Vondur dagur - brjálað fólk

Eru allir að verða vitlausir? spurði ég sjálfan mig í dag. Ég heyrði það sem Stöð 2 bar af mótmælafundum og sá tiltækin. Hvað er þetta fólk að hugsa? Óeirðir í ofanálag við allt annað! Kannski er rétt að rifja upp að þjóðir fá gjarnan þær stjórnir sem þær eiga skilið, svo það þýðir lítið að halda að kosningar nú breyti einhverju.   Stjórnvöldum og forkólfum í viðskiptalífinu hefur orðið stórlega á. Við vorum á siglingu undir þeirra stjórn á drekkhlaðinni þjóðarskútunni þegar á skall stormur, gjörningveður af vestri. (Þeir eru alltaf hættulegastir vestahvellirnir.) Það var reynt að ryðja skipið í ofboði og sigla til lands, en stóru skipin hafa ekki viljað gefa okkur upp stefnuna, né veita okkur aðstoð. Nokkrir þó sem segjast samt vera of langt í burtu. Lítil, lagleg trilla með Færeyingum á kom þó og lánaði olíu. Það er þó ekki víst að það geri annað en gefa okkur smá kjark, en það er að sökkva hjá okkur! Einhverjir eru að reyna að ausa í ágjöfinni en ég sé ekki betur en þessir vitleysingjar séu að reyna að rugga bátnum. Eins og veltingurinn sé ekki nógur fyrir! Ég sé ekki að við eigum annars úrkosta en að standa við bakið á Geir og Sollu og þeim – þangað til lygnir. Þá tölum við saman. Ég veit upp á hár að við höfum engin efni á að haga okkur eins og brjálæðingar núna. Reiðin er ekkert heilög. Sá sem aktar í reiði aktar alltaf vitlaust. Hættið þessum óspektum og gegnið löggunni ef þið þurfið eitthvað að vera að viðra óhreinan þvottinn ykkar! Við erum öll ábyrg fyrir þessari sjóferð og skulum taka því eins og manneskjur að hafa anað út í þessa vitleysu. Þau einu sem geta mótmælt eru krakkarnir í skólunum sem ekki hafa komist til ábyrgðar á neinu öðru en sjálfu sér. Allir aðrir mótmæla í raun sjálfum sér. Reynum heldur að bera saman ráð okkar eins og þau voru að gera í Háskóla Reykjavíkur um daginn og Björk er að stuðla að (þó mér lítist nú kannski ekki á allt; ekki þetta með að slátra núna mjólkurkúnum). Þróum umræður um lausnir. Ýmsar hafa komið fram sem eru þess virði.  Geir og þið! Haldið svo ekki spilunum svona þétt upp að ykkur. Það gerir ekkert til þó sjáist á þeim. Spil “blinds” eiga svo að liggja á borðinu í þremenning og það á við hér! Það hafa margir á undan ykkur farið flatt á því að halda mannskapnum í myrkri grunsemda og vanþekkingar. Komiði fram með upplýsingarnar sem þið eruð að vinna með. Við verðum að fá að vera með í þessu ati. Við bökkum ykkur upp á meðan við vitum eitthvað um hvað þið eruð að gera.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Tek undir með kreppukalli.  Ég var á fundinum og hef allt aðra sýn á fundina en "háðir og ófrjálsir" fjölmiðlar þessa lands.

Með Súgfirskri kveðju

Sigrún Jónsdóttir, 8.11.2008 kl. 22:25

2 identicon

"Eru allir að verða vitlausir? spurði ég sjálfan mig í dag. Ég heyrði það sem Stöð 2 bar af mótmælafundum og sá tiltækin. Hvað er þetta fólk að hugsa? Óeirðir í ofanálag við allt annað!"

Þú hefðir betur verið á staðnum, Jakob, en að lepja þetta upp úr fjölmiðlum. Ég var á staðnum og sá um 3 - 4000 alsgáða, reiða Íslendinga ásamt nokkrum einstaklingum sem buðu upp á hasar við hliðarlínuna. Um leið og hann hófst, og kylfubúin lögregla mætti, þá tóku fjölmiðlamenn á rás - og hluti grandværra mótmælenda fylgdu á eftir til að sjá hvað var í gangi.

Óeirðir voru engar, nema þær að krakki dró Bónusfánann á hún á Alþingishúsi og nokkrir einstaklingar köstuðu eggjum og mjólkurafurðum í Alþingishúsið.

Af þessu hlaust sóðaskapur, ekkert annað. En auðvitað eru þetta óeirðir, lýður, múgæsing og stórhættulegt, enda búið að bæta í lögregluliðið ...

Er ekki allt betra en að hlusta á reiða alþýðuna - sem gæti ruggað bátnum, eins og þú orðar það svo pent. Verst að lítið dugir að rugga þar sem skútan er komin upp á land og er full af ál- og steypuhausum, sem ekkert vilja hlusta og ekkert vilja breyta og ekkert hafa gert af sér og ekkert gátu vitað!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 23:19

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Jakob ert þú tilbúinn að sýna kristilegt fordæmi og skera þín laun niður um 30-40%, ef þú ert á launum, annars lífeyrinn? Eða gefa sömu 30-40% til bágstaddra hér innanlands, nóg er af þeim?

Laun presta eru mjög há miðað við alþýðustéttirnar og þú hlýtur að geta lifað af lægri launum, ef þú hefur tamið þér nægjusemi að  hætti Krists.

Theódór Norðkvist, 9.11.2008 kl. 00:44

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er vondur pistill, Jakob, og þér til lítils sóma. En hann er engu að síður dæmigerður fyrir þá mynd sem þeir, sem ekki voru á Austurvelli í dag, fá af mótmælafundinum á Austurvelli í dag.

Ég sá að þú ert búinn að lesa pistil Salvarar um málið. Ég legg til að þú lesir minn pistil líka, hann er hér. Og kannski pistil Egils Helgasonar og athugasemdir við hann. Þú yrðir upplýstari maður fyrir vikið.

Ég legg líka til að þú mætir sjálfur næsta laugardag til að sjá með eigin augum hvað um er að vera. Og að þú flettir upp í Biblíunni þinni ritningargreinum um dómhörku.

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.11.2008 kl. 01:26

5 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Það flokkast seint undir óeirðir að nokkrum eggjum sé hent í hús eða sprautað úr jógúrtfernu. Mér þykir þú, Jakob, verða dómharður yfir fólkinu sem er súrt yfir að hafa verið selt í skuldaánauð næstu áratugina.

Vésteinn Valgarðsson, 9.11.2008 kl. 01:28

6 identicon

Ertu að tala um mig, Haukur?

Sumir klerkar eru á vinstri væng stjórnmálanna hér á landi. Aðrir flokksbundnir í Sjálfstæðisflokki.

Talandi um klerka og pólítík, hvað með þjóðina sem fram að þessu hefur látið sér nægja að rausa og kjósa svo íhaldið aftur og aftur? Ekki er það kirkjunni að kenna, eða hvað?

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 14:59

7 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ekki henni að kenna, beinlínis, en hún hefur lagt sitt af mörkum.

Vésteinn Valgarðsson, 10.11.2008 kl. 01:54

8 identicon

Satt, sbr. færslan hér fyrir ofan.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 17:04

9 Smámynd: Jakob Ágúst Hjálmarsson

Mér finnast þessi ummæli flest nokkuð fordómafull. Má ég ekki bregðast við fréttum sem einstaklingur og hafa mína eigin forsendur fyrir þeim án þess að sétt mín og ætlaðar hugmyndir séu dregnar inn í umræðuna. Það hefur svosem verið viðurkennt að fréttaflutningurinn var skakkur og svona tók ég þessu. Mér finnst líka utanaðkomandi ógnir nægar til þess að við þurfum ekki að leita  að ógnarefnum hér heimafyrir. Sjálfsagt er að láta skoðun sína í ljósi, ég mótmæli því ekki, heldur því sem birtist sem skrílslæti. Ég vil gjarnan halda í hrósið sem undi Spánverjinn gaf okkur í kvöldfréttunum um stillingu og yfirvegun.

Jakob Ágúst Hjálmarsson, 11.11.2008 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband