft fann ég þá tilfinningu að ég bæri ábyrgð á því að þjóðfélaginu væri þannig háttað að sum okkar yrðu að leita bónbjarga. Já, það var líka stundum biðröð á ganginum í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Á henni mátti sjá vandræðin í byrjun tíunda áratugar ljóslifandi. Þegar ég rétti þeim matarpokann læddist oft fram orðið fyrirgefðu eins og hjá gömlu konunum forðum, sérstaklega þegar ég vissi að viðkomandi var flækt(ur) á vondum stað í þjóðfélagsvefnum.

Biðröðin er á vafa birtingarmynd efnahagsvanda og misskiptingar. Hún er smánarblettur á okkur og kannski eins gott að hann sjáist. Þó er óþaft að gera svo mörgum þá vansæmd að þurfa að stilla sér upp í augum alþjóðar og náunga sinna með vanda sinn , almennan sem sérstæðan. Við höfum ákvarðað með þeim hætti um hin félagslegu málefni að þetta er afleiðingin. Þetta fólk heyrir undir þig Guðbjartur, ekki satt. Þetta er fólkið sem þú hefur alltaf viljað berjast fyrir, Jóhanna. - Steingrímur, getur þú hvergi fundið aur handa þessu fólki? Eru ekki alltof margir Reykvíkingar í þessum röðum Jón Gnarr?

Taka á þessu núna!


Undur náttúrunnar - Tunglmyrkvi

Tignarlegur viðburður og skemmtilegur til vangaveltna. Maður verður að setja sig út fyrir jörðina í huganum til þess að sjá fyrir sér atburðarrás tunglmyrkvans og rétt hægt að ímynda sér það augnablik sem þetta laukst upp fyrir mönnum í fyrstunni: Að jörðin svifi í himingeimnum ásamt öðrum stjörnum og kringum hana liði tunglið hring fyrir hring. Staðfastir kraftar náttúrunnar héldu þessu öllu í skorðum og hægt að reikna þetta út fyrirfram uppá mínútu.

Í norska sjónvarpinu sé ég frábæra bandaríska þætti um geimlífeðlisfræði þar sem ma er sótt í náttúru Íslands til þess að fá dæmi um lífeðlifræðileg lögmál, ss um lifandi örverur í jökulísnum og brennisteinsmenguðu hveravatninu. Ég hef fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu að þetta geti ekki hafa orðið til af sjálfu sér svo sú hugsun sem vakir ofar öðru er hvað Hann sé snjall sem gerði þetta allt.

Önnur hugsun lætur líka á sér bæra: Hvað litlu munar að veröld okkar væri án lífs og hversu stutt lífið á jörðunni mun vara á hinum stóra mælikvarða alheimsins.

Ég kemst hvað oní annað við skoðun mína á undrum náttúrunnar í sömu stemmingu og birtist í mörum okkar fegurstu sálmum. Eru undur að skáldinu sr Valdimar Briem skyldu verða þessi orð á vörum: Þú Guð sem stýrir stjarnaher og stjórnar veröldinni.  Eða þá :

Guð, allur heimur, eins í lágu' og háu,
er opin bók, um þig er fræðir mig
SB 20

Að sjá öllum borgið

Mér líst vel á "LÍN hugmyndina" með húsnæðislánin en mér líst illa á stóran leigumarkað. Ég efast um að við höfum efni á niðurfærsluleið húsnæðislánanna vegna þess að ég held að það sé rétt hjá Þórólfi Matthíassyni að sú leið kæmi bara annars staðar niður á móti, því einhver verður að borga vitleysuna á endanum og það verða ekki hrunvaldarnir. Niðurfærsluleiðin væri sanngjörn ef hún kæmi niður í endanlegum uppgjörum bankanna en það gerir hún ekki. Allir hafa tapað en kannski ekki mikið öðru en glýjunni úr augunum. Við færumst þá niður í átt til raunveruleikans og í honum er gott að vera, hvort maður þarf að færa sig upp eða niður út eða suður.En það er ótækt að riðla slíku í þjóðfélaginu að fólk missi í stórum stíl  heimili sín eða sitji uppi með niðurdrepandi skuldklafa eins og við blasir. Sumir munu þurfa að trimma sig, fara í minna og ódýrara, en allir verða að bjargast áfram. Þess vegna þurfum við að koma hreyfingu á húsnæðismarkaðinn, búa til skilmála sem menn vita að munu halda til framtíðar. Að hafa húsnæðislánin þannig að menn borga af þeim eftir tekjum er góð hugmynd en lánin verða að hafa þök. Það er vitleysa að menn séu í alltof dýrum íbúðum á kostnað lánasjóðanna. Það verður því að vinna úr málum hvers og eins eftir ákveðnum viðmiðum og það geta fleiri gert en umboðsmaður skuldara einn ekki síst bankarnir og lögmannastofur. Búm til viðmið.Stór á leigumarkaðurinn ekki að vera því það er aldrei hægt fyrir leigusala að keppa við félagslegt íbúðalánakerfi um verð og búsetuöryggi. Búseturéttarkerfi er nær lagi og hálf félagsleg kerfi möguleiki. Reynsla okkar Íslendinga gegnum langan tíma hefur þó leitt okkur að þreirri niðurstöðu að best sé að hver búi við sitt eigið.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband