ÓHEILNÆMI FÉLGASLEGRA SKÚMASKOTA
12.9.2007 | 15:12
"Ísland fyrir Íslendinga." Þetta herhróp var aldrei gott og heyrist nú sjaldan sem betur fer. Þó er ástæða til þess að hugleiða hvort okkur er alveg sama hvernig þjóðfélag okkar verður. Umræða um þátt trúar í mótun þjóðfélags hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu ma vegna heimsókna tveggja kvenna á rithöfundaþing. Þær telja áhrif trúar á þjóðfélögin yfirleitt vond. Ég veit ekki hvaða gagn er af yfirlýsingum af þessu tagi. Öll þjóðfélög hafa mótast af trúarviðhorfum. Miklu gagnlegra væri að greina hvernig trú hefur mótað þjóðfélög. Nú er það undarleg þverstæða að Vesturlönd sem hafa einhverjar bestu almannatryggingar, heilbirgðis- og félagsþjónustu eru um leið þau þjóðfélög sem hafa hvað verstan feril hvað blóðsúthellingar varðar. Vissulega má segja að um hið fyrra fari alveg að gildum kristins boðskapar en alls ekki hið síðara.
Lútherdómur leggur þá meginreglu að skynsemin þurfi að leiða trúna og trúin skynsemina. Með þjóðum mótmælenda þróaðist líka á seinni öldum gagnrýnin Biblíurannsókn. Ég tel að það megi færa mörg rök fyrir ágæti þessarar samfylgdar. Um leið er ég líka að leggja ákveðinn mælikvarða á trúarbrögð og jafnvel setja norm fyrir trúarbrögð. Ég meina að okkur sé ekki aðeins heimilt heldur skylt að krefja trúabragðaboðendur um glóruna í því sem þeir fara með. Opinberanirnar sem þeir byggja á gefa ekki tilefni til þess að fara með boðskapinn hvert sem mönnum líkar.
Múhammeð og Búdda komu báðir fram með skoðanir sem hafa mikilsvert gildi fyrir túlkun okkar mannanna á heiminum og ástæðum okkar mannanna almennt. Það er hægt að virða þær þó þær séu gagnrýndar í ljósi vísinda og skoðunar á gagnsemi mannsins. Helgi einstaklings og heill samfélagsins má meta á vísindalegum forsendum og spyrja að því hvort tiltekin túlkun trúarinnar standist í því ljósi.
Þessu hefur kristnin orðið að sæta á sínum vettvangi um aldir og í raun almennt talað farið vel út úr þeirri samræðu og mikið af henni lært. En hún er jafn rótföst í opinberuninni um að maður og Guð eigi sátt sín á milli fyrir Jesú Krist, og að menn skuli hafa að leiðarljósi hvernig hann leit á náunga sinn og kom fram við fólk. Heimsýn kristinna er opin, opin fyrir náunganum og opin fyrir sköpuninni. Hvort tveggja á sinn sjálfstæða rétt.
Ég meina látum hvorki fasista né bullur; múslima, kristna né aðra í friði með að móta í gettóum sínum andfélagsleg viðhorf, hafa hindurvitni í stað viðurkenndrar og prófaðrar þekkingar né stunda kúgun á sínum né brugga saklausu fólki launráð. Drögum máltilbúnað þeirra fram í dagsljósið og sýnum fram á villu þeirra. Ef það dugar ekki til sendum þá Stefán og félaga á þá og drögum þá til ábyrgðar en stundum endilega að öllu öðru leyti frið við alla menn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.