Kirkjan og kynferðisbrotin

 Umræðan þessa dagana finnst mér bera keim af Þórðargleði, ef ekki hreinni meinfýsni. Í leiðara Fréttablaðsins í dag ber og á einhverju yfirlæti sem ég kann ekki við. Þjóðkirkjan hefur lært sína lexíu hygg ég, og gekk í gegnum þrengingar vegna umtalaðra mála. Í tilviki fyrrum yfirmanns hennar vorum við í þeim sérstæða vanda að hann var einmitt það, yfirmaður okkar, og hafði aðstöðu til þess að gera ýmsa í kringum sig meðvirka. Ekki síst vegna þess að það var svo vont að fá sig til þess að trúa því upp á hann sem hann var sakaður um. Það mál virðist ekki hafa náð til enda enn og vont um að ræða þar sem maðurinn er látinn. Þó hefur konan sem brotið var á fengið afsökunarbeiðni æðstu stjórnar kirkjunnar og virðist eftir atvikum sátt við þær málalyktir.Í kjölfarið hefur Þjóðkirkjan gert margvíslegar ráðstafanir og umbætur og sýnt greinilegri vilja en flestir aðrir í þjóðfélaginu til að læra af reynslunni og þróa leiðir til að sporna við ónáttúrunni og vonskunni sem og viðbrögðum við misgjörðum ef þær henda.Málefni sóknarprests eins sem mikið var rætt þvældist fyrir Þjóðkirkjunni vegna ákvæða laga sem miða við nokkuð aðra stöðu en er innan kirkjunnar. Kirkjan er mótandi og leiðbeinandi siðgæðis og getur ekki þolað neinn vafa um starf sitt í þeim efnum. Þannig verður embættismaður hennar einfaldlega að stíga til hliðar ef kynferðisbrotamál sem á hans hendur er beitt kemur upp, jafnvel þó það kunni að virðast ósanngjarnt og gefa andstæðingum hans mögulegum vopn í hendur. Það var vanda bundið í því tilfelli, en af báðum dæmunum má læra einmitt nauðsyn þessa fyrir prest, kirkju og brotaþola eða ákæranda. Öllum farnaðist betur ef með mál þeirra nyti faglegrar meðhöndlunar í skjóli fyrir almennri umfjöllun, án þess þó að efni og niðurstöðu máls þyrfti að þagga.Sem sagt: Þjóðkirkjan hefur sýnt vilja og viðbrögð til þess að hafa meðhöndlun kynferðisbrotamála í lagi hjá sér og óþarft að tala niður til hennar þessa vegna. Það er víðar bottur brotinn og gái hver að sér.

Dómsdagur

Mánudagurinn 12. apríl er dómsdagur á Íslandi. Þá verða sum okkar fyrir sakbendingu meðan önnur ganga hlæjandi frá dómi. Davíð Oddson er farinn úr landi eins og fordæmi eru meðal þjóðhöfðingja í bananalýðveldunum enda sagt í fréttum að víða á þessum 9000 síðum muni hans getið. Hann veit um þetta enda fengið, í krafti andmælaréttar, að sjá það sem um hann er ritað í skýrsluna. Hann hefur verið mikilvirkur í stjórnmálum allt frá því hann ruddist í sæti formanns Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn Pálsson sem var þar fyrir siglir lygnan sjó og nýtur virðingar langt út fyrir flokk sinn. Já, ólíkt höfumst við að. Davíð hefur rutt brautir fyrir frelsi og á þakkir fyrir það, en ábyrðin gleymdist og dómgreindin brast. Ingibjörg Sólrún gengur þegar fegin frá dómi og má unna henni þess eftir þann eld sem hún hefur gengið í gegnum, og fleiri fara í hennar spor, etv fleiri en það eiga skilið. Höfum samt ekki áhyggjur af þeim um sinn. Hugsum um þau sem fá sakbendingu. Reynum að treysta saksóknar- og dómskerfinu fyrir þeim og tökum eftir hvernig þau ganga að dómi sínum. Þau sem iðrast kunna og gera hreint fyrir sínum dyrum skulum við virða fyrir það og færa til málsbóta. Þau sem hins vegar enga iðrun sýna og kenna öðrum um munu áfram verða virðingarlaus meðal okkar og ekki geta átt samfélag við heiðarlegt fólk.

En ég hugsa sérstaklega um stjórnmálaflokkana. Þeir bera mis óhreinan skjöld í þess máli. VG hefur bent á sinn "hreina" skjöld enallir á flekkaðan skjöld Sjálfstæðismanna. Sannarlega er valurinn orðinn fjaðrafár og óvíst hvenær hann verður fleygur á ný; alla vega ekki fyrr en þess sér stað í flokksamþykktum hans að hann hafi dregið lærdóm af hruninu og mótað nýja stefnu sem tekur á ágöllunum í kerfi frjálshyggjunnar. (Ég velti fyrir mér hvort minnkandi áhugi fokksins á málefnum kirkju og kristni í landinu fari saman við villuráf hans og skipbrot.) Framsóknarmenn eru í tilraunastarfsemi um það að móta ný tök á stjórnmálunum og sýna til þess góðan vilja, en skuggi Halldórs Ásgrímssonar og kóna hans hvílir enn yfir meðan hann hefur sjálfur ekki stigið fram og játað mistök sín. Hann gæti byrjað á stuðninginum við Íraksstríðið. En Samfylkingin er sá ábyrgðaraðili sem er enn við völd og getur eitthvað gert og margt sem hún nyti stuðnings VG við en hefur látið sér lítið nægja í þeim efnum. Hún er flokkurinn sem hefði haft tækifæri til að koma fram nýhugsun með krafti en í staðinn að mestu reitt fram gamlar uppskriftir með hálfvelgju. Mér finnst ábyrgð þess flokks mikil. Meiri en flestra, en krafturinn þar hefur farið í tóm mál. Mér er annt um Evrópusambandsaðild og er ekki skemmt yfir því hvernig það mál er statt og keyrt fram í ótíma án ítarlegs undirbúnings. Það hefði verið betra að það hefði komið fram í kjölfar Icesave samninganna. Og um þá: Skelfilegar eru ófarir þessara tveggja flokka í því efni, eins sjálfsagt og það nú var að um það efni hefði verið samvinna allra flokka allan tímann.

Sem sagt eg  ég og fleiri horfum langleit á Samfylkinguna og hvernig hún er að klúðra sögulegu tækifæri sínu. Hún birtist sem kerfisfokkur gamalla óljósra hugsjóna. Gunnfánarnir: Frelsi, jafnrétti og bræðralag standa hver í sína áttina og eru upplitaðir, eins fínir og þeir voru nú þegar þeir voru hafnir á loft 1748; engin nýhugsun, engin dirfska, enginn ábyrgð. Sorglegt!


Leiðin til friðar

Ég settist áðan til að horfa á afhendingu friðarverðlauna Nobels og hugsaði til þess að kristni veraldarinnar hefði mikið misst með Jóhannesi Páli páfa og aldrei er það nema satt og bið eftir öðrum eins kirkjuleiðtoga og hann var. En svo kom Obama, fremsti stríðsherra veraldarinnar og flutti hugvekju sem lengi verður munuð og vitnað í. Og ég fann í ræðunni grunn kristinnar hugsunar og djúpa heimspeki stríðs og friðar sem mun án vafa rata leiðina til friðar og farsældar. Sú leið kann að reynast löng, framundan umhverfisvá sem mun setja allt á oddinn og leiða til átaka ef ekki verður árangur í Hopenhagen. En við getum ratað leiðina: Hopslo, Hopenhagen, Hope..

Sorglegt að sjá og heyra

Það er auðséð að mikil alvara er yfir ýmsum þingmönnum á þessum dögum. Sumir þeirra geta varla varist tárum yfir þeim dapurlegu örlögum sem þeir sjá leidd yfir þjóðina án þess þeir fái rönd við reist. Ég leit inn á rás Alþingis og þá kom í ræðustól Eygló Harðardóttir og lýsti með orðum og yfirbragði djúpri hryggð. Eins var þingflokksformaður Sjálfstæðismanna Illugi Gunnarsson með alvarlegasta bragði og sést samt aldrei með nein flírulæti í ræðustól. Það hlýtur líka að vera þungbært hlutskipti að sitja á þingi og eiga aðild að afgreiðslu Icesavemálsins við þessar aðstæður. Forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur af ljósum og leyndum ástæðum bundist fyrirliggjandi lausn Icesavemálsins og meðreiðarfólk þeirra flest á þingi svosem múlbundið orðið í málinu. Ónóg umfjöllun í fjárlaganefnd leiddi til ófrjórrar annarar umræðu og nú sitja menn frammi fyrir því þar að koma því aftur í viðunandi mynd fyrir þingið. Það er þó alls óvíst að það takist.

Ömurleiki málsins hefur aldrei verið átakanlegri og á því miður vel við skammdegið yfir landinu nú. En það birtir á ný í náttúrunni fyrir skikkan Skaparans en yfir Icesave mun seint verða bjart. Ljóss er þörf. Ljóss nýrrar nálgunar. Því eins og málin standa  núna er vandséð hvort verra er að samþykkja eins og lagt er til ellegar láta draga þá sem sök eiga eða ábyrgð fyrir dóm.


Þetta gengur ekki

Það er einfaldlega ekki hægt að falla frá þeim fyrirvörum sem settir voru á Alþingi í september. Við Íslendingar vorum eftir atvikum sátt við þá niðurstöðu að kalla, þótt um óyndisúrræði væri að ræða. Nú stefnir í algjöra uppgjöf gagnvart þeim kröfum sem á okkur eru gerðar vegna Icesave. Við getum bara beðið eftir valtaranum. Kostirnir svo slæmir að vart getur verið verra að gera enga samninga.

Ef Bretar og Hollendingar geta ekki sæst á niðurstöðuna frá í september er líklega er best núna að gera tvennt:

a Draga aðildarumsókn að EB til baka að það rugli ekki fyrir okkur málin. Ummæli af Evrópuþinginu sýna að við getum ekki rekið hvorutveggja málin í senn.

 b Tilkynna að málið verði tekið upp frá byrjun með það fyrir augum að því verði stefnt fyrir dómstóla.

c Ganga á EB fyrir gallaða lagaumgjörð um innistæðuábyrgðir. Á ekki við .það hrun sem hefur orðið.

Við getum ekki sjálfviljug komið okkur í þá aðstöðu sem samþykkt fyrirliggjandi frumvarps leiðir til, sbr grein lögspekinganna þriggja frá í dag og það sem sannarlega er letrað á vegginn fyrir alla að sjá.


mbl.is Segja Icesave-lög geta verið brot á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndskreytt hljóðbók um Melkorku, örlög hennar og uppruna.

PlötuumslagMyndskreytt hljóðbók! Heillandi frásögn frá söguöld með lifandi myndefni og skýrskotun til manngildis og menningarverðmæta í samtímanum. Tilvalin gjöf handa þroskuðum börnum sem fullorðnu fólki.  Út er kominn á DVD diski hljóðbók um Melkorku Mýrkjartansdóttur byggð á sögu Laxdælu. Meðan upplestri sögunnar vindur fram birtast myndir sem styðja efnið. Höfundur og sögumaður er Jakob Ágúst Hjálmarsson. Myndefnið er sótt í Sögusafnið í Perlunni auk þess sem atvik sögunnar eru túlkuð af fólki sem situr fyrir í fornbúningum á söguslóðum. Þær myndir hefur Hólmfríður Vala Svavarsdóttir tekið. Auk sögu Melkorku eru fimm skýringarþættir á diskinum um keltneskan heim Melkorku, hinn norræna heim sem hún ól upp Ólaf pá son sinn í, um Víkinga, Papa og keltnesk áhrif á íslenska menningu. Úlit hannar Emil Sigurbjörnsson og útgefandi er Sögusafnið.

Vond tíðindi

Þetta var vond frétt. Vond fyrir Íslendinga og vond fyrir þær þjóðir sem við höfum verið að aðstoða. Það kreppir að, en ekki síður fyrir fátækar og úrræðlitlar þjóðir og Íslendingar eru ekki í þeim hópi. Hér í Keníu mæti ég daglega fólki sem ekki á fyrir sáningu í maísakurinn sinn, eða kartöflugarðinn. Það þýðir aðeins  eitt: HUNGUR.

Það mun reynast okkur hollt að standa við allt sem við höfum ætlað okkur gagnvart þróunarlöndunum og auka veg okkar. Hollt af því að við staðfestum fyrir sjálfum okkur að við erum engir aumingjar heldur lítum raunsætt á málin og sjáum að aðrir eiga bágar en við. Og það yki veg okkar af sömu ástæðu.

 Ég skora því á stjórnvöld að hafa framlög til Þróunarsamvinnustofnunar óbreytt að verðgildi fyrir þá sem eiga að njóta og sýna íslenskan myndarskap í þessu og öðru.


mbl.is Þróunarsamvinnustofnun eingöngu í Afríku síðar á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondur dagur - brjálað fólk

Eru allir að verða vitlausir? spurði ég sjálfan mig í dag. Ég heyrði það sem Stöð 2 bar af mótmælafundum og sá tiltækin. Hvað er þetta fólk að hugsa? Óeirðir í ofanálag við allt annað! Kannski er rétt að rifja upp að þjóðir fá gjarnan þær stjórnir sem þær eiga skilið, svo það þýðir lítið að halda að kosningar nú breyti einhverju.   Stjórnvöldum og forkólfum í viðskiptalífinu hefur orðið stórlega á. Við vorum á siglingu undir þeirra stjórn á drekkhlaðinni þjóðarskútunni þegar á skall stormur, gjörningveður af vestri. (Þeir eru alltaf hættulegastir vestahvellirnir.) Það var reynt að ryðja skipið í ofboði og sigla til lands, en stóru skipin hafa ekki viljað gefa okkur upp stefnuna, né veita okkur aðstoð. Nokkrir þó sem segjast samt vera of langt í burtu. Lítil, lagleg trilla með Færeyingum á kom þó og lánaði olíu. Það er þó ekki víst að það geri annað en gefa okkur smá kjark, en það er að sökkva hjá okkur! Einhverjir eru að reyna að ausa í ágjöfinni en ég sé ekki betur en þessir vitleysingjar séu að reyna að rugga bátnum. Eins og veltingurinn sé ekki nógur fyrir! Ég sé ekki að við eigum annars úrkosta en að standa við bakið á Geir og Sollu og þeim – þangað til lygnir. Þá tölum við saman. Ég veit upp á hár að við höfum engin efni á að haga okkur eins og brjálæðingar núna. Reiðin er ekkert heilög. Sá sem aktar í reiði aktar alltaf vitlaust. Hættið þessum óspektum og gegnið löggunni ef þið þurfið eitthvað að vera að viðra óhreinan þvottinn ykkar! Við erum öll ábyrg fyrir þessari sjóferð og skulum taka því eins og manneskjur að hafa anað út í þessa vitleysu. Þau einu sem geta mótmælt eru krakkarnir í skólunum sem ekki hafa komist til ábyrgðar á neinu öðru en sjálfu sér. Allir aðrir mótmæla í raun sjálfum sér. Reynum heldur að bera saman ráð okkar eins og þau voru að gera í Háskóla Reykjavíkur um daginn og Björk er að stuðla að (þó mér lítist nú kannski ekki á allt; ekki þetta með að slátra núna mjólkurkúnum). Þróum umræður um lausnir. Ýmsar hafa komið fram sem eru þess virði.  Geir og þið! Haldið svo ekki spilunum svona þétt upp að ykkur. Það gerir ekkert til þó sjáist á þeim. Spil “blinds” eiga svo að liggja á borðinu í þremenning og það á við hér! Það hafa margir á undan ykkur farið flatt á því að halda mannskapnum í myrkri grunsemda og vanþekkingar. Komiði fram með upplýsingarnar sem þið eruð að vinna með. Við verðum að fá að vera með í þessu ati. Við bökkum ykkur upp á meðan við vitum eitthvað um hvað þið eruð að gera.

Dómsdagur

 Ég fór að hugsa um dómsdagselementið í atburðum liðinna vikna. Dómsdagur ber að hluta til í sér þverskurðarsýn á veruleikann. Þverskurðarhnífnum var brugðið þrisvar sinnum er starfsemi bankanna stöðvaðist. Sá hnífur frysti starfsemi hvers banka í einu bragði. Í sneiðinni eftir hnífsbragðið var síðan allt til sýnis sem því augnabliki tilheyrði, bæði gott og vont. Hið vonda stingur í augun og fær þann dóm að því er forkastað, úthýst. Það verður nærtækt viðfang reiði manna yfir persónulegum missi og almennum og er miklað og gert að útblásinni skýringu á því að svo fór sem fór. En þá er hætt við að menn sjái ekki lengur skóginn fyrir trjánum.Nú vill enginn kannast við að hafa hvatt útrásarvíkingana og vilja ekki muna þá aura sem hrutu af borði þeirra af því að þeir koma ekki lengur. Hver þolir að bera allt á borð sem tilheyrir gefnu augnabliki í lífi hans? Hversu margir vildu ekki hnika til þverskurðarhnífnum sem býst til að sneiða líf hvers manns? Flest orkar tvímælis þá gjört er, segir máltækið og sínum augum lítur hver á silfrið. Hver er málstokkurinn sem á lífið er lagður á og hvað er mælt?Hvað ef hafnarbylgjan úr austrinu hefði ekki risið svo snemma eða seint og skollið á ströndum okkar í annan tíma? Þá hefði kannski verið búið að koma Icesave-reikningunum í sér fyrirtæki eins og til stóð, eða ekki búið að finna þau innlán upp. Hvað ef menn hefðu gert eitthvað fyrr eða seinna, svona eða hinsegin?Dæmið ekki því með þeim dómi sem þér dæmið mun munuð þér dæmd verða (Mt 7:1) segir spekingurinn Jesús frá Nasaret. Þó verður ekki komist hjá því að leggja mat á hlutina en núna er það ekki hægt. Sá dómur sem tekur aðeins mið af þverskurðinum er einsýnn og ekki réttlátur. Til verður að koma mat á aðraganda, atburðarás og afleiðingum, tímafaktorinn verður að koma til. Þá verða kannski fleiri sekir en við ráðum við að vista í fangelsum okkar ef við sækjumst eftir refsingum. Líklega verður niðurstaðan óhjákvæmilega sú að við verðum eitt og sérhvert að taka einn eða fleiri “fanga” inn á heimili okkar!  Þá munum við ef til vill finna það að refsingin leggur einnig byrðar á þann sem refsar. Við munum mögulega borga brúsann af ævintýrinu og hann verður því stærri sem óðagotið við að koma fram dómi er meiri. Tökum því þess vegna rólega og spyrjum fremur um hitt sem þverskurðarmyndin sýnir, nefnilega það góða og heilbrigða, og höldum áfram með það. Kraftinn og hæfileikana sem gerði okkur talsvert stolt. Það var þrátt fyrir allt innistæða fyrir því stolti. Unga fólkið sem vann að útrásinni þarf ekki að koma heim með meira en sært stolt. Það má trúa því að ný tækfæri bíði og þau þurfa ekki að kosta svo mikið sem þetta.Hið góða á sér framtíð. Gætum þess bara að það fái þá framtíð sem það á skilið. Fordæmum ekki allan skóginn þó við finnum jafnvel nokkru meira en fölnað laufblað. Grisjum og plöntum nýju.

Út úr kreppunni

Þegar við veltumst um í ólgusjó leitar hugurinn óhjákvæmilega og áleitið í land og hversu mjög maður vildi nú heldur vera þar en í veltingnum. Nærtækt er að hugsa sér það land sem maður fór frá. Það þekkir maður best. Við erum þó í sömu stöðu og landnámsmennirnir forðum að við eigum þess ekki kost að snúa aftur til gamla landsins, en eins og forðum á munum við móta þjóðfélag framtíðarinnar á grundvelli hins gamla, kalla bæina, fjöllin og dalina sömu nöfnum og þar. Hyggið að gömlu götunum, hver þeirra hafi reynst hamingjuleið og farið hana, segir spekingurinn. Hvað var gott áður? Hvað reyndist best?Fjölskyldusamheldnin hefur ávallt reynst okkur vel. Tengslin innan stórfjölskyldunnar hafa verið þýðingarmikil og sagt okkur margt um það hver við erum. Styrkur hjónabandsins hefur jafnan verið meiri en samanlagður styrkur hjónanna og mörg hjón hafa reynst máttarstólpar börnum sínum og vinum og mörgum í kringum sig. Vináttan er dýrmæt líka. Ræktum þetta.Áræðni hefur líka verið mikilvægt einkenni á okkur og dugnaður. Við höfum unnið okkur fram úr mörgum vanda og jafnvel án þess að hafa formlega vinnu. Forsjá þarf að fylgja, ekki að fara fram úr sér. Höldum áfram að byggja upp heimili og fyrirtæki. Það var ekki margt athugvert við þann dugnað á seinustu árum. Kannski aðallega eitt: Við fórum of langt fram úr okkur og höfðum ekki gott borð fyrir báru.Heiðarleiki og áreiðanleiki hafa reynst ómissandi grundvöllur samvinnu og viðskipta. Að hafa það í huga að græða á annara kostnað hefur ekki reynst gæfulegt og er að einhverju leyti orsök þess að svo fór sem fór. Þegar þrengir að núna má ekki víkja af vegi heiðarleikans því við þurfum að geta búið saman áfram. Því skyldi enginn freista þess að bjarga sér á annars kostnað. Láti hver sé nægja það sem hann þarf og seilist ekki ofan í annara vasa eftir meiru – og láti sig heldur vanta eitthvað en skemma sig á gripdeildum.Í erfiðleikum hefur trúin gefið styrk og á góðri siglingu hefur hún stækkað gleðina. Í erfiðleikum hefur þessi þjóð risið undir byrði sinni með hjálp trúarinnar á forsjón Guðs, fundið að Frelsarinn vísaði ávallt á færa leið. Guð vors lands veitir því vernd og landsins börnum blessun að nýju.Hvort sem krýnist þessi þjóðþyrnum eða rósum,hennar sögur, hennar ljóð,hennar líf vér kjósum.Jóhannes úr Kötlum

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband