Húsafriðunarnefnd hefur ekkert lært

Húsafriðunarnefnd vaknar nú enn einu sinni af Þyrnirósarsvefni og geysist fram gegn byggingu Þorláksbúðar í Skálholti. Bæði hún og aðrir sem hafa talað gegn þessu verki hafa í raun fyrirgert rétti sínum til afskipta af málinu, því það er rétt sem sagt er að þetta mál hefur ekki gengið fram í neinum felum og aðilar nánir td Húsafriðunarnefnd hafa haft um málið að segja og ekki lagst gegn. Hins vegar er það kannski klökkt á að horfa að æsingu skuli þurfa til þess að opinberar stofnanir hrökkvi í gír. Það að þær séu opinberar, á vegum ríkis eða bæja, veitir þeim ekki rétt til þess að vaða yfir verk manna eins og þursar.
Nú er og á að líta að þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá andmælendum verkefnisins standast ekki röklega skoðun. „Folald skyggir ekki á móður sína“, né skyggir móðir á barn sitt. Við það verður að búa að Skálholtsdómkirkja hin nýja dvelur í umhverfi þar sem forminjar eiga sér helgaðan sess frá því áður en hún reis, svo tilkomumikil sem hún er. Til þess verður að taka tillit. Mönnum kann jafnvel að þykja ástæða til að leiða fram úr mósku aldanna fleiri eldri byggingar og ekki er við hæfi að hún, svo reisuleg sem hún er, leggi allar slíkar athafnir í Dróma ef komandi tími vill hið andstæða. Til þess hefur hún ekki kall.
Nýbyggingin er byggð yfir forminjarnar á svo haglegan máta að ekki verða þær betur varðveittar en ráð er fyrir gert. Hún sýnir okkur inn í ríka sögu staðarins og minnir með áþreifanlegum hætti á fornan veruleika fyrir okkur að sjá og meta. Hvergi skyggir hún á dómkirkjuna nema frá stíg heimamanna. Í fjarsýn og ekki heldur af heimreið ber hana við helgidóminn. Þorláksbúð gæti í raun ekki verið betur staðsett gagnvart hinni nýju kirkju en hún er og ef til vill var það hugsunin í fyrndinni því dómkirkjan stendur þar sem þær hafa ævinlega staðið; hugsun sem kannski ber að meta.
Ég hef áður séð Húsafriðunarnefnd gera tilraun til þess að spilla miklum fjármunum fyrir fólki með því að hrökkva upp af svefni þegar aðrir höfðu verið lengi á fótum við verk sín og æðrast yfir því sem fram hefur farið á meðan hvíldar var notið. Ég get því fullyrt að hún kann að koma ringulreið á svið þar sem hún átti að fara fyrir með fortölum ef hún vildi koma sjónamiðum sínum áleiðis.
Áður var stundum sagt að menn skyldu segja meinbugi á þá og þegar eða þegja ella. Það hefur átt við Húsafriðunarnefnd í þessu tilfelli og gildir sama um þá sem hófust upp nú á haustmissirinu um málefni Skálholts.

Um Þorláksbúð


Það er kannski ekki mesta nauðsynjamál samtímans að byggja upp Þorláksbúð í Skálholti, en hún hefur nú verið á döfinni um hríð og er senn fullgerð. Tilgátuverk hjá þjóð sem fátæk er af byggingarminjum. Auðunarstofa var byggð á Hólum, bær í Þjórsárdal eftir rannsóknum á Stöng, kirkja í Vestmannaeyjum svo eitthvað sé nefnt.
Nú hefur mönnum þótt ástæða til þess að fetta fingur út í þetta verkefni og til þess kunna að vera ástæður, en líklega allar í eftirþankanum. Sagt hefur verið um Rousseau að hann hafi ólíkt hinum orðsnara Voltaire aldrei vitað hvað rétt væri að segja fyrr en hann var á leið niður tröppurnar úr veislunum í París. Brjóstumkennanlegt.
Nú hefur það varla farið framhjá þeim sem unna Skálholti að uppbygging Skálholtsbúðar hafi verið á döfinni. Ekki hafa þeir reynst staðnum betri vökumenn en svo að þeir fara þá fyrst að hósta þegar loka á dyrum þessa verkefnis. Finnist þeim þetta svo mikið ólán, þá hefðu þeir átt að segja frá því fyrr.
Vissulega er þetta álitamál og kannski hefði þetta farið betur á annan veg. En þær ákvarðanir sem þetta varða voru teknar í sínum samtíma á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og skulu því dæmdar samkvæmt því, og nú er svo komið sem komið er.
Að sjálfsögðu þarf að tryggja að öll tilskilin leyfi og samsinni erfingja höfundarréttar séu fengin og rétt hjá Kirkjuráði að láta fara í athugun á því, en ekki má lengi tefja verkið svo ekki spillist.
Sjálfur hef ég séð aðdragandann svo sem úr fjarlægð og var ekki um sel þegar góðir og mætir menn fóru fram á ritvöllinn og mótmæltu þessu. Ég þakka framkomnar athugasemdir í fjölmiðlum að undanförnu og hef gert mér gagn að þeim. Mér sýnist hins vegar ótvírætt að þetta verk beri að klára samkvæmt áætlun.
Hvað staðsetningu varðar þá er það hún sem gefur verkefninu sterkustu sögutenginguna. Byggingin var í öndverðu sett niður þar sem kapítulahús stóðu helst við dómkirkjurnar og er því aldeilis kórrétt.
Þeir sem kunnugir eru staðháttum þarna sjá í hendi sér að hvergi gæti þetta hús staðið á staðnum þar sem það færi betur með kirkjunni; skyggir í engu á hana tilsýndar nema af staðartröðinni sem heimamenn einir nota. Aðkoman að staðnum, tilsýnin úr vestri, suðri og austri spillist í engu.
Skálholt er forn staður, en fátt það sem dregur hugann að fornum tíma ber fyrir augu annað en bæjarstæðið eitt, og göngin. Ef til vill munu bæjarrústirnar fá þann umbúnað síðar að úr bætist, en þetta verk ber að þakka.

Heimsendir

Á morgun verður heimsendir og áætlað að 153.000 manns deyi þann dag.Þetta er staðreynd.Sá sem nokkuð veit hefur á því skil að lífið mun einhverntíma vera horfið af jörðunni. Það er bundið við tíma og aðstæður. Só0lin mun kulna í fjarlægri framtíð og okkur mönnunum er trúandi til að spilla svo jörðunni að hún verði óbyggileg.  Flest menningarsamfélög hafa jafnframt komið þessari hugsun fyrir í grundvallartextum og munnlegri geymd og spekingar hennar hafa lagt þá út fyrir samtíð sína.Frumkristni var upptekinn af hugsun endalokanna og ofsóknir gegn kristnum mönnum fyrstu aldirnar og hörmungartímar síðan hafa gefið tilefni til vangaveltna um endi sögu mannsins. Í Opinberunarbók Nýatestamentisins er fjallað um þetta efni og sett fram sú meginhugsun að rás tímans og örlög mannsins eru í hendi Guðs sem tryggja mun björgun þeirra sem á hann treysta.Margir hafa reynt að reikna út þann tíma sem endalokin munu að bera, en það er tilgangslaust, því þann dag veit enginn nema faðirinn á himnum; ekki einu sinni sonurinn Jesús Kristur. (Sbr Mark 13:32)En sérhver stund er heimsendir fyrir einhverjum og á morgun munu að líkindum 153.000 manns deyja eins og sérhvern dag. Flest þeirra harmdauði þeim sem unnu þeim og þau sjálf munu ekki aðhafast fleira á þessari jörð.Lifum lífinu lifandi hefur verið sagt og er hyggilegt. Dagurinn í dag er sá fyrsti af afgangi lífs þins. Lífið er dýrmætt tækifæri en ekki það eina fyrir þeim sem trúa á Drottin Jesú sem son Guðs, frelsara mannanna.

Eftir vantrauststillögu

Naumara gat það varla verið! Lagast kannski þegar Sif og Guðmundur Steingrímsson verða komin í Samfylkinguna. Vg eru hins vegar klofin í herðar niður og áhugavert að spá í hvorar áttir helmingarnir falla. Er ekki rétt að Ásmundur fari í bændaflokkinn og bæti þeim þannig skaðann? Lilja gæti slegið sig saman með Hreyfingunni og væri þeim þannig bættur Þráinn. Atli passar hvergi lengur. Hins vegar væri kannski eðlilegt að allir kettirnir í Vg settu saman nýjan flokk og þá gæti mögulega restin farið heim til félagshyggjufólksins lærdóminum ríkari á að það þarf að afla fjár fyrir velferðina og jafnfram eflt þann flokk í umhverfismálum. Þeim veitti ekki af því.Það er gaman að horfa á framþróun sápunnar en varla hægt að missa af neinum þætti því núna eru hlutirnir að ske. Þetta er ekki í alvöru, er það nokkuð?

Vantraust á ríkisstjórnina

Það er í hæsta máta eðlilegt að fram komi vantrauststillaga á Alþingi á þessa ríkisstjórn. Svo margt hefur borið við að undanförnu og margt komið fram að rétt er að til atkvæðagreiðslu verði efnt og kannað hvort hún nýtur enn stuðnings. Stjórnin sem hefur unnið af eindæma þráa við að koma okkur áfram í hafvillum kreppuára hefur misst kúrsinn og það sem verra er að hefðu menn grun um stefnuna þá miðar ekki neitt.Fólk og fyrirtæki reyna að bjarga sér og vesöld krónunnar veldur því að útflutningsgreinarnar skila mörgum krónum í þjóðarbúið eins og er. En hvorki fólkið né fyrirtækin tolla hér, enda kalla menn á að viðnám sé veitt. Um sókn þora menn ekki að tala. En það er það sem við þurfum. Vinstri græn halda öllu í krampataki sínu, að sínu leyti lík bátsmanni sem hamast við að ausa lekan bát í stað þess að þétta hann og reyna að koma á hann ferð að áfangastað. Samfylkingin er lánleysið uppmálað við þessar aðstæður og Össur verður að Donkíkóta með EU umsókn sína. (Hún mun seinna verða tímabær en ekki við þær aðstæður sem við búum við núna.)Nei, við verðum að kjósa nýtt þing, kalla fram farsælli ferðaáætlun og afhenda nýtt umboð til leiðsagnar á fast land fyrir þjóðina. Það er allt í lagi að kjósa. Við ræðum pólitík alla daga hvort eð er og það tekur augnablik að skjótast á kjörstað. Kjósum meðan sól hækkar enn á lofti!

Það þarf að klára þetta.

Ég er búinn að kjósa og sagði JÁ. Allt fannst mér bjóða það. Þó urðu þeir Ragnar Hall og Jesús til að setja í mig sannfæringuna. Fyrst Jesús því hann sagði: Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann... Lúk 12:58 Ragnar sagði það sama og taldi engan vanheiður af því að sættast á mál þó manni finndist að rétturinn væri manns megin. Að sættast á mál er líka dæmi um samskiptahæfni. (Fer að vísu eftir niðurstöðunni.) Málalok er líka góður áfangi.

Segjum því JÁ og höldum áfram að vinna okkur út úr kreppunni.


Biðraðir þurfamanna

Það er dapurlegt að hugsa til þess og sjá á sjónvarpskermi fólk bíða í röðum eftir mataraðstoð. Í mörg ár tók ég á móti fólki sem var í sömu erindum og vissi svosem að það var jafn margvíslegt og mannfólkið er yfirleitt. Oft fann ég þá tilfinningu að ég bæri ábyrgð á því að þjóðfélaginu væri þannig háttað að sum okkar yrðu að leita bónbjarga. Já, það var líka stundum biðröð á ganginum í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Á henni mátti sjá vandræðin í byrjun tíunda áratugar ljóslifandi. Þegar ég rétti þeim matarpokann læddist oft fram orðið fyrirgefðu eins og hjá gömlu konunum forðum, sérstaklega þegar ég vissi að viðkomandi var flækt(ur) á vondum stað í þjóðfélagsvefnum.

Biðröðin er á vafa birtingarmynd efnahagsvanda og misskiptingar. Hún er smánarblettur á okkur og kannski eins gott að hann sjáist. Þó er óþaft að gera svo mörgum þá vansæmd að þurfa að stilla sér upp í augum alþjóðar og náunga sinna með vanda sinn , almennan sem sérstæðan. Við höfum ákvarðað með þeim hætti um hin félagslegu málefni að þetta er afleiðingin. Þetta fólk heyrir undir þig Guðbjartur, ekki satt. Þetta er fólkið sem þú hefur alltaf viljað berjast fyrir, Jóhanna. - Steingrímur, getur þú hvergi fundið aur handa þessu fólki? Eru ekki alltof margir Reykvíkingar í þessum röðum Jón Gnarr?

Taka á þessu núna!


Undur náttúrunnar - Tunglmyrkvi

Tignarlegur viðburður og skemmtilegur til vangaveltna. Maður verður að setja sig út fyrir jörðina í huganum til þess að sjá fyrir sér atburðarrás tunglmyrkvans og rétt hægt að ímynda sér það augnablik sem þetta laukst upp fyrir mönnum í fyrstunni: Að jörðin svifi í himingeimnum ásamt öðrum stjörnum og kringum hana liði tunglið hring fyrir hring. Staðfastir kraftar náttúrunnar héldu þessu öllu í skorðum og hægt að reikna þetta út fyrirfram uppá mínútu.

Í norska sjónvarpinu sé ég frábæra bandaríska þætti um geimlífeðlisfræði þar sem ma er sótt í náttúru Íslands til þess að fá dæmi um lífeðlifræðileg lögmál, ss um lifandi örverur í jökulísnum og brennisteinsmenguðu hveravatninu. Ég hef fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu að þetta geti ekki hafa orðið til af sjálfu sér svo sú hugsun sem vakir ofar öðru er hvað Hann sé snjall sem gerði þetta allt.

Önnur hugsun lætur líka á sér bæra: Hvað litlu munar að veröld okkar væri án lífs og hversu stutt lífið á jörðunni mun vara á hinum stóra mælikvarða alheimsins.

Ég kemst hvað oní annað við skoðun mína á undrum náttúrunnar í sömu stemmingu og birtist í mörum okkar fegurstu sálmum. Eru undur að skáldinu sr Valdimar Briem skyldu verða þessi orð á vörum: Þú Guð sem stýrir stjarnaher og stjórnar veröldinni.  Eða þá :

Guð, allur heimur, eins í lágu' og háu,
er opin bók, um þig er fræðir mig
SB 20

Að sjá öllum borgið

Mér líst vel á "LÍN hugmyndina" með húsnæðislánin en mér líst illa á stóran leigumarkað. Ég efast um að við höfum efni á niðurfærsluleið húsnæðislánanna vegna þess að ég held að það sé rétt hjá Þórólfi Matthíassyni að sú leið kæmi bara annars staðar niður á móti, því einhver verður að borga vitleysuna á endanum og það verða ekki hrunvaldarnir. Niðurfærsluleiðin væri sanngjörn ef hún kæmi niður í endanlegum uppgjörum bankanna en það gerir hún ekki. Allir hafa tapað en kannski ekki mikið öðru en glýjunni úr augunum. Við færumst þá niður í átt til raunveruleikans og í honum er gott að vera, hvort maður þarf að færa sig upp eða niður út eða suður.En það er ótækt að riðla slíku í þjóðfélaginu að fólk missi í stórum stíl  heimili sín eða sitji uppi með niðurdrepandi skuldklafa eins og við blasir. Sumir munu þurfa að trimma sig, fara í minna og ódýrara, en allir verða að bjargast áfram. Þess vegna þurfum við að koma hreyfingu á húsnæðismarkaðinn, búa til skilmála sem menn vita að munu halda til framtíðar. Að hafa húsnæðislánin þannig að menn borga af þeim eftir tekjum er góð hugmynd en lánin verða að hafa þök. Það er vitleysa að menn séu í alltof dýrum íbúðum á kostnað lánasjóðanna. Það verður því að vinna úr málum hvers og eins eftir ákveðnum viðmiðum og það geta fleiri gert en umboðsmaður skuldara einn ekki síst bankarnir og lögmannastofur. Búm til viðmið.Stór á leigumarkaðurinn ekki að vera því það er aldrei hægt fyrir leigusala að keppa við félagslegt íbúðalánakerfi um verð og búsetuöryggi. Búseturéttarkerfi er nær lagi og hálf félagsleg kerfi möguleiki. Reynsla okkar Íslendinga gegnum langan tíma hefur þó leitt okkur að þreirri niðurstöðu að best sé að hver búi við sitt eigið.

Ísafjörður skal standa!

Sú aðför að byggðum lands sem fjárlagafrumvarpið fyrir 2011 boðar er einsdæmi.

Róinn hefur verið lífróður á undanförnum áratugum að verja byggðirnar á landsbyggðinni og ótrúlegt framtak hefur birst í þeirri baráttu. Framfarir hafa orðið miklar í nýtingu sjávarfla. Nýjar atvinnugreinar hafa verið teknar upp. Þjónusta hefur verið efld og byggð upp. Menntunartækifæri efld osfrv. Þetta hefur tekist þrátt fyrir að teknar hafa verið ákvarðnir á æðstu stöðum sem hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir margar byggðirnar. 

Alþingi lögleiddi á sínum tíma kvótaframsal með þeim hætti að víða varð þurrð á lífsbjörginni, og nú er upp á þetta boðið! Öll uppbyggingarstarfsemi er sett í hættu með þessum áformum. Heilbrigðisþjónustan er einn af grundvallarþáttum búsetunnar. Hingað til hafa menn beitt dirfð og hugkvæmni til þess að halda öllu gangandi þrátt fyrir niðurskurð á undanförnum árum. En nú segjum við öll: EKKI MEIR, EKKI MEIR!

Ég kannast við það úr eigin lífi að hafa valið mér búsetu eftir gæðum heilbrigðisþjónustunnar og veit að ef á verður brestur getur fylgt byggðabrestur. Þannig að ég veit að hvorki Ísfirðingar né annað dreifbýlisfólk láta þetta yfir sig ganga.

Ísafjörður er fyrir sig slíkur útvörður þar sem hann liggur við fengsæl fiskimið og siglingaleiðir Norðurhafa og er sá lykill að náttúruparadís að um hann þarf að fjalla af tilhlýðilegri ábyrgð. Menning og mannlíf, starf og saga heimta virðingu og öflugan stuðning. Hann er og staðfesta allra byggða á Vestfjörðum og þjónustan þar er landstólpi í öllum skilningi.

Við skulum hrinda þessari aðför!


mbl.is Samstaðan mikil á Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband