Aðskilnaður ríkis og kirkju

Ég hef verið fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju um margra ára bil og ritað um það greinar í blöð, fyrst í Mbl. Í ágúst 1986. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mér hafi orðið að ósk minni fyrir tíu árum. Með þjóðkirkjulögunum 1997 og framkvæmd þeirra síðan álit ég að runverulegur aðskilnaður ríkis og kirkju hafi orðið. Þannig hljómar í mínum eyrum það tal að skilja þurfi að ríki og kirkju eins og grammofónplata sem sem gleymst hefur á fóninum all lengi.Hvernig hugsa menn sér frekari aðskilnað?Lítum fyrst á hver tengslin eru í dag.- Þjóðkirkjunnar er getið í stjórnarskrá. Það mundi litlu breyta í raun þó það ákvæði yrði fellt niður, en hugmyndafræðilega þýddi það að löggjafinn þyrfti að koma sér upp nýjum siðgæðislegum viðmiðum, eins og ég og fleiri hafa áður bent á, og móta ákvörðun um hver skuli vera “grundvöllur laga vorra.” Það er ekki vist að menn átti sig á þessu í dag en að því mundi koma að það yrði deginum ljósara.- Þjóðkirkjan nýtur greiðslna á fjárlögum og þær eru tvennskonar. Laun presta koma sem afgjald af eignum sóknanna sem ríkið hefur tekið til sín með samningi frá 1997. Þjóðkirkjan nýtur síðan styrkja líkt og margar aðrar félagslegar stofnanir.Ef fella á niður greiðslu prestlauna á fjárlögum þá hlyti að fylgja að henni yrði skilað aftur eigum hennar eða fyrir þær kæmu eignarnámsbætur. Eignarétturinn er stjórnarskrárvarinn og landeignir sem er uppistaða þessara kirkjueigna hafa hækkað allmjög í verði. Hvað ætli kosti allt land undir Garðabæ í dag? Kirkjan átti það og fleiri verðmætar landeignir sem nú eru komnar undir byggð. Mundi Þjóðkirkjan svo ekki mega vænta styrkja á fjárlögum eins og önnur félög sem leggja fram til almannaheilla, eins og SÁÁ, Götusmiðjan, Ungmennafélag Íslands ofl. ofl?- Það eru sérstök lög um Þjóðkirkjuna. Það eru líka lög um  verkalýðsfélög og margháttaða aðra félagsstarfsemi í þjóðfélaginu. Það eru líka lög um trúfélög. Það hlýtur að vera til hagræðis í augum löggjafans að hafa ekki lagaákvæðin um Þjóðkirkjuna inn í þeim lögum. Í því efni er vart um að ræða breytingar sem máli skipta.- Hvað gætum við aðskilið frekar? Taka krossinn úr fánanum? Guð úr þjóðsöngnum? Jólin úr dagatalinu? Nei, þau eru víst eldri en kristnin, heiðin skilst mér. Ég held að þetta tal um aðskilnað sé rekið af þeim sem í raun vildu alla trúarstarfsemi burt úr samfélaginu. Því markmiði verður aldrei náð svo sem dæmin sanna. Aðrir taka undir þeirra kór af því það er svo “rétt” en vita kannski ekki hvað þeir eru að fara fram á. Alla liðna öld fór aðskilnaðurinn fram samkvæmt hugsunarhætti þeirrar aldar og hann endaði í raun með Þjóðkirkjulögunum og samningi ríkis og Þjóðkirkju 1997 þar sem Þjóðkirkjan tók á sig ábyrgð eigin mála og ríkið tók til sín kirkjueignirnar með loforði um að kosta þá prestsþjónustu sem þá var við líði með reglum sem eru svo sanngjarnar og skynsamlegar að þær gætu verið undan rifjum Þorgeirs ljósvetningagoða runnar. Það er ástæða til að rifja þær upp en þær fela í sér að þjóðin er í raun lýst eigandi eignanna og á meðan þjóðin er að sama hluta í Þjóðkirkjunni nýtur kirkjan ágóðans af eignunum í formi prestlaunanna en gangi fjöldi fólks úr Þjóðkirkjunni fara þessir fjármunir með því úr launasjóði Þjóðkirkjunnar. Þjóðin greiðir þannig atkvæði um þessi hlunnindi með fótunum. Hver og einn hefur virkt atkvæði um þetta. Þetta getur sem sagt ekki orðið lýðræðislegra.Enn kynnu einhverjir að amast við hlut Þjóðkirkjunnar í ýmsum opinberum athöfnum, eins og það að setja Alþingi í kirkju, biðja fyrir forsetanum þegar hann er settur inn í embætti og fara í kirkju af Austuvelli 17. júní.Í Bandaríkjunum er ríki og kirkja eindregið aðskilin, en hvað ósköpunum hefur Billy Graham verið að gera við allar forsetainnsetningar í 30 ár eða meir? Um þátttöku Þjóðkirkjunnar í þjóðlífinu gildir það að hún hlýtur að markast af því að Þjóðkirkjan er almannahreyfing og stendur sem slík á fornum meiði. Hún hlýtur að láta sín getið þar sem hún er. Tölum því um eitthað annað raunhæfara en aðskilnað ríkis og kirkju.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sæll séra Jakob. Ég hef óskað eftir að gerast bloggvinur þinn. Mér þætti vænt um ef þú létir í ljós hvort þú hafir hug á því. Þú ferð þá í stjórnborðið og velur "Samþykkja" eða "Hafna", eftir því hvort þú kýst.

Theódór Norðkvist, 6.1.2008 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband