Hetjur hversdagslífsins
30.1.2012 | 13:18
Í gær sótti ég messu í Hallgrímskirkju þar sem Hallvarður Björgvinjarbiskup prédikaði. Guðspjallið var Jesús kyrrir vind og sjó og gerði hann að sérstöku hugleiðingarefni töf Jesú á því að kyrra vindinn og lægja sjóina. Í biðinni er Jesús hjá lærisveinunum og ræðir við þá. Það er tími samfélags og þroska.
Þannig er þetta líka oftast þegar við mætum áföllum sem við biðjum heitt að megi skilja við okkur ósködduð. Þegar Jesú síðan vill breytir hann stormi í blíðviðri. Okkur finnst það jafnan of seint og sjáum jafnvel dauðann koma í veg fyrir hjálpina, en það er ekki rétt ef við skiljum eilífðina vera sæla tilveru. Hann leysir líf hins sjúka til sín, til þeirrar tilveru sem hann hefur óbundnar hendur. (Ekki svo að skilja að hann geti ekki leyst af sér þau bönd þegar hann vill.)
Stundum hafa hlutirnir sinn gang og lítið barn með heilabólgu, úr dæmi sem hann rakti, kemur stórskaddað úr áfallinu. Þá spyrja foreldrarnir að því hvers vegna Guð láti þetta viðgangast og fá ekki svör. Illt hendir, það vitum við. En hið góða hendir líka og er fremur á okkar valdi en hitt.
Það sem ég hefði viljað bæta við hjá biskupinum er það sem ég heyri foreldra segja sem eiga börn sem hafa mætt svo alvarlegum örlögum: Það skal vera heppið að eiga okkur úr því þetta þurfti að fara svona. Þá breytast foreldrarnir úr fórnarlömbum í harðsnúið björgunarlið sem veður gegnum skafla og bylji erfiðleikanna til þess að koma barninu sínu til hjálpar.
Ég þekki svona hetjur og veit að þær eru til, fullt af þeim!
http://www.jakobagust.is/?p=2078
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.