Las í blöðunum
5.10.2007 | 12:25
Að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um hjónavígslu á vegum Siðmenntar í Fríkirkjunni. Prestar Þjóðkirkjunnar hafa haft nokkra skoðun á því máli. Ég er ekki viss um að þeim komi það mikið við hvað sú kirkja gerir í slíkum málum. Samband hennar við Þjóðkirkjuna er reyndar svolítið sérkennilegt. Að sumu leyti er Fríkirkjan eins og hvert annað trúfélag réttarfarslega en hefur samt bundið sig kenningagrunndvelli Þjóðkirkjunnar. Það kemur í ljós í þeirri staðreynd td að ekki fyrir löngu vígði biskup Íslands prest fyrir Fríkirkjusöfnuðinn svo sem venja er til um. Annað virðist biskup ekki hafa með málefni hennar að gera. En það er líka þeirra mál, en það lýsir víðsýni og opnum faðmi Þjóðkirkjunnar að biskup skuli gera þetta fyrir þau umyrðalaust. Honum fer líkt og safnaðarpresti Fríkirkjunnar sem opnar faðm sinn fyrir Siðmennt. Reyndar er nokkuð sem Fríkirkjuprestur hefur oft á orði og ma í Blaðinu í morgun, það að prestar Þjóðkirkjunnar séu ríkisstarfsmenn. Það er rangt og heldur áfram að vera rangt þó hann segi það þúsund sinnum, jafnrangt og að Þjóðkirkjan sé ríkiskirkja. Ég veit ég mun ekki með þessu skrifi breyta skoðunum hans en ég get upplýst hugsanlega lesendur þessa mikið um þetta mál þó ég láti lítið eitt nægja að sinni.Prestslaun eru borin uppi eins og frá upphafi kristni í landinu af eignasafni sem fólkið í kirkjunni hefur lagt til í þessu skyni. Einingar þess hafa kallast brauð af því að það var lifibrauð prestsins og fjölskyldu hans. Með samkomulagi milli ríkis og kirkju frá 1997 var brauðunum steypt saman í eitt safn og afhent ríkinu til frjálsar ráðstöfunar gegn því að ríkið greiddi 138 prestum og 18 öðum starfmönnum þjóðkirkjunnar laun. Sér til hagræðis fer ríkið líkt með presta og aðra starfsmenn ríkisins og sömuleiðis sér til hagræðis og í anda þessa samkomulags er launaskrifstofa presta á biskupsstofu. Þannig eru prestar alls ekki ríkisstarfsmenn þó þeir njóti í ýmsu réttinda ríkisstarfsmanna. Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag sem á mikilvægan samning við ríkið svo sem fræðimenn hafa greint.Samningurinn frá 1997 er merkilegur og í anda Þorgeirs ljósvetningagoða. Það er í honum ákvæði um að þessum 138 embættum skuli fjölga eða fækka fyrir hver 5000 sem bætist eða minnkar í Þjóðkirkjunni. Ekki einusinni Salómon kóngur slær þessa snilli út. Með því er það lagt í hendur (undir fætur) fólksins í landinu hvað það vill að Þjóðkirkjan hafi úr ríkiskassanum. Það greiðir atkvæði þar um með fótunum! Meðan það er í Þjóðkirkjunni nýtur hún þess. Fari það annað geldur hún þess og fólkið fær í gegnum ríkið embættin til annarar ráðstöfunar. Segjum að fjöldaúrsagnir yrðu úr Þjóðkirkjunni og í henni minnkaði um helming. Þá fækkar prestembættum líka um helming og útgjöld ríkisins vegna Þjóðkirkjunnar minnka að sama skapi. Þett finnst mér bæði klókt og réttlátt afar lýðræðislegt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.