Út úr kreppunni

Þegar við veltumst um í ólgusjó leitar hugurinn óhjákvæmilega og áleitið í land og hversu mjög maður vildi nú heldur vera þar en í veltingnum. Nærtækt er að hugsa sér það land sem maður fór frá. Það þekkir maður best. Við erum þó í sömu stöðu og landnámsmennirnir forðum að við eigum þess ekki kost að snúa aftur til gamla landsins, en eins og forðum á munum við móta þjóðfélag framtíðarinnar á grundvelli hins gamla, kalla bæina, fjöllin og dalina sömu nöfnum og þar. Hyggið að gömlu götunum, hver þeirra hafi reynst hamingjuleið og farið hana, segir spekingurinn. Hvað var gott áður? Hvað reyndist best?Fjölskyldusamheldnin hefur ávallt reynst okkur vel. Tengslin innan stórfjölskyldunnar hafa verið þýðingarmikil og sagt okkur margt um það hver við erum. Styrkur hjónabandsins hefur jafnan verið meiri en samanlagður styrkur hjónanna og mörg hjón hafa reynst máttarstólpar börnum sínum og vinum og mörgum í kringum sig. Vináttan er dýrmæt líka. Ræktum þetta.Áræðni hefur líka verið mikilvægt einkenni á okkur og dugnaður. Við höfum unnið okkur fram úr mörgum vanda og jafnvel án þess að hafa formlega vinnu. Forsjá þarf að fylgja, ekki að fara fram úr sér. Höldum áfram að byggja upp heimili og fyrirtæki. Það var ekki margt athugvert við þann dugnað á seinustu árum. Kannski aðallega eitt: Við fórum of langt fram úr okkur og höfðum ekki gott borð fyrir báru.Heiðarleiki og áreiðanleiki hafa reynst ómissandi grundvöllur samvinnu og viðskipta. Að hafa það í huga að græða á annara kostnað hefur ekki reynst gæfulegt og er að einhverju leyti orsök þess að svo fór sem fór. Þegar þrengir að núna má ekki víkja af vegi heiðarleikans því við þurfum að geta búið saman áfram. Því skyldi enginn freista þess að bjarga sér á annars kostnað. Láti hver sé nægja það sem hann þarf og seilist ekki ofan í annara vasa eftir meiru – og láti sig heldur vanta eitthvað en skemma sig á gripdeildum.Í erfiðleikum hefur trúin gefið styrk og á góðri siglingu hefur hún stækkað gleðina. Í erfiðleikum hefur þessi þjóð risið undir byrði sinni með hjálp trúarinnar á forsjón Guðs, fundið að Frelsarinn vísaði ávallt á færa leið. Guð vors lands veitir því vernd og landsins börnum blessun að nýju.Hvort sem krýnist þessi þjóðþyrnum eða rósum,hennar sögur, hennar ljóð,hennar líf vér kjósum.Jóhannes úr Kötlum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband