Ritsafn Jakobs

https://1drv.ms/f/s!AjVOFPUZ13KvgoIPbL09YH4ePmTvNA?e=4XaApl


Efni til sögu Bíldudals

Velkomin á BÍLDUDAL:
Efni til sögu Bíldudals, Annáll, Fólkið og Húsin.

Jólatré - Logandi runni 2Mós 3

 

 

IMG_8600Jólatréð hefur ekki átt sér ýkja langa samleið með kristninni en var í heiðni tengt ásatrúnni. Það er þó til eftirtektarverðs dæmis um hverning kirkjan hefur helgað sér eldri trúararf.

Yggdrasill var helgur meiður og fórnartré og um hann hefur ýmislegt verið lesið út frá krossi Krists en nú skulum við hugsa um annað.

Ég veit ekki hvernig litum þú manst eftir á jólatrénu þínu en ég man eftir marglitum seríum bernsku minnar, bláu stjörnuseríunni sem pabbi útvegaði einhvers staðar. Ég leitaði náttúrlega að blárri seríu þegar við Auður skreyttum okkar fyrsta jólatré, endurnýjaði seinna en svo fann ég enga bláa fyrir einhverjum árum og þá keypti ég eina rauða og núna erum við með hvít batterískerti á tré sem ég bjó til.

Þegar rauðu ljósin voru við lýði fór ég að hugsa um líkinguna við hinn logandi þyrnirunna úr frásögunni af því þegar Guð kallaði Móse til að verða leiðtogi fólks síns svo sem skrifað stendur í annari Mósebók 3. kafla. Sú saga hefur verið til tákns um sitthvað í kristinni trúararfleifð.

Móse tók eftir að runninn brann ekki – hann logaði, eldurinn sem stóð upp af honum læsti sig ekki í greinar hans og það er sem höfundur textans telji sig vita meira en Móses um þetta atriði, því hann segir að þetta hafi verið engill sem stóð upp af þyrninrunnanum; sveif í loftinu.

En rödd Guðs hljómaði úr miðjum runnanum og kallaði nafn hans tvisvar og Móse svaraði: Hér er ég. Þá sagði Guð til sín og að Móses skyldi draga skóna af fótum sér því staðurinn sem hann stæði á væri heilög jörð vegna nærveru sinnar. Það gerði Móse og fékk síðan fyrirmæli sín og verkfæri og setti mótkröfur (!) og sættust þeir síðan á samning um verkefnið.

Runninn sem ekki brann en logaði er því tákn um nærveru Guðs. Þetta þótti okkur systkinunum sjálfsagt í gamla daga, enda þó það væri ósagt, þegar við fengum að koma inn í stofuna heima í Ásgarði áður en haldið var til kirkju klukkan sex. Já við áttuðum okkur á því að nú var stofan okkar heilagt rými þó enginn segði okkur það og allir pössuðu vandlega upp á það að grenitréð okkar færi nú ekki að brenna, því í fyrstunni vorum við með kertaljós sem loguðu svo fallega og lítil börn vildu snerta í hrifningu sinni.

Pabbi sem flest gat nú var oft í vandræðum með seríuna sem hann fékk sér vegna eldhættunnar strax og slíkur búnður var fáanlegur. Svo fór að það kom aldrei eldur í tréð en það logaði á ljósi á hverri grein.

Jólatréð í stofunni þinni á að segja þér að himininn hafi teygst alla leið niður á stofugólfið hjá þér og Guð sé hér, hjá þér og þínum og ekki aðeins það, heldur vilji hann þér nokkuð. Þú hefur eins og Móses sitthvað um það að segja og getur gert gagnkröfur og þannig verður til samningur ykkar á milli, gagnkvæmur samningur. Það heitir í alþjóðastjórnmálunum „bilateral“ samningur.

Já, þú ert ekki róbót eða strengjabrúða og þarft að samþykkja fyrir þitt leyti samninginn og þá segja til hvað til þurfi að þú fallist á hann. Og sjáðu hve mikils Guð virðir þig að hann yfirleitt hlusti á þig; hann er sannur diplomat. Og af því þetta er svona og þú og aðrir frjálsir að vali sínu og gerðum þá geturðu ekki kennt Guði um ef illa fer. Ef þú hugsar þig vel um þá muntu sjá að fátt er Guði að „kenna“, en hann tekur hins vegar ábyrgð á öllu havaríinu og bætir um; hefur allan heimsins mátt margfaldan og eilífðina til þess.

Sennilega er óvíst hvor ykkar kemur fram með fyrsta samningasatriðið – fjölskyldu þína. Hann felur þér að leiða þitt fólk eins og Móse og þú biður hann að gæta þess. Þú minnir hann á að þú sért ekki mikils máttugur sjálfur og þá lofar hann þér aðstoð þeirra sem heilagur andi hans miðlar eftir sínum ókennilegu leiðum. Fólk hjálpar eða ekki og ber því ábyrgð á aðgerðarleysi sínu sem og meingerðum. Guð er ekki á ferðinni með strokleður og strokar út úr tilverunni vond verk manna, því við erum öll ábyrg fyrir þeim og afleiðingum þeirra, hvort sem við trúum á hann eða ekki. Lífið er í alvöru en ekki eins og þegar mamma passaði mann óvita barn.

Hugsa sér að Guð skuli virða okkur svo mikils að mega setja mark okkar á sköpun hans hvort sem við viljum skemma aða bæta. Hann beinir okkur hins vegar aðeins að því fagra góða og fullkomna, því sá er vilji hans.

Hlustaðu á rödd Guðs frá jólatrénu og segðu: Til er ég!


Hvað getum við tekið jólin langt?

 

Mönnum verður á þessum dögum árs tíðrætt um þýðingu jólanna og takast aðeins á um hvað þau eru eiginlega. Þau eru eflaust eldforn og hvert menningarsamfélag hefur gefið þeim inntak að sínum hætti. Heitið jól er komið úr norrænni heiðni og tengist mánaðarheitinu jólnir sem einnig er eitt nafna Óðins. Menn vita ekki merkingu þess. Sumir nefna tengsl þess við heitið öl og þann sið að „drekka jól.“

Ég velti fyrir mér hvort menn nýta sér ekki hátíðina á misjafnan hátt; taki hana mis „langt.“ Þá gæti það ef til vill verið einhvern veginn  svona

  1. Jólin eru miðsvetrarhátíð á norðurhveli jarðar og þá fagna menn því að dag fer aftur að lengja.
  2. Jólin eru kærkomnir frídagar á miðjum vetri, tækifæri til að gera sér dagamun.
  3. Jólin eru fjölskylduhátíð með börnin í forgrunni.
  4. Jólin eru fjölmenningarleg hátíð með trúarlegu ívafi.
  5. Jólin eru kristin/ gyðingleg/ ásatrúar meginhátíð.
  6. Jólin eru fyrir kristnum mönnum fæðingarhátíð Frelsarans og hafa mótað menningu vestrænna þjóða gífurlega.
  7. Jólin eru kirkjulegur fögnuður yfir nærveru Guðssonarins í lífi mannanna.

Það má gera sér það í senn til gamans og gagns að staðsetja sjálfan sig á þessum skala. Hvað tekur þú jólin langt. Stig 6 og 7 eru auðvitað bundin við menningarheim okkar, enda eru ekki allir uppteknir af þessum snúningi jarðar um sólu sem okkur skiptir svo miklu máli. Aðrar menningarheildir hafa auk þess annan trúargrundvöll til að túlka lífsrás sína.


Dauðarefsingar

 http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/03/16/eg_brenn_allur_ad_innan_3/

 

Óskiljanlegt og hörmulegt eru hugsanir sem koma upp í hugann þegar lesnar eru greinargerðir af þessu tagi um líflátsdóma og fullnustu þeirra.

Bandaríkjamenn eru svo viðkvæmir að þeir geta ekki hugsað sér dráp hvala og skiptir þá engu máli hvort þeir eru raunverulegir meðbiðlar mannsins til matarins eða ekki. Þó skirrast þeir ekki við að taka nautskálfa frá mærum sínum og ala í lokuðum búrum alla þeirra daga og leiða þá ranghvolfandi í sér augunum  til slátrunar sem ekki er nokkurn tíma fagur atburður en stundum sérlega ljótur.

Tólfunum kastar þó þegar á það er horft að um tveggja alda afmæli Bandaríkjanna hurfu þeir aftur til þeirrar ömurlegu fortíðar að taka samborgara sína af lífi. Ekki tekst þeim öllu betur upp við þá framkvæmd en nautgripaslátrunina. Mennirnir kveljast í óhugnanlega langa stund áður en þeir hafa gefið upp öndina. Allir þeir sem að koma fár sár á sálina vegna þessara voðaverka sem þeir eiga aðild að, og lyfjafyrirtæki vilja ekki leggja nafn sitt við að afhenda lyf til verknaðarins, sem i sjálfu sér gerir hann ótryggari.

Í ljós hefur verið leitt að kostnaður samfélagsins af þessu kerfi er mun meiri en af lífstíðardómum en áfrýjunarlögmenn lifa af þessu stórum hópum og fjölskyldur sligast undan málskostnaðinum sem engin leið er að komast hjá að borga.

Dapurlegast af þessu öllu er þó að í ljós hefur verið leitt að hundruð þeirra sem líflátnir hafa verið eru ýmist saklausir eða eiga ekki líflátsdómana skylið að lögum. Svo eru óhugnanlega margir þeirra blökkumenn, allsendis úr hlutföllum glæpamannanna.

Kannski er enn dapurlegra að verða að horfast í augu við það að Bandaríkjamenn eru flestra þjóða kristnastir og bera því nafni Frelsarans dapurlegan vitnisburð. Viðeigandi því að enda þessi orð á að segja við vinaþjóðina: Hættið þessu í Drottins nafni!


"Úlfur, úlfur" einum of oft.

Nú er svo komið að göbb hafa orðið of mörg við Faxaflóa og mannlegt að menn taki þessu ekki af fullri alvöru í eitthvar næsta skiptið. Ásetningurinn er þó  sá að taka allt alvarlega. Það væri dapurlegt ef sá sem gabbar reynist svo einmitt vera í neyð þegar mannlegi þátturinn slær inn og hann bíður hjálpar of lengi - hún komi jafnvel of seint.

Þetta minnir líka á aðgæsluleysið sem getur valdið gróðureldum sem engu eira og ekki verður við ráðið í sérstökum veðufarsaðstæðum. Bruninn a Mýrum um árið og í Laugardal í Djúpi í hitteðfyrra mega vera í fersku minni. Norðmenn mæta þessu núna með hörmulegu eignatjóni. Heimili fólks brenna til grunna!

Við verðum  að reynast ábyrg, ekki bara fyrir okkur heldur líka óvitunum, eldri sem yngri. Við þurfum að temja okkur hugarfar björgunar- og hjálparsveita og gera okkur ómak að koma til skjalanna þegar þörf er á og við stefnum sjálfum okkur ekki í hættu. 

Gabbhneigðir, prakkarar, sitjið á strák ykkar en gerið ekki lítið úr ykkur.


Bullið um Þjóðkirkjuna

Núna er í loftinu þátturinn Í vikulokin á ruv1. Þar heldur áfram umræðan um klámhögg Sigríðar Ingu og áhugamenn eru að reyna að snúa því á Þjóðkirkjuna og taka undir með henni. Er útilokað að koma því inn í hausinn á fólki að Þjóðkirkjan er ekki ríkisstofnun og ríkið ráðstafar ekki fjármunum hennar. Það gerir hún sjálf! Þjóðkirkjan er almannahreyfing og hefur tekjustofna sem byggjast í aðalatriðum á afgjaldi af eignum sem ríkið hefur tekið til ráðstöfunar, líkt og um þjóðnýtingu væri að ræða og fyrir slíkt kemur ævinlega endurgjald. Það eru laun starfmanna Þjóðkirkjunnar. Sóknargjöldin eru félagsgjöld sem ríkið innheimtir og hefur haft smekk til að taka 40% "innheimtugjald" af í eigin vasa. Annað eru framlög úr ríkissjóði líkt og margar aðrar fjöldahreyfingar sem sinna almannaþjónustu fá. Þær ráðstafanir sem þetta fyrirkomulag byggist á eru allar gerðar af stjórnvöldunum og flestar af frumkvæði þeirra og allar með ágreiningslitlu samþykki Alþingis. Stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn sem ekki geta talað út frá þessum staðreyndum ættu að láta málið órætt.

Nýja stjórnarskrá núna.

Mér líkar ekki hvernig Alþingi hefur tekið á stjórnarskrármálinu!
Ég ætla því að taka það úr höndum þess uppúr hádeginu þann 20. október næstkomandi og hafa það í eina mínútu en skila því svo aftur í sömu hendur með þeim skilaboðum að það vinni sitt verk á stjórnarskrárfrumvarpinu snöfurmannlega, af ábyrgð og með bestu manna yfirsýn.
Ef við verðum mörg sem samþykkjum að á frumvarpi Stjórnlagaráðs verði byggt er það áskorun á Alþingi að gera því skil eftir þess hljóðan. Ef við verðum mjög mörg þá duga því engin undanbrögð lengur að það taki sinn lögmælta þátt í að setja þjóðinni stjórnarskrá.
Dugleysi Alþingis í þessu efni er dapurlegt og metnaðarleysið grátlegt. Í 68 ár hefur verkið verið á dagskrá og væri í sjálfu sér alger ómerking á Alþingi ef mannréttindakaflinn hefði ekki orðið til á hálfrar aldar afmæli hennar. Nær allur atbeini þingsins er dæmi um klaufaskap og einurðarleysi.
Spurningarnar á atkvæðaseðlinum eru að nokkru dæmi um sleifarlag. En grundvallarspurningin er klár og það dugir mér til þess að koma vilja mínum til skila. Hún er milljónarspurningin! Ég brenn í skinninu að svara henni!
Lofsvert er hins vegar það starf sem Þjóðfundur, Stjórnlaganefnd og Stjórnlagaráð hafa unnið svo langt sem það getur náð. Það er þannig til orðið að ekki er annað hægt að virða það frumvarp sem fyrir liggur. En það þarfnast ákveðinnar yfirvegunnar, rannsóknar og ábyrgðar sem aðeins Alþingi getur staðið undir.
Nú ætla ég að skora á fólkið í landinu að koma með mér á kjörstað 20. október og segja þingmönnum fyrir verkum. Þeir eru í vinnu hjá okkur og eiga að vinna sitt verk eftir okkar forsögn.
Nýja stjórnarskrá eftir fyrirsögn Stjórnlagaráðs, fyrir vorið, takk fyrir. Við bíðum ekki lengur!

Hetjur hversdagslífsins

Í gær sótti ég messu í Hallgrímskirkju þar sem Hallvarður Björgvinjarbiskup prédikaði. Guðspjallið var Jesús kyrrir vind og sjó og gerði hann að sérstöku hugleiðingarefni töf Jesú á því að kyrra vindinn og lægja sjóina. Í biðinni er Jesús hjá lærisveinunum og ræðir við þá. Það er tími samfélags og þroska.
Þannig er þetta líka oftast þegar við mætum áföllum sem við biðjum heitt að megi skilja við okkur ósködduð. Þegar Jesú síðan vill breytir hann stormi í blíðviðri. Okkur finnst það jafnan of seint og sjáum jafnvel dauðann koma í veg fyrir hjálpina, en það er ekki rétt ef við skiljum eilífðina vera sæla tilveru. Hann leysir líf hins sjúka til sín, til þeirrar tilveru sem hann hefur óbundnar hendur. (Ekki svo að skilja að hann geti ekki leyst af sér þau bönd þegar hann vill.)
Stundum hafa hlutirnir sinn gang og lítið barn með heilabólgu, úr dæmi sem hann rakti, kemur stórskaddað úr áfallinu. Þá spyrja foreldrarnir að því hvers vegna Guð láti þetta viðgangast og fá ekki svör. Illt hendir, það vitum við. En hið góða hendir líka og er fremur á okkar valdi en hitt.
Það sem ég hefði viljað bæta við hjá biskupinum er það sem ég heyri foreldra segja sem eiga börn sem hafa mætt svo alvarlegum örlögum: Það skal vera heppið að eiga okkur úr því þetta þurfti að fara svona. Þá breytast foreldrarnir úr fórnarlömbum í harðsnúið björgunarlið sem veður gegnum skafla og bylji erfiðleikanna til þess að koma barninu sínu til hjálpar.
Ég þekki svona hetjur og veit að þær eru til, fullt af þeim!
http://www.jakobagust.is/?p=2078


Skóli og trúarbrögð

Ef við ætlum að ganga heilshugar til móts við fjölgreint samfélag eigum við að hylla fjölbreytnina hvar og hvenær sem við getum. Þá á meðal í skólanum.
Þannig kennum við ungviðinu að það sé ekkert athugavert við það að vera sérstakur eða jafnvel nokkuð almennur.
Þannig verður ekkert athugavert við það að imam komi í skólann til þess að hitta þau börn sem það vilja eða bjóða til sín í moskuna ef tilefni væri til. Heldur ekki búddamunkur, siðmenntarfræðari eða prestur.
Það ætti jafnvel að láta svolítið með þetta af því að tilefnið væri líklegast mikilvægt í augum þess sem það tengdist. Þannig mætti kenna um ólíka siði manna og sömuleiðis að það væri bara fínt að vera svona eða hinsegin svo lengi sem maður er ekki vondur við neinn.
Afstaða af þessu tagi eflir sjálfstraust barna og opnar hugsun allra fyrir margbreytileika mannlífsins; verður jafnframt gott verkfæri í baráttunni gegn einelti.
Það að banna allt mögulegt leiðir til þröngrar einsleitni, umburðarleysis, og harðlyndi eins og saga okkar hér á Skerinu lýsir. Innleiðum ekki nýtt form af skoðunarhömlum. Hyllum frelsið og fjölbreytnina, alla liti regnbogans!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband