Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Barn í bílnum

Ég ók á dögunum á eftir bíl með miða í afturrúðunni sem á stóð Barn í bílnum. Hef séð þetta oftar þó ekki sé það svo algengt að maður sé hættur að taka eftir því eins og ýmsu öðru í umhverfinu. Fór að hugsa hvað þetta snerti öðruvísi við mér en margar yrðingar sem bera fyrir augu á förnum vegi. Ef barn er nefnt þá kemst maður á sérstakt viðbúnaðarstig. Það væri agalegt að aka aftan á bíl með litlu saklausu barni og slasa það. Það er líka hræðilegt að hugsa sér að nokkur vilji gera börnum mein. Þó er það gert, á hverjum degi, í þessari borg, jafnvel í götunni minni. Börn eru afrækt í þjóðfélaginu. Ekki öll börn. Ekki alltaf. En sum börn stundum, fáein búa við viðvarandi vanrækslu. Seinna kunnum við að hafa vandræði af þeim. Unglingur sem búið hefur við harðýðgi er oftast reiður unglingur. Það var svo ekkert barn í bílnum, heldur tveir ungir menn. En það eru börn í landinu. Erfingjar morgundagsins. 

Flóttamenn frá Írak

Í fréttum þessa daga er fjallað um mikinn flóttamannastraum frá Írak. Milljónir eru flúnar frá heimilum sínum. Mér kom nú í hug að endinn skyldi í upphafi skoða og segi enn og aftur að það er hörmulegt að Íslendingar skuli viðriðnir þetta brjálæði. Úr því svo er þá er ekki um annað að ræða  en leita enn frekar leiða til þess að létta böl þessa fólks. Meðan það er ekki að öllu leyti okkur til sæmdarauka þá skulum við ekki fipa okkur með æfingum á öðrum sviðum utanríkismála nema beinar ástæður séu til.

Ef sagan á ekki eftir að sýna ákvörðun forystumanna ríksstjórnar á sínum tíma sem það glapræði sem það nú var þá mun fleiru verða á haus snúið í þessu landi. Ég man ekki efti ógæfulegri gjörð í samkiptum Íslands við umheiminn en einmitt það leyfa að nafn Íslands á lista hinna staðföstu þjóða. Það verður ekki leiðrétt með neinu öðru móti en því að reynast bágstöddu fólki í Írak vel, svo vel að við finnum fyrir því sjálf að það taki í.


Hefst nú lesturinn.

Þar sem ég er að hætta störfum sem sóknarprestur Dómkirkjunnar og skrifa þá ekki  lengur inn á www.domkirkjan.is finnst mér ástæða til þess að koma mér upp nýju vefsvæði og tek því tilboði mbl.is í því efni með þökkum. Á heimasíðu Dómkirkjunnar er efni sem ég hef skrifað undanfarin missiri og kynna í nokkru viðhorf mín. Sumt af því efni kann að rata á bloggið með tímanum. Fram á haustið mun ég birta prédikanir mínar á síðu Dómkirkjunnar en viðhorf á líðandi stund taka nú að birtast hér. Mér þætti að sjálfsögðu vænt um að fá viðbrögð við skrifunum en hef engin tök á að sinna frjálsum aðgangi að síðunni. Fái ég póst á netfang mitt jagust@simnet.is sem mér finnst eiga erindi á síðuna birti ég það og leyfi þeim sem ég þekki til síðan aðgang aðblogginu.

Frómum lesendum heilsan!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband