Vantraust á ríkisstjórnina
12.4.2011 | 16:20
Það er í hæsta máta eðlilegt að fram komi vantrauststillaga á Alþingi á þessa ríkisstjórn. Svo margt hefur borið við að undanförnu og margt komið fram að rétt er að til atkvæðagreiðslu verði efnt og kannað hvort hún nýtur enn stuðnings. Stjórnin sem hefur unnið af eindæma þráa við að koma okkur áfram í hafvillum kreppuára hefur misst kúrsinn og það sem verra er að hefðu menn grun um stefnuna þá miðar ekki neitt.Fólk og fyrirtæki reyna að bjarga sér og vesöld krónunnar veldur því að útflutningsgreinarnar skila mörgum krónum í þjóðarbúið eins og er. En hvorki fólkið né fyrirtækin tolla hér, enda kalla menn á að viðnám sé veitt. Um sókn þora menn ekki að tala. En það er það sem við þurfum. Vinstri græn halda öllu í krampataki sínu, að sínu leyti lík bátsmanni sem hamast við að ausa lekan bát í stað þess að þétta hann og reyna að koma á hann ferð að áfangastað. Samfylkingin er lánleysið uppmálað við þessar aðstæður og Össur verður að Donkíkóta með EU umsókn sína. (Hún mun seinna verða tímabær en ekki við þær aðstæður sem við búum við núna.)Nei, við verðum að kjósa nýtt þing, kalla fram farsælli ferðaáætlun og afhenda nýtt umboð til leiðsagnar á fast land fyrir þjóðina. Það er allt í lagi að kjósa. Við ræðum pólitík alla daga hvort eð er og það tekur augnablik að skjótast á kjörstað. Kjósum meðan sól hækkar enn á lofti!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.