Að láta um sig muna

Þjóðhátíðardagur er nýliðinn. Mikilmenna sögu okkar var minnst, þeirra sem skipt hafa máli fyrir okkur Íslendinga. Um starf þeirra og framtak munaði mikið og við búum að verkum þeirra enn þann dag í dag. En munar eitthvað um mig og þig? Sumir munu telja það og þakka það að við vorum á kreiki, en verður okkar minnst lengi? Það má kannski einu gilda en öll ölum við í brjósti ósk um að þegar við erum farin veg allrar veraldar muni einhver hugsa til okkar með þakklæti. Kannski barnabörnin okkar.Væri ekki ánægjulegt  ef einhver úti í löndum minntist á það við og við, að borist hafi óvænt hjálp frá Íslandi sem miklu hafi varðað og tengdi við nafn okkar? Það er vissulega gott að vinna góð verk í látleysi, svo sem vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir og hugsa sem svo að Guð sjái alltént og að ekkert sem við gerum verði nokkru sinni meir en það sem maður er hvort sem er skyldur til. En engu að síður eru það góð verkalaun að einhver blessi nafn manns fyrir velgjörð.Látum því um okkur muna og minnumst þeirra sem bágstaddir eru í kringum okkur og munum að í fjarlægum löndum er örbirgð yfirtaksmeiri en hér má almennt finna. Má bjóða þér að líta nánar á þetta á slóðinni www.jakob.annall.isÞessar línur eru settar á blað til þess að minna á skyldur okkar við þau sem minna mega sín nær og fjær. Við höfum bruðlað nokkuð að undanförnu, núna teljum við peningana okkar af meiri umhyggju og eru etv opnari fyrir vændræðum annara fyrir bragðið. Það er hollt og getur leitt til góðs.

Bágindi í Kenía

Mig langar að vekja athygli á umfjöllun um efnið á slóðinni www.jakob.annall.is Þar er gerð grein fyrir aðstæðum og hjálparstarfi íþróun á okkar vegum.

 


Orka og pólitík

Ég vil árna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur heilla sem nýr oddviti Sjálfstæðismanna borgarstjórn Reykjavíkur. Hún sýnist skelegg kona og rösk og er ekki vanþörf á styrkum handtökum og ábyrgum orðum til að Sjálfstæðismenn endurheimti traust Reykvíkinga á vinnubrögðum við stjórn borgarinnar. Hugmyndafræðin þar að lútandi stendur á gömlum merg en ýmis úrlausnarefni eru þó ný. Ekki hefur verið um það deilt að verkefni Orkuveitunnar skuli vera í almannahag og íbúar höfuðborgarsvæðisins skuli hafa beina og lýðræðislega íhlutun um reksturinn. Það er hins vegar úrlausnarefni hvernig þekking og reynsla sem skapast á vettvangi hennar megi nýtast til eflingar hér og annarstaðar í veröldinni. Hver á að hirða arð af þeirri þekkingarsköpun? Um það efni geta menn deilt en óþarfi að láta það atriði velta sér af stalli. Vinnubrögðin voru fljótfærnisleg eða ætti etv að segja full snaggaraleg fyrir pólitískt samfélag borgarstjónarinnar á sínum tíma. Guðmundur Þóroddsson fv forstjóri upplýsir ásamt öðrum um fund sem fór handaskolum og tók til umræðu málefni sem ekki voru unnin fyrir fundinn og ekki náðist að dreifa gögnum sem reyndust afdrifarík. Af þessu má læra að betra er stundum að flýta sér hægt og tími verður að gefast til umræðu. Það hentaði hins vegar ekki þeirri vinnuáætlun sem fyrir lá. Ekki þurfti þó að fara sem fór!Ég vona og treysti raunar að Sjálfstæðismenn hafi lært sína lexíu og geri ekki samsvarandi mistök í bráð. Borgarstjóraefnið er snart í tali og líklega fljótt í hugsun um leið, en vonandi engin flumbra samt og hefur lært. Það munum við kannski sjá á komandi mánuðum.Það hlýtur að vera augljóst og að mér skilst viðtekið að þekking sem skapast í fyrirtæki er jöfnum höndum eign fyrirtækisins og þeirra fagmanna sem skapa hana. Um það hafa þróast reglur og þetta er ekkert nýmæli heldur. Það er eðlilegt að Orkuveitan hagnist á þessari þekkingarmyndun og að eigendur hennar, fólkið, hagnist með lækkuðu orkuverði. Það er eitt af markmiðum rekstrarins að við fáum orku á sem lægstu verði. Vöruþróun af öðru tægi, svosem gagnaflutningur og nýting jarvarma og orku í öðrum tilgangi á að fara fram utan Orkuveitunnar. Hún getur selt ráðgjöf og tækniþekkingu, en best þó að slíkt breiðist úr fyrir fyrirtækið og þróist í sértækum verkefnum í einkageiranum. Ef einhverjir starfsmanna Orkuveitunnar vilja fara með sérþekkingu sín út fyrir fyrirtækið ætti það að vera auðvelt því varla yrði um samkeppnisrekstur að ræða. Það yrði bara til góðs svo fremi sem þess sé gætt að einhver sé eftir til að halda utanum þau verkefni sem koma eiginlegum verkefnum Orkuveitunnnar áfram.Það er því afar mikilvægt að þau verkefni sem voru tilefni stofnunar Rei og önnur lík fái framgang þrátt fyrir slysið í fyrra. Það má ekki láta ótta ráða för og hindra mikilvægar framfarir og eflingu íslenskra orkuútrásar og nýtingar.

Hver á völdin?

Ég hef spenntur fylgst með þróun mála í Keníu að undanförnu eins og skiljanlegt er af bloggi mínu. Spenna hangir í loftinu um hver muni hafa völdin Odinga forsætisráðherra eða Kibaki forseti. Af því ræðst friðurinn að miklu leyti hvort þeir eru reiðubúnir að deila völdum í samræmi við gert samkomulag. Þeir hafa áður verið saman við stjórnvölinn en það hélst ekki út heilt kjörtímabil svo menn eru alls ekki öruggir með þá nú heldur. Keníabúar eiga mikið í húfi að þessir menn setji málefni þjóðar sinnar í heild ofar hagsmunum sínum og sinna.

Í Rússlandi var kosinn nýr forseti en Pútín sagður hafa alla tauma í hendi sér. Hvernig Medvedev líður með það þegar fram í sækir leiðir tíminn einn í ljós. Klókt þó af Pútín að láta ekki breyta stjórnarskránni sín vegna, lítur sannarlega vel út og tryggir stöðugleika og áhrif hugsjóna hans.

En það lítur ekki vel út í Reykjavík, reyndar hvorki vel né illa. Það er ekkert útlit yfirleitt! Þar er sama fastheldnin á völdin og djúpstæður ágreiningur um þau þó ekki hafi komið til óeirða eða mannfalls. Það er sorglegt að horfa upp á það að menn meti sig svo oftlega mikilvægari en frið og almannaheill, að leyfa að deilur um persónu manns hindri eðlilegan gang stjórnsýslu samfélagsins.

Hvenær munum við sjá mann færa fórn vegna friðar og stöðugleika, vegna framgangs þeirra hugsjóna sem hann hefur bundist og hafa borið hann í valdastöðu? Hvenær mun einhver efla málstað sinn með því að styrkja stöðu annarrar manneskju, breyta henni úr keppinaut í samherja?

Það væri sannarlega tímabært og vel þegið nú.


Kirkja að starfi

Það er undarlegt þegar heimsviðburðirnir taka að stýra athöfnum manns. Ég ætlaði að vera kominn suður til Keníu í sólina þar og vera farinn að kenna þarlendum trúsystkinum að prédika Guðs orð. Þar eru hinsvegar mannskæðar óeirðir og ég er beðinn að fara hvergi. Ég sit í staðinn og reyni að skrifa eitthvað og fer á mannamót. Í gær var mér boðið að vera við innsetningu sr. Þorvaldar Víðissonar í embætti miðborgarprests. Það embætti átti ég hlut að að stofna í Samvinnu við KFUM&K þegar sr. Jóna Hrönn Bolladóttir kom til starfa í Dómkirkjunni árið 1998. Nú er því skipað með samstarfssamningi borgar og Dómkirkju. Bæði eru þau og aðrir sem þessu starfi hafa gegnt mikið ágætisfólk. Sr. Þorvaldur hefur farið upp með marga góða hluti nú þegar og það er Dómkirkjunni til mikils vegsauka að standa fyrir þessu starfi. Dagur Eggertsson, borgarstjóri, var viðstaddur og lýsti áhuga allra borgarráðsmanna með þetta starf í miðborginni og sagði jafnframt að hann hefði tekið eftir því að sífellt væri þess merki að sjá að eitthvað væri um að vera í kirkjum borgarinnar. Ævinlega væru bílar í hlaði kirknanna þegar maður færi þar hjá. Hann dró athygli að margháttuðu samstarfi borgaryfirvalda við trúfélögin í borginni. Bæði er þar um að ræða störf á tómstundasviði, félagsþjónustu og fræðslu. Þetta er af því að kirkjurnar eru virkar í þjóðfélaginu og hafa á að skipa fagfólki og áhugafólki um velferð og uppbyggingu manna. Það liggur í eðli kirknanna. Á þessu sviði hefur enginn talað um aðskilnað og þó eru margháttuð gagnvirk samskipti. Í þessu efni er ekki eðlismunur á samskiptunum hvað varðar ríkið. Munurinn felst í formi samskiptanna. Samskipti Þjóðkirkjunnar við ríkið eru byggð á sögulegum formum á þjónustu sem varða heill þegna landsins. Og það má Þjóðkirkjan eiga að varla eru um það dæmi að hún geri sér mannamun eftir trúfélagsaðild þegar kemur að hjálparþörf. Ef til vill er hér komin ákveðin skýring á viðleitni hennar til að koma þjónustu sinni sem víðast að. Það er eðli þjóðkirkju að vera alltumfaðmandi og það er sérstakt einkenni lúthersku að draga ekki mörk, loka ekki borði sínu fyrir neinum. Það eru fyrst og fremst aðrir sem gera það. Þjóðkirkjunni gengur ekki annað en gott til með þessu, en þó má hafa skilning á því að ýmsir vilja að sumt af þessu að minnsta kosti sneiði hjá þeirra garði. Ég er ekki viss um nema það sé eðlilegt að þeir beri sjálfir ábyrgð á því að afsaka sig frá þessu miðað við hvernig er í pottinn búið. Ég held að allir, bæði prestar og aðrir ábyrgðamenn vilji sýna slíku skilning og fara þannig með að það styggi sem fæsta.

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Ég hef verið fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju um margra ára bil og ritað um það greinar í blöð, fyrst í Mbl. Í ágúst 1986. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mér hafi orðið að ósk minni fyrir tíu árum. Með þjóðkirkjulögunum 1997 og framkvæmd þeirra síðan álit ég að runverulegur aðskilnaður ríkis og kirkju hafi orðið. Þannig hljómar í mínum eyrum það tal að skilja þurfi að ríki og kirkju eins og grammofónplata sem sem gleymst hefur á fóninum all lengi.Hvernig hugsa menn sér frekari aðskilnað?Lítum fyrst á hver tengslin eru í dag.- Þjóðkirkjunnar er getið í stjórnarskrá. Það mundi litlu breyta í raun þó það ákvæði yrði fellt niður, en hugmyndafræðilega þýddi það að löggjafinn þyrfti að koma sér upp nýjum siðgæðislegum viðmiðum, eins og ég og fleiri hafa áður bent á, og móta ákvörðun um hver skuli vera “grundvöllur laga vorra.” Það er ekki vist að menn átti sig á þessu í dag en að því mundi koma að það yrði deginum ljósara.- Þjóðkirkjan nýtur greiðslna á fjárlögum og þær eru tvennskonar. Laun presta koma sem afgjald af eignum sóknanna sem ríkið hefur tekið til sín með samningi frá 1997. Þjóðkirkjan nýtur síðan styrkja líkt og margar aðrar félagslegar stofnanir.Ef fella á niður greiðslu prestlauna á fjárlögum þá hlyti að fylgja að henni yrði skilað aftur eigum hennar eða fyrir þær kæmu eignarnámsbætur. Eignarétturinn er stjórnarskrárvarinn og landeignir sem er uppistaða þessara kirkjueigna hafa hækkað allmjög í verði. Hvað ætli kosti allt land undir Garðabæ í dag? Kirkjan átti það og fleiri verðmætar landeignir sem nú eru komnar undir byggð. Mundi Þjóðkirkjan svo ekki mega vænta styrkja á fjárlögum eins og önnur félög sem leggja fram til almannaheilla, eins og SÁÁ, Götusmiðjan, Ungmennafélag Íslands ofl. ofl?- Það eru sérstök lög um Þjóðkirkjuna. Það eru líka lög um  verkalýðsfélög og margháttaða aðra félagsstarfsemi í þjóðfélaginu. Það eru líka lög um trúfélög. Það hlýtur að vera til hagræðis í augum löggjafans að hafa ekki lagaákvæðin um Þjóðkirkjuna inn í þeim lögum. Í því efni er vart um að ræða breytingar sem máli skipta.- Hvað gætum við aðskilið frekar? Taka krossinn úr fánanum? Guð úr þjóðsöngnum? Jólin úr dagatalinu? Nei, þau eru víst eldri en kristnin, heiðin skilst mér. Ég held að þetta tal um aðskilnað sé rekið af þeim sem í raun vildu alla trúarstarfsemi burt úr samfélaginu. Því markmiði verður aldrei náð svo sem dæmin sanna. Aðrir taka undir þeirra kór af því það er svo “rétt” en vita kannski ekki hvað þeir eru að fara fram á. Alla liðna öld fór aðskilnaðurinn fram samkvæmt hugsunarhætti þeirrar aldar og hann endaði í raun með Þjóðkirkjulögunum og samningi ríkis og Þjóðkirkju 1997 þar sem Þjóðkirkjan tók á sig ábyrgð eigin mála og ríkið tók til sín kirkjueignirnar með loforði um að kosta þá prestsþjónustu sem þá var við líði með reglum sem eru svo sanngjarnar og skynsamlegar að þær gætu verið undan rifjum Þorgeirs ljósvetningagoða runnar. Það er ástæða til að rifja þær upp en þær fela í sér að þjóðin er í raun lýst eigandi eignanna og á meðan þjóðin er að sama hluta í Þjóðkirkjunni nýtur kirkjan ágóðans af eignunum í formi prestlaunanna en gangi fjöldi fólks úr Þjóðkirkjunni fara þessir fjármunir með því úr launasjóði Þjóðkirkjunnar. Þjóðin greiðir þannig atkvæði um þessi hlunnindi með fótunum. Hver og einn hefur virkt atkvæði um þetta. Þetta getur sem sagt ekki orðið lýðræðislegra.Enn kynnu einhverjir að amast við hlut Þjóðkirkjunnar í ýmsum opinberum athöfnum, eins og það að setja Alþingi í kirkju, biðja fyrir forsetanum þegar hann er settur inn í embætti og fara í kirkju af Austuvelli 17. júní.Í Bandaríkjunum er ríki og kirkja eindregið aðskilin, en hvað ósköpunum hefur Billy Graham verið að gera við allar forsetainnsetningar í 30 ár eða meir? Um þátttöku Þjóðkirkjunnar í þjóðlífinu gildir það að hún hlýtur að markast af því að Þjóðkirkjan er almannahreyfing og stendur sem slík á fornum meiði. Hún hlýtur að láta sín getið þar sem hún er. Tölum því um eitthað annað raunhæfara en aðskilnað ríkis og kirkju.

Kristilegt siðgæði

Á Alþingi í gær og í Kastljósi í gærkvöld féllu umhugsunarverð orð af vörum æðstu valdamanna þjóðarinnar um krisilegt siðgæði sem grundvallarviðmiðun siðgæðis. Í stað þess kemur nú í frumvarpstexta laga um menntastofnanir falleg upptalning viðmiða, og flestum getur fundist eins og menntamálaráðherranum þau umskipti litlu skipta. En er nú svo víst að hér sé bitamunur en ekki fjár? Þessi umræða kom upp í Noregi í ráðherratíð Guðmundar Hernes. Hann ver guðfræðingur á stóli menntamálaráðherra, ef ég fer rétt með. Hann gerði sér grein fyrir því að ef hinni kristnu viðmiðun var skipt út þá varð að skilgreina inntak orða eins og umburðarlyndi, jafnrétti og réttlæti. Gera nýjan gildagunn. Þetta þykir ýmsum kannski einkennilegt, en inntak þessara fallegu orða er eins og annara tímanlegt, skilgreinist af menningunni hverju sinni. Samt er það svo að þetta kristilega er það ankeri sem gildin eru fest við. Þau skírast af inntaki kristindómsins, dæmi og orðum Jesú og öllu sínu samhengi. Þau eru ekki á reki. Það að þau skírist með mismunandi blæbrigðum og kannski rúmlega það eftir tiíma og stað er að sínu leyti ávísun á hvernig færi fyrir hinum óbundnu gildum sem nú eru á dagskrá í þrætubók.Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup sendi frá sér gagnmerka pistla í Morgunblaðinu í haust og geyma þeir lærdóm sem vitur maður hefur dregið að reynslu sinni af liðinni öld, öld óheyrilegra blóðsúthellinga, þjóðarmorða og yfirgangs. Hann lýsir ma uppgangi nasismanns og meinvillu kommúnismans sem hvor tveggja tóku öll þessi fallegu gildi frumvarpsins og rangsneru þeim með því að fá þeim valdar viðmiðanir. Þetta ekki aðeins getur gerst aftur heldur mun það gerast. Það er ekki enn runninn sá bjarti dagur handan allra stríða þó friðvænlegt hafi verið með okkur um stund. Mannshugurinn er viðsjárverð vél og samfélög manna pottar sem fleira er í kokkað en heilsufæði. Gáum því að okkur.

Nokkrir þankar um kirkju og skóla

Nokkrir þankar um kirkju og skóla Það er vert að skoða nánar ýmisegt sem hefur verið haft á orði í umræðunni um þessi mál að undanförnu. Fyrst það að aðkoma kirkjunnar að skólastarfi sé nýtilkomin. Það má ef til vill gilda um leikskólann og er enda þar flest nýtt. En um grunnskólann gegnir öðru máli og er skilt skeggið hökunni í þeim efnum þó minna sé en sumir vildu. Nú má ég af sjálfum mér reyna þetta nokkuð. Prestar sátu jafnan í skólanefndum, voru kennarar og prófdómarar í barnæsku minni og helgaðist það af því að þeir höfðu löngum borið ábyrgð á barnafræðslunni í sveitum sínum. Lnagafar mínir tveir voru barnafræðarar og störfuðu á ábyrgð prestanna. Sjálfur kenndi ég talsvert bæði sem guðfræðinemi og prestur. Ég hafði allan aðgang að skólunum sem ég gat við komið enda óskað eftir samstarfi kirkju og skóla þar sem ég starfaði úti á landi. Þetta munu flestir prestar geta tekið undir og velflestum fundist eðlilegt. Það er fyrst á seinni árum að það fer að bera nokkuð á tregðu af hálfu skólans í þessu efni. Á sama tíma eykst mjög viðvera barnanna í skóla. Sá tími sólarhrings sem börn verja með foreldrum sínum og hafa til ráðrúms fyrir tómstundastarf minnkar. Það þrengir um þann tíma sem trúfræðslu verður viðkomið utan skólans. Um leið er jafnt og þétt dregið úr kristinfræðikennslu. Auðvitað verða það eðlileg viðbrögð kirkju og presta að bjóða stuðning og leita leiða til þess að styrkja kristinfræði í skólunum. Í lengdri viðveru grunnskólans hefur skapast rými fyrir þessa fræðslu og hefur það sumsstaðar verið nýtt. Og kirkjan hefur eflt á sama tíma starf sitt í þágu barna og ungmenna. Mér sýnist þetta allt eðlileg viðbrögð. Það er talað um að þessi fræðsla verði að vera á faglegum grunni og látið hljóma eins og prestar og djáknar séu amatörar í þessu starfi. Þetta er allt gagnmenntað fólk og væri nær að líkja þeim við sérkennara í sínu fagi. Starfið er einnig unnið í stærra samhengi safnaðarstarfs og undir umsjá sónarprestsins. Svo er talað um sálnaveiðar eins og börnin séu utan samhengis kirkjunnar. Grundvöllur starfanna er sá að flest börnin tilheyra Þjóðkirkjunni og foreldrarnir samþykkja og óska eftir því að þessi þjónusta sé veitt. Og aðeins um tilhliðrun skólans vegna starfa kirkjunnar. Hvað þá um íþróttastarf og listastarf? Er það ekki bannað líka? Ég held að fólk sem starfar með börnum og unglinum vítt út um landið og í mörgum hverfum höfuðborgarsvæðisins skilji ekki þetta tal. Sveitarfélagið og hverfin eru samfélagsheildir þar sem samhæfing hefur orðið að nauðsyn eftir því sem tilboðum um verkefni og vettvang fyrir ungviðið hefur vaxið og augljósari þörfin að halda utan um það og forða frá illu. Auðvitað er skólinn þátttakandi í þessari tilhliðrun. Hið opinbera er ekki og vill ekki vera neinn “stóribróðir” sem allir aðrir verða að lúta. Umfang hans eitt nægir honum til þess að hafa forgang.

"Sígild" grein um kirkju og skóla

Ég birti grein undir neðangreindu nafni í febrúar 2003 líklega í DV. Mér finnst hún eiga við enn í dag.

Ólík trúarviðhorf í fjölgreiningarsamfélagi Á dögunum (Feb 2003) var haldinn fundur með prestum og leikskólastjórum í Vesturbænum um nærveru kirkjunnar í leikskólanum. Sá fundur var haldin í kjölfar umfjöllunar í leikskólaráði borgarinnar um það efni. Að sjálfsögðu var þar áréttað að ekki væri við hæfi að vera með "trúaráróður" í leikskólunum en talið sjalfsagt að skólar gætu haft kirkjuheimsóknir á dagskrá sinni.Einn prestanna sr. Sigurður Pálsson sem einnig er uppeldisfræðingur gaf út í fyrra bókina Börn og trú þar sem fjallað er um trúaruppeldi barna. Þar færir hann fram rök fræðimanna sem hníga að því að ekkert barn verði alið upp í trúarlegu tómarúmi. Annað hvort er það alið upp í einhverri trú eða trýleysi sem einnig er trúarafstaða sem mótar viðhorf þess. Hann rekur ennfremur að foreldrarnir eru sterkustu mótunaraðilarnir í þessum efnum sem öðrum. Nær ómögulegt er að komast þar fram með nokkur áhrif sem standa gegn viðhorfum foreldranna. Í skólastarfi ber það bestan árangur sem er í bestu samræmi við heimili hvers bans.Ísland er eins og önnur vestræn lönd að verða fjölmenningarland. Þetta er einmitt mest áberandi í Vesturbænum af einhverjum ástæðum. Þar er nær fimmti hver maður utan Þjóðkirkjunnar. Þetta kemur fram í skólunum einnig. Þar eru börn af ýmsum trúarbrögðum, litarafti, þjóðerni og sambúðin er ekki alltaf alveg árekstalaus.Hvernig á að snúast í þessu? Er unnt að skapa eitthvert hlutleysi til viðhorfa og siða og móta kennslu og skólastarf af því? Hver maður hlýtur að sjá að það er ómögulegt.Fulltrúi frá Alþjóðahúsinu gerði grein fyrir því á fundi fyrir skömmu að þau börn næðu bestum árangri í námi sem hefðu best tök á móðurmáli sínu og þjóðmenningu. Þetta hafa fleiri fundið og Íslendingar á Norðurlöndum hafa verið þakklátir fyrir alla kennslu fyrir sín börn í þeim efnum.Eina leiðin í þessum efnum er að kenna virðingu fyrir ólíkum háttum og viðhorfum manna í fjölgreiningarþjóðfélaginu og það ber að hefja það strax í bernsku. Það er allt í lagi að fólk hafi mismunandi trú, litaraft, þjóðerni, já og kynferði.Það er td. ekkert vandamál fyrir stráka að skilja það að þeir eigi ekki að fara á sömu salernin og stelpurnar og að það er í jafn góðu lagi fyrir stelpur að vera stelpur og fyrir stráka að vera stráka. Þannig er það einnig í lagi að vera þeldökkur eða rauðhærður og freknóttur. Þannig er það í besta lagi að vera í Þjóðkirkjunni og kunna ekkert annað en íslensku og líka að vera búddisti og tala best thailensku þó maður þekki ekkert land betur en Ísland.Leikskóli og skólastarf tekur orðið yfir svo mikinn tíma af degi og tilveru hvers barns að það hlýtur að teljast afar mikilvægt hvað þar fer fram og hvernig háttum er hagað þar. Því er hollt að leikskólastafið sé auðgað með heimsóknum á báða vegu, þó innan takmarka reglu og hæfilegs stöðguleika í dagsrásinni.Kirkja og foreldrar ganga við skín barna inn í samkomulag um samstöðu í trúaruppeldi. Hvor aðilinn um sig hefur tilteknar skyldur í því efni. Kirkjan að sínu leyti að veita fræðslu í kristindómi og tækifæri til samfélags í trú. Foreldrarnir að kenna börnum bænir og veita þeim holla fyrirmynd í orði og æði.Niðurstaðan af þessu er að það er eðlilegt að kirkjan bjóði leikskólabörnum sem og öðrum skírðum börnum í heimsókn í kirkjuna og sæki þau heim með fræðslu og helgihald. Þau börn sem foreldrarnir telja að slíkt eigi ekki erindi við þeirra börn láta þá af því vita og þeim er séð fyrir annari dagskrá á meðan. Sömuleiðis væri eðlilegt að fræðari í búddadómi fengi að heimsækja á leikskólanum sín safnaðarbörn og að þau börn sem ekki teldust eiga erindi við hann hefðu þá dagskrá á meðan með sama hætti.Þannig læra börn frá fyrsta fari að virða trú hvers annars og lifa saman í einu þjóðfélagi sátt við þá staðreynd að ekki eru allir eins, hvorki í trúarefnum sem öðrum.

Bágstaddar þjóðir

 Ég las grein Lydíu Geirsdóttur sem var viðbúið framlag í umræðunni um þróunaraðstoð og neyðarhjálp. Það er hægt að taka undir með henni í einu og öllu og leggja inn vinkil sem ég tæpti á í gær. Það er nefnilega svo að við nú eldri menn gleymum því stundum að það er ekki rétt sem okkur var kennt að vísindin efli alla dáð, hugsað í þeirri merkingu að vísindin leysi  allt. - Vísindin geta ekki markað vilja manns. Þau upplýsa að sönnu huga hans og vísa veg að lausnum en ákvörðun manna er rótuð í vilja þeirra. Þess vegna kemur þróunaraðstoð aldrei að fullu gagni. Það verður ekki úr henni nákvæmlega það sem við ætlumst til.Valdamaður á hörmungasvæðum tekur ákvarðanir á sínum forsendum og þær eiga sér aðrar ástæður en okkur þykja liggja í augum uppi. Hjálpin kemur því ekki að fullu gagni. Hvað gerum við þá, vestrænir vísindahyggjumenn? Við gerðum vel í að spyrja nokkurra spurninga og setja okkur betur inn í aðstæður manna. Og við gefumst ekki upp. Réttlætum ekki O,25% okkar með því að segja að það þýði ekkert að reyna að hjálpa þessu fólki.Við skulum kenna þeim sumt af því sem við kunnum. Ekki allt, því ekki er allt okkar hæft til útflutnings. Við lærum af þeim um leið hvernig þau hugsa og meta land sitt og sjá þjóðfélag sitt. Og við kennum þeim líklega ekkert betra en að sjá tilveruna sem sköpun elskandi Guðs og að líta á manninn sömu augum og Jesús frá Nasaret. Ég hef séð með eigin augum hverju það breytir. Ný sýn, nýjir möguleikar og kjarkur til að taka sér nýtt fyrir hendur. Framtíðarsýn hér og handan heims. Kennum þeim svo að bjarga sér betur. Kennum þeim betra verklag og að hirða betur um heilsu sína. Hjálpum þeim að nýta landið betur.Við skulum svo afla okkur þess orðs að við séum manna snöggvastir til að skunda til hjálpar og veita bráðnauðsynlega fyrstu aðstoð. Hér erum boðleiðir styttri en nokkurs staðar í veröldinni. Á tveimur dögum getum við sett á loft flugvél hlaðna hjálpargögnum og hjálparliðum og verið komin á vettvang. Gaman væri a verða fræg af slíku. Það mundi muna meira um okkar litla skerf með þessu móti.Við gefumst ekki upp þótt sum af okkar framlögum komi ekki fyllilega að notum og kippum ekki að okkur hendinni þó hún særist við að rétt fram framlagið.Það er verðug virðing borin fyrir því fólki úr okkar röðum sem hafa gegnið fram fyrir skjöldu að leggja fátækum þjóðum lið og eim stofnunum sem á að því standa.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband