Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Biðraðir þurfamanna

Það er dapurlegt að hugsa til þess og sjá á sjónvarpskermi fólk bíða í röðum eftir mataraðstoð. Í mörg ár tók ég á móti fólki sem var í sömu erindum og vissi svosem að það var jafn margvíslegt og mannfólkið er yfirleitt. Oft fann ég þá tilfinningu að ég bæri ábyrgð á því að þjóðfélaginu væri þannig háttað að sum okkar yrðu að leita bónbjarga. Já, það var líka stundum biðröð á ganginum í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Á henni mátti sjá vandræðin í byrjun tíunda áratugar ljóslifandi. Þegar ég rétti þeim matarpokann læddist oft fram orðið fyrirgefðu eins og hjá gömlu konunum forðum, sérstaklega þegar ég vissi að viðkomandi var flækt(ur) á vondum stað í þjóðfélagsvefnum.

Biðröðin er á vafa birtingarmynd efnahagsvanda og misskiptingar. Hún er smánarblettur á okkur og kannski eins gott að hann sjáist. Þó er óþaft að gera svo mörgum þá vansæmd að þurfa að stilla sér upp í augum alþjóðar og náunga sinna með vanda sinn , almennan sem sérstæðan. Við höfum ákvarðað með þeim hætti um hin félagslegu málefni að þetta er afleiðingin. Þetta fólk heyrir undir þig Guðbjartur, ekki satt. Þetta er fólkið sem þú hefur alltaf viljað berjast fyrir, Jóhanna. - Steingrímur, getur þú hvergi fundið aur handa þessu fólki? Eru ekki alltof margir Reykvíkingar í þessum röðum Jón Gnarr?

Taka á þessu núna!


Undur náttúrunnar - Tunglmyrkvi

Tignarlegur viðburður og skemmtilegur til vangaveltna. Maður verður að setja sig út fyrir jörðina í huganum til þess að sjá fyrir sér atburðarrás tunglmyrkvans og rétt hægt að ímynda sér það augnablik sem þetta laukst upp fyrir mönnum í fyrstunni: Að jörðin svifi í himingeimnum ásamt öðrum stjörnum og kringum hana liði tunglið hring fyrir hring. Staðfastir kraftar náttúrunnar héldu þessu öllu í skorðum og hægt að reikna þetta út fyrirfram uppá mínútu.

Í norska sjónvarpinu sé ég frábæra bandaríska þætti um geimlífeðlisfræði þar sem ma er sótt í náttúru Íslands til þess að fá dæmi um lífeðlifræðileg lögmál, ss um lifandi örverur í jökulísnum og brennisteinsmenguðu hveravatninu. Ég hef fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu að þetta geti ekki hafa orðið til af sjálfu sér svo sú hugsun sem vakir ofar öðru er hvað Hann sé snjall sem gerði þetta allt.

Önnur hugsun lætur líka á sér bæra: Hvað litlu munar að veröld okkar væri án lífs og hversu stutt lífið á jörðunni mun vara á hinum stóra mælikvarða alheimsins.

Ég kemst hvað oní annað við skoðun mína á undrum náttúrunnar í sömu stemmingu og birtist í mörum okkar fegurstu sálmum. Eru undur að skáldinu sr Valdimar Briem skyldu verða þessi orð á vörum: Þú Guð sem stýrir stjarnaher og stjórnar veröldinni.  Eða þá :

Guð, allur heimur, eins í lágu' og háu,
er opin bók, um þig er fræðir mig
SB 20

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband