Kristilegt siðgæði

Á Alþingi í gær og í Kastljósi í gærkvöld féllu umhugsunarverð orð af vörum æðstu valdamanna þjóðarinnar um krisilegt siðgæði sem grundvallarviðmiðun siðgæðis. Í stað þess kemur nú í frumvarpstexta laga um menntastofnanir falleg upptalning viðmiða, og flestum getur fundist eins og menntamálaráðherranum þau umskipti litlu skipta. En er nú svo víst að hér sé bitamunur en ekki fjár? Þessi umræða kom upp í Noregi í ráðherratíð Guðmundar Hernes. Hann ver guðfræðingur á stóli menntamálaráðherra, ef ég fer rétt með. Hann gerði sér grein fyrir því að ef hinni kristnu viðmiðun var skipt út þá varð að skilgreina inntak orða eins og umburðarlyndi, jafnrétti og réttlæti. Gera nýjan gildagunn. Þetta þykir ýmsum kannski einkennilegt, en inntak þessara fallegu orða er eins og annara tímanlegt, skilgreinist af menningunni hverju sinni. Samt er það svo að þetta kristilega er það ankeri sem gildin eru fest við. Þau skírast af inntaki kristindómsins, dæmi og orðum Jesú og öllu sínu samhengi. Þau eru ekki á reki. Það að þau skírist með mismunandi blæbrigðum og kannski rúmlega það eftir tiíma og stað er að sínu leyti ávísun á hvernig færi fyrir hinum óbundnu gildum sem nú eru á dagskrá í þrætubók.Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup sendi frá sér gagnmerka pistla í Morgunblaðinu í haust og geyma þeir lærdóm sem vitur maður hefur dregið að reynslu sinni af liðinni öld, öld óheyrilegra blóðsúthellinga, þjóðarmorða og yfirgangs. Hann lýsir ma uppgangi nasismanns og meinvillu kommúnismans sem hvor tveggja tóku öll þessi fallegu gildi frumvarpsins og rangsneru þeim með því að fá þeim valdar viðmiðanir. Þetta ekki aðeins getur gerst aftur heldur mun það gerast. Það er ekki enn runninn sá bjarti dagur handan allra stríða þó friðvænlegt hafi verið með okkur um stund. Mannshugurinn er viðsjárverð vél og samfélög manna pottar sem fleira er í kokkað en heilsufæði. Gáum því að okkur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kristilegt siðgæði er bara mannlegt siðgæði sem kirkjan hefur verið þvinguð í að fylgja, þetta hefur gerst marg oft í gegnum tíðina og fylgt tíðarandanum.

DoctorE (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 10:37

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Mér þykir þú skrifa ágætan texta en segja lítið.  Fyrir hvað stendur kirkjan?  Á hvað trúa þeir sem í henni eru?  Er trúin að verða eins og hlaðborð, þar sem hinir trúuðu velja það sem þeim líst best á?

Hvað segir setningin "...en inntak þessara fallegu orða er eins og annara tímanlegt, skilgreinist af menningunni hverju sinni. 

Sem sé að menningin og tíðarandinn mótar kristnina, en ekki öfugt? Nema það að kirkjan er yfirleitt árum eða áratugum á eftir? Er það þá ef til vill tilfellið að maðurinn skapaði guð í sinni mynd, eins og margir hafa viljað halda fram?

Og fyrst minnst er á kommúnisma og nazisma, þær ógeðfelldu stefnur, þá var hin hvorki hin lútherska né kaþólska kirkja saklaus af stuðningi við nazismann, og hljómaði "gott mit uns" ekki síður á þeim tímum en öðrum.

En ég hefði hins vegar bæði gaman og gagn af því ef þú gætir útskýrt á hvað trúa Íslendingar?  Hvað stendur ríkiskirkjan fyrir?

G. Tómas Gunnarsson, 13.12.2007 kl. 14:04

3 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Sæll, ég held að við séum öll í sama liði að vilja standa vörð um lykilgildi sem íslenskt þjóðfélag byggir á. En í okkar upplýsta samfélagi er það svo að fólk úr öllum áttum tekur þátt í því óháð trú. En þú reynir að réttlæta komur presta í skóla með því að viðvera barna sé orðin svo mikil þar að það sé ekki tími fyrir þau að sækja fræðslu presta utan skóla! Ef ég og mín börn hafa áhuga á fræðslu af einhverju tagi utan skóla þá einfaldlega sækjum við hana. Viðvera í skóla er auðvitað ætluð til að börnin komist yfir kennsluefni skv. aðalnámskrá grunnskóla.

Erna Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 14:54

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég vill líta svo á, að Kirkja okkar sé reist á því starfi,sem Jesúm innti af hendi meðal mannanna og öllu því, sem sagt er frá í Nýja Testamenntinu.

Það er svo furðulegt, að mannsandinn reynir ætíð að skilgreina hvaðeina út frá sér en að hluta er það skiljanlegt, þar sem sjálfur er eina mælistikan sem hver hefur.

Vísindin hafa verið notuð til að gera sumt tortryggilegt og jafnvel notuð til að hæða trúaða.

Svo víkur aftur við, að ef eru frum forsendur tilvistar okkar hér á Jörðu eru OF margar tilviljanir jafnvel í hlutfalli stærðar Tunglsins okkar og lífsskylyrðum á Jörðinni, að jarðbundnir vísindamenn geta ekki skýrt út AF HVERJU.

Engum hefur tekist að búa til eindirnar, sem eru frumforsenda lífs, og amínósýrurnar eru jafnvel of flóknar til að framleiða, þó svo allt sé vitað um uppbyggingu þeirra og hvað þarf til, hvað þa´eggjahvítuefni.

Sköpunarsagan er höfð í flimtingum og gert stólpa grín að þeim sem TRÚA að eitthvað æðra hafi verið á bak við þau tímabil, sem nefnd eru dagur í ritningunni.

En ef grannt er skoðað, er röð atburða í henni algerlega kórrétt, miðað við þa´þekkingu sem nú liggur fyrir.

Mér liggur ekki kali til þeirra sem efast, ég er efahyggjumaður að mörgu leiti, svo sem efast ég stundum stórlega þegar menn vitna í söguskýringar og enn frekar þegar menn vitna í eitthvað það í samtímasögunni, sem hentar hverju sinni.  Þá fyllist ég stundum efa.

Trú mín á Himnasmiðinn er hinnsvegar traust og óbifanleg.  Ég hef orði vitni að stórmerkilegum atburðum, sem ekki fást skýrð á ,,eðlilega háttu".

Því bið ég menn standa fasta og óhagganlega í varðstöðu sinni gegn myrkrinu.

Afkomendur okkar eiga það skilið af okkur, forfeður okkar skildu eftir sig fjársjóð við verðum að skila honum áfram.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 13.12.2007 kl. 21:23

5 Smámynd: Jakob Ágúst Hjálmarsson

Kristilegt siðgæði er samkvæmt skilgreiningu þeir siðir sem einkenna kristna menn. Kristin siðfræði er sú siðfræði sem byggir á kenningum Jesú frá Nasaret og hann sagði ekki endilega það sem við vildum eða höldum, en það er engum sérstaklegum erfiðleikum bundið að gera grein fyrir því. Siðfræðileg heildarit eru að mestu samhljóða.

Tómas virðist ætla mér það sem ég ásaka aðra um og hefur líklega mislesið. Kirkjan á að leiða sína hjörð en ekki elta. Hins vegar er hún ekki ónæm fyrir upplýsingu og það hef ég talið stolt okkar lútherskra að við tökum ábyrgð á viti okkar og þekkingu.

Sjónarmið Ernu er gott og gilt. En sýnir það ekki skakka heimsmynd ef tilbeiðslu er úthýst úr skólanum. Felst ekki boðun í því í sjálfu sér. Væri ekki bara fínt að td einn tími í viku væru fyrir trúariðkun sem skólinn eða trúfélögin sæu um eftir atvikum og börnum þar með kennt frá byrjun að það er eðlilegt að fólk hafi á þessu ólíkan hátt og það beri að umbera. Hvernig ætlum við annars að kenna það og hvar? Það dugir ekki að stunda þá þjálfun í fræðilegu námi. Það verður að vera í umgengni.

Hafið þið annars heyrt að múslimar eiga það til að senda börn sín í kristilega skóla af því að þar er birin meiri virðing fyrir trú þeirra en í almennum skólum?

Bjarni, þú stendur á þínu. Það er gott.

Jakob Ágúst Hjálmarsson, 14.12.2007 kl. 13:19

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að þú komir að kjarna málsins þarna, Jakob. Kristileg siðferðisviðmið verða ekki slitin út tengslum við kristna trú. Okkur kann að virðast sjálfsagt í dag að ástunda umburðarlyndi, kærleika og jafnrétti. Ég veit hins vegar ekki til þess að þessi gildi hafi skipt miklu máli til dæmis meðal Forngrikkja eða norrænna manna fyrir kristnitöku. Þau eiga sér rót í boðskap Krists sem skipti út boðorðinu um auga fyrir auga fyrir það boðorð að menn skyldu elska náunga sinn eins og sjálfa sig.

Ég leyfi mér að benda á frábæra grein eftir sóknarprestinn minn, séra Örn Bárð, í Vesturbæjarblaðinu núna um daginn. Þar nálgast hann þetta mál nákvæmlega eins og mér finnst að kirkjunnar menn þurfi að nálgast það, í anda umburðarlyndis en á beinskeyttan og skýran hátt og án tilslakana gagnvart sjálfdæmishyggjunni.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.12.2007 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband