Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Vondur dagur - brjálað fólk
8.11.2008 | 21:58
Eru allir að verða vitlausir? spurði ég sjálfan mig í dag. Ég heyrði það sem Stöð 2 bar af mótmælafundum og sá tiltækin. Hvað er þetta fólk að hugsa? Óeirðir í ofanálag við allt annað! Kannski er rétt að rifja upp að þjóðir fá gjarnan þær stjórnir sem þær eiga skilið, svo það þýðir lítið að halda að kosningar nú breyti einhverju. Stjórnvöldum og forkólfum í viðskiptalífinu hefur orðið stórlega á. Við vorum á siglingu undir þeirra stjórn á drekkhlaðinni þjóðarskútunni þegar á skall stormur, gjörningveður af vestri. (Þeir eru alltaf hættulegastir vestahvellirnir.) Það var reynt að ryðja skipið í ofboði og sigla til lands, en stóru skipin hafa ekki viljað gefa okkur upp stefnuna, né veita okkur aðstoð. Nokkrir þó sem segjast samt vera of langt í burtu. Lítil, lagleg trilla með Færeyingum á kom þó og lánaði olíu. Það er þó ekki víst að það geri annað en gefa okkur smá kjark, en það er að sökkva hjá okkur! Einhverjir eru að reyna að ausa í ágjöfinni en ég sé ekki betur en þessir vitleysingjar séu að reyna að rugga bátnum. Eins og veltingurinn sé ekki nógur fyrir! Ég sé ekki að við eigum annars úrkosta en að standa við bakið á Geir og Sollu og þeim þangað til lygnir. Þá tölum við saman. Ég veit upp á hár að við höfum engin efni á að haga okkur eins og brjálæðingar núna. Reiðin er ekkert heilög. Sá sem aktar í reiði aktar alltaf vitlaust. Hættið þessum óspektum og gegnið löggunni ef þið þurfið eitthvað að vera að viðra óhreinan þvottinn ykkar! Við erum öll ábyrg fyrir þessari sjóferð og skulum taka því eins og manneskjur að hafa anað út í þessa vitleysu. Þau einu sem geta mótmælt eru krakkarnir í skólunum sem ekki hafa komist til ábyrgðar á neinu öðru en sjálfu sér. Allir aðrir mótmæla í raun sjálfum sér. Reynum heldur að bera saman ráð okkar eins og þau voru að gera í Háskóla Reykjavíkur um daginn og Björk er að stuðla að (þó mér lítist nú kannski ekki á allt; ekki þetta með að slátra núna mjólkurkúnum). Þróum umræður um lausnir. Ýmsar hafa komið fram sem eru þess virði. Geir og þið! Haldið svo ekki spilunum svona þétt upp að ykkur. Það gerir ekkert til þó sjáist á þeim. Spil blinds eiga svo að liggja á borðinu í þremenning og það á við hér! Það hafa margir á undan ykkur farið flatt á því að halda mannskapnum í myrkri grunsemda og vanþekkingar. Komiði fram með upplýsingarnar sem þið eruð að vinna með. Við verðum að fá að vera með í þessu ati. Við bökkum ykkur upp á meðan við vitum eitthvað um hvað þið eruð að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)