"Sígild" grein um kirkju og skóla

Ég birti grein undir neðangreindu nafni í febrúar 2003 líklega í DV. Mér finnst hún eiga við enn í dag.

Ólík trúarviðhorf í fjölgreiningarsamfélagi Á dögunum (Feb 2003) var haldinn fundur með prestum og leikskólastjórum í Vesturbænum um nærveru kirkjunnar í leikskólanum. Sá fundur var haldin í kjölfar umfjöllunar í leikskólaráði borgarinnar um það efni. Að sjálfsögðu var þar áréttað að ekki væri við hæfi að vera með "trúaráróður" í leikskólunum en talið sjalfsagt að skólar gætu haft kirkjuheimsóknir á dagskrá sinni.Einn prestanna sr. Sigurður Pálsson sem einnig er uppeldisfræðingur gaf út í fyrra bókina Börn og trú þar sem fjallað er um trúaruppeldi barna. Þar færir hann fram rök fræðimanna sem hníga að því að ekkert barn verði alið upp í trúarlegu tómarúmi. Annað hvort er það alið upp í einhverri trú eða trýleysi sem einnig er trúarafstaða sem mótar viðhorf þess. Hann rekur ennfremur að foreldrarnir eru sterkustu mótunaraðilarnir í þessum efnum sem öðrum. Nær ómögulegt er að komast þar fram með nokkur áhrif sem standa gegn viðhorfum foreldranna. Í skólastarfi ber það bestan árangur sem er í bestu samræmi við heimili hvers bans.Ísland er eins og önnur vestræn lönd að verða fjölmenningarland. Þetta er einmitt mest áberandi í Vesturbænum af einhverjum ástæðum. Þar er nær fimmti hver maður utan Þjóðkirkjunnar. Þetta kemur fram í skólunum einnig. Þar eru börn af ýmsum trúarbrögðum, litarafti, þjóðerni og sambúðin er ekki alltaf alveg árekstalaus.Hvernig á að snúast í þessu? Er unnt að skapa eitthvert hlutleysi til viðhorfa og siða og móta kennslu og skólastarf af því? Hver maður hlýtur að sjá að það er ómögulegt.Fulltrúi frá Alþjóðahúsinu gerði grein fyrir því á fundi fyrir skömmu að þau börn næðu bestum árangri í námi sem hefðu best tök á móðurmáli sínu og þjóðmenningu. Þetta hafa fleiri fundið og Íslendingar á Norðurlöndum hafa verið þakklátir fyrir alla kennslu fyrir sín börn í þeim efnum.Eina leiðin í þessum efnum er að kenna virðingu fyrir ólíkum háttum og viðhorfum manna í fjölgreiningarþjóðfélaginu og það ber að hefja það strax í bernsku. Það er allt í lagi að fólk hafi mismunandi trú, litaraft, þjóðerni, já og kynferði.Það er td. ekkert vandamál fyrir stráka að skilja það að þeir eigi ekki að fara á sömu salernin og stelpurnar og að það er í jafn góðu lagi fyrir stelpur að vera stelpur og fyrir stráka að vera stráka. Þannig er það einnig í lagi að vera þeldökkur eða rauðhærður og freknóttur. Þannig er það í besta lagi að vera í Þjóðkirkjunni og kunna ekkert annað en íslensku og líka að vera búddisti og tala best thailensku þó maður þekki ekkert land betur en Ísland.Leikskóli og skólastarf tekur orðið yfir svo mikinn tíma af degi og tilveru hvers barns að það hlýtur að teljast afar mikilvægt hvað þar fer fram og hvernig háttum er hagað þar. Því er hollt að leikskólastafið sé auðgað með heimsóknum á báða vegu, þó innan takmarka reglu og hæfilegs stöðguleika í dagsrásinni.Kirkja og foreldrar ganga við skín barna inn í samkomulag um samstöðu í trúaruppeldi. Hvor aðilinn um sig hefur tilteknar skyldur í því efni. Kirkjan að sínu leyti að veita fræðslu í kristindómi og tækifæri til samfélags í trú. Foreldrarnir að kenna börnum bænir og veita þeim holla fyrirmynd í orði og æði.Niðurstaðan af þessu er að það er eðlilegt að kirkjan bjóði leikskólabörnum sem og öðrum skírðum börnum í heimsókn í kirkjuna og sæki þau heim með fræðslu og helgihald. Þau börn sem foreldrarnir telja að slíkt eigi ekki erindi við þeirra börn láta þá af því vita og þeim er séð fyrir annari dagskrá á meðan. Sömuleiðis væri eðlilegt að fræðari í búddadómi fengi að heimsækja á leikskólanum sín safnaðarbörn og að þau börn sem ekki teldust eiga erindi við hann hefðu þá dagskrá á meðan með sama hætti.Þannig læra börn frá fyrsta fari að virða trú hvers annars og lifa saman í einu þjóðfélagi sátt við þá staðreynd að ekki eru allir eins, hvorki í trúarefnum sem öðrum.

Bágstaddar þjóðir

 Ég las grein Lydíu Geirsdóttur sem var viðbúið framlag í umræðunni um þróunaraðstoð og neyðarhjálp. Það er hægt að taka undir með henni í einu og öllu og leggja inn vinkil sem ég tæpti á í gær. Það er nefnilega svo að við nú eldri menn gleymum því stundum að það er ekki rétt sem okkur var kennt að vísindin efli alla dáð, hugsað í þeirri merkingu að vísindin leysi  allt. - Vísindin geta ekki markað vilja manns. Þau upplýsa að sönnu huga hans og vísa veg að lausnum en ákvörðun manna er rótuð í vilja þeirra. Þess vegna kemur þróunaraðstoð aldrei að fullu gagni. Það verður ekki úr henni nákvæmlega það sem við ætlumst til.Valdamaður á hörmungasvæðum tekur ákvarðanir á sínum forsendum og þær eiga sér aðrar ástæður en okkur þykja liggja í augum uppi. Hjálpin kemur því ekki að fullu gagni. Hvað gerum við þá, vestrænir vísindahyggjumenn? Við gerðum vel í að spyrja nokkurra spurninga og setja okkur betur inn í aðstæður manna. Og við gefumst ekki upp. Réttlætum ekki O,25% okkar með því að segja að það þýði ekkert að reyna að hjálpa þessu fólki.Við skulum kenna þeim sumt af því sem við kunnum. Ekki allt, því ekki er allt okkar hæft til útflutnings. Við lærum af þeim um leið hvernig þau hugsa og meta land sitt og sjá þjóðfélag sitt. Og við kennum þeim líklega ekkert betra en að sjá tilveruna sem sköpun elskandi Guðs og að líta á manninn sömu augum og Jesús frá Nasaret. Ég hef séð með eigin augum hverju það breytir. Ný sýn, nýjir möguleikar og kjarkur til að taka sér nýtt fyrir hendur. Framtíðarsýn hér og handan heims. Kennum þeim svo að bjarga sér betur. Kennum þeim betra verklag og að hirða betur um heilsu sína. Hjálpum þeim að nýta landið betur.Við skulum svo afla okkur þess orðs að við séum manna snöggvastir til að skunda til hjálpar og veita bráðnauðsynlega fyrstu aðstoð. Hér erum boðleiðir styttri en nokkurs staðar í veröldinni. Á tveimur dögum getum við sett á loft flugvél hlaðna hjálpargögnum og hjálparliðum og verið komin á vettvang. Gaman væri a verða fræg af slíku. Það mundi muna meira um okkar litla skerf með þessu móti.Við gefumst ekki upp þótt sum af okkar framlögum komi ekki fyllilega að notum og kippum ekki að okkur hendinni þó hún særist við að rétt fram framlagið.Það er verðug virðing borin fyrir því fólki úr okkar röðum sem hafa gegnið fram fyrir skjöldu að leggja fátækum þjóðum lið og eim stofnunum sem á að því standa.

Um gjafmildi

Fermingarkrakkar eru að ganga í hús þessa dagana. Einn fermingardrengur frá í vor vildi gefa alla ferminagrpeningana sína en foreldrar hans forðuðu honum að nokkru frá þeirri vitleysu! Rauði krossinn er að safna handa fólki í Afríku og Björgunarsveitirnar eru líka að safna. Sumir söfnuðir Þjóðkirkjunnar eru að taka upp þann sið að hafa samskot í messum eins og gjörvöll kirkjan hefur gert frá upphafi. Ég staldra við þetta og rifja upp fyrir mér stórar safnanir sem ég hef komið nærri og hugsa með frænda mínum Sigurði Guðmundssyni nýkomnum frá Malaví að ekki komi nú allt að sama gagni. Ég rekst þá á þessar hugleiðingar sem komu til mín á netinu í gær í samhengi hvor við aðra. Það er Jesús frá Nasaret sem talar í þeirri fyrri: „Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald. Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.“ Lúk 14:12-14
Svo leggur einn hinna fornu kirkjufeðra út textann með þessum hætti: ”Dragið lærdóm af ógæfu annarra og berið hag hinna þurfandi fyrir brjósti, jafnvel þó að hjálpin sé ekki mikil. Fyrir þann sem skortir allt vegur þetta þungt. Sama má segja um Guð ef þið hafið gert það sem þið getið. Verið skjót til að veita hjálp þó að gjöf ykkar sé ekki mikil að vöxtum. Ef þið hafið ekkert fram að færa bjóðið þá tár ykkar. Samúð sem sprettur fram úr hjartanu veitir hinum ógæfusömu mikla huggun og einlæg meðaumkun gæðir beiskju þjáninganna sætleika.” (Heil. Gregoríos frá Nazíanzen 330-390)
 Ég sé hinn samúðarfulla mann í nokkrum vanda, þann mann sem ekki vill ganga framhjá þurfandi fólki. Á samvisku hans hvílir sú vitund að hann skuli hjálpa. Hann skuli ekki láta undir höfuð leggjast, hvorki vegna óvissu um að hjálpin komi að tilætluðu gagni, né af því að hann sé illa aflögufær. Hann gefur því, og af því að hann liggur ekki á liði sínu á hann rétt á að hjálparstofnanir fari með framlag hans af ábyrgð og biður fréttamenn og opinbera eftirlitsaðila að fylgjast með því. En hann gerir meira. Hann tekur þátt í umræðu um það hvernig aðstoð skuli háttað og spyr uppi álit og hagi þeirra sem aðstoðina eiga að þiggja og leggur mat á ásamt öðrum áhugasömum. Og hann gefur ekki hina bágstöddu upp á bátinn þó einhverjum verði á í messunni, því það er óhjákvæmilegt hvort eð er. Þannig er nú mannana verkum einu sinni farið alla jafnan. Af mistökunum lærum við og höldum ótrauð áfram og gefum af meiri ábyrgð en áður. PS Ég vona að alþingismenn verði ekki svo lánlausir að leyfa sölu víns í MATVÖRUVERSLUNUM! ( Ég held að nær sé þá að leyfa sölu hass og amfetamíns í áfengisverslununum!)

Kirkja í vanda

Nú er kirkjuráð búið að marka stöðu í vígslumálum samkynhneigðra. Það er búið að taka tímann sinn og líklega ekki allt búið enn. Það er leitt að heyra hvað sumir una niðurstöðunni illa og eru óánægðir með kirkjuna sína. Það er aftur á móti viðbúið að þau sem hafa að nokkru markað sér stöðu sem ekki meðlimir, þó þeir kannski séu formlega innan garðs, skuli halda áfram að senda út meiningar í þessa veru.Það er ekki hægt að segja að málið hafi ekki verið rannsakað og rætt og nú er komin niðurstaða og hún er fengin með lýðræðislegum hætti. Er ekki það þá félagsleg hugsun að bíta á jaxlinn og reyna að kyngja því? Svo er ekki heldur sannfærandi málflutningurinn sem heldur því fram að Þjóðkirkjan hafi eitthvað út úr því að níðast á samkynhneigðu fólki. Engin athugasemd hefur verið gerð um það þótt samkynhneigt fólk sé í og starfi fyrir kirkjuna. Já, jafnvel í prestembættum, enda er það í góðu lagi. Frá því kirkjan ályktað um samkynhneigð hefur það allt verið í jákvæðum anda.Málið hefur í raun snúist um hjónabandið en ekki samkynhneigð, en við höfum ekki rætt um hvað við höldum um það, eins og bent var á á kirkjuþinginu. Fyrr en við höfum ályktað um hvað það er getum við ekki breytt ályktunum okkar um það. Sjálfsagt förum við nærri um það en við höfum ekki meitlað neitt í stein svosem að heldur. Má nú ekki meta það við Íslensku þjóðkirkjuna að með samþykkt sinni hefur hún gengið lengra en nokkur önnur almenn kirkja? Er það einhver dyggð orðin að sparka í hana? Af hverju sparka menn ekki heldur í ömmur sínar? Það er í flestum tilvikum nærtækara! Sama er uppá teningnum um nýju biblíuþýðinguna. Hver þykist öðrum frægari sem fjargviðrast út í hana. Eigum við nú ekki bara að horfast í augu við að verk okkar eru aldrei betri en við sjálf og sættast við það að betur getur enginn gert en svo. Getum við ekki gert gott úr því besta sem við áorkum? Ákvarðanir og tæki, eins og hér um ræðir, marka heldur ekki allt heldur hvernig er á öllu haldið í framhaldinu.

Las í blöðunum

Að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um hjónavígslu á vegum Siðmenntar í Fríkirkjunni. Prestar Þjóðkirkjunnar hafa haft nokkra skoðun á því máli. Ég er ekki viss um að þeim komi það mikið við hvað sú kirkja gerir í slíkum málum. Samband hennar við Þjóðkirkjuna er reyndar svolítið sérkennilegt. Að sumu leyti er Fríkirkjan eins og hvert annað trúfélag réttarfarslega en hefur samt bundið sig kenningagrunndvelli Þjóðkirkjunnar. Það kemur í ljós í þeirri staðreynd td að ekki fyrir löngu vígði biskup Íslands prest fyrir Fríkirkjusöfnuðinn svo sem venja er til um. Annað virðist biskup ekki hafa með málefni hennar að gera. En það er líka þeirra mál, en það lýsir víðsýni og opnum faðmi Þjóðkirkjunnar að biskup skuli gera þetta fyrir þau umyrðalaust. Honum fer líkt og safnaðarpresti Fríkirkjunnar sem opnar faðm sinn fyrir Siðmennt. Reyndar er nokkuð sem Fríkirkjuprestur hefur oft á orði og ma í Blaðinu í morgun, það að prestar Þjóðkirkjunnar séu ríkisstarfsmenn. Það er rangt og heldur áfram að vera rangt þó hann segi það þúsund sinnum, jafnrangt og að Þjóðkirkjan sé ríkiskirkja. Ég veit ég mun ekki með þessu skrifi breyta skoðunum hans en ég get upplýst hugsanlega lesendur þessa mikið um þetta mál þó ég láti lítið eitt nægja að sinni.Prestslaun eru borin uppi eins og frá upphafi kristni í landinu af eignasafni sem fólkið í kirkjunni hefur lagt til í þessu skyni. Einingar þess hafa kallast brauð af því að það var lifibrauð prestsins og fjölskyldu hans. Með samkomulagi milli ríkis og kirkju frá 1997 var brauðunum steypt saman í eitt safn og afhent ríkinu til frjálsar ráðstöfunar gegn því að ríkið greiddi 138 prestum og 18 öðum starfmönnum þjóðkirkjunnar laun. Sér til hagræðis fer ríkið líkt með presta og aðra starfsmenn ríkisins og sömuleiðis sér til hagræðis og í anda þessa samkomulags er launaskrifstofa presta á biskupsstofu. Þannig eru prestar alls ekki ríkisstarfsmenn þó þeir njóti í ýmsu réttinda ríkisstarfsmanna. Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag sem á mikilvægan samning við ríkið svo sem fræðimenn hafa greint.Samningurinn frá 1997 er merkilegur og í anda Þorgeirs ljósvetningagoða. Það er í honum ákvæði um að þessum 138 embættum skuli fjölga eða fækka fyrir hver 5000 sem bætist eða minnkar í Þjóðkirkjunni. Ekki einusinni Salómon kóngur slær þessa snilli út. Með því er það lagt í hendur (undir fætur) fólksins í landinu hvað það vill að Þjóðkirkjan hafi úr ríkiskassanum. Það greiðir atkvæði þar um með fótunum! Meðan það er í Þjóðkirkjunni nýtur hún þess. Fari það annað geldur hún þess og fólkið fær í gegnum ríkið embættin til annarar ráðstöfunar. Segjum að fjöldaúrsagnir yrðu úr Þjóðkirkjunni og í henni minnkaði um helming. Þá fækkar prestembættum líka um helming og útgjöld ríkisins vegna Þjóðkirkjunnar minnka að sama skapi. Þett finnst mér bæði klókt og réttlátt – afar lýðræðislegt.


Tannlæknavandræði

Hún sonardóttir mín 8 ára varð fyrir því um helgina að það brotnuðu framtennur í henni í Sundlaug Akureyrar. Það var slys af því tagi sem helst ekki eiga að geta orðið en verða því miður af því við erum ekki alltaf til í að fara eftir reglum þó hún séð það nú blessuð jafnan sem og í þetta sinn.

Nú vissu þau foreldrar hennar ekki nema að þau væru að keppa við tímann um að bjarga einhverju blíðasta brosi samtímans og það tók því nokkuð á taugar þeirra að leita eftir tannlækni. En þannig háttar til á Akureyri að ef verður slys af þessu tagi og gildir þá einu hvort bráðavaktin á í hlut ellegar ótýndur almúginn að maður fær í hendur lista yfir þá + 20 tannlækna sem eru á þeim slóðum og svo hringir maður. Þessi er ekki í bænum og því löglega afsakaður, þessi ansar ekki svona nema maður sé hjá honum, þessi er að halda upp á afmæli osfrv. Enginn er á vakt og undursamlegasta bros Norðurlands í hættu!

 Þökk sé henni Regínu sem var rétt að koma í bæinn þá komst broslausa stúlkan í réttar hendur og fékk aðhlynningu og hefði litlu skipt hvort hún komst að augnablikinu fyrr eða síðar, en foreldrar hennar eru þó ágætlega menntuð séu ekki tannlæknar og gátu því ekki vitað neitt um það.

Sætta Akureyringar sig við svona þjónustu, eða var þetta svona af því að um utanbæjarmanneskju var að ræða eins og fyrr var sagt?

Ég ætla ekki að koma með hugleiðingu um þann vitnisburð sem tannlæknar fá almennt af þessu atviki!


ÓHEILNÆMI FÉLGASLEGRA SKÚMASKOTA

"Ísland fyrir Íslendinga." Þetta herhróp var aldrei gott og heyrist nú sjaldan sem betur fer.  Þó er ástæða til þess að hugleiða hvort okkur er alveg sama hvernig þjóðfélag okkar verður. Umræða um þátt trúar í mótun þjóðfélags hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu ma vegna heimsókna tveggja kvenna á rithöfundaþing. Þær telja áhrif trúar á þjóðfélögin yfirleitt vond. Ég veit ekki hvaða gagn er af yfirlýsingum af þessu tagi. Öll þjóðfélög hafa mótast af trúarviðhorfum. Miklu gagnlegra væri að greina hvernig trú hefur mótað þjóðfélög. Nú er það undarleg þverstæða að Vesturlönd sem  hafa einhverjar bestu almannatryggingar, heilbirgðis- og félagsþjónustu eru um leið þau þjóðfélög sem hafa hvað verstan feril hvað blóðsúthellingar varðar. Vissulega má segja að um hið fyrra fari alveg að gildum kristins boðskapar en alls ekki hið síðara.

Lútherdómur leggur þá meginreglu að skynsemin þurfi að leiða trúna og trúin skynsemina. Með þjóðum mótmælenda þróaðist líka á seinni öldum gagnrýnin Biblíurannsókn. Ég tel að það megi færa mörg rök fyrir ágæti þessarar samfylgdar. Um leið er ég líka að leggja ákveðinn mælikvarða á trúarbrögð og jafnvel setja norm fyrir trúarbrögð. Ég meina að okkur sé ekki aðeins heimilt heldur skylt að krefja trúabragðaboðendur um glóruna í því sem þeir fara með. Opinberanirnar sem þeir byggja á gefa ekki tilefni til þess að fara með boðskapinn hvert sem mönnum líkar.

Múhammeð og Búdda komu báðir fram með skoðanir sem hafa mikilsvert gildi fyrir túlkun okkar mannanna á heiminum og ástæðum okkar mannanna almennt. Það er hægt að virða þær þó þær séu gagnrýndar í ljósi vísinda og skoðunar á gagnsemi mannsins. Helgi einstaklings og heill samfélagsins má meta á vísindalegum forsendum og spyrja að því hvort tiltekin túlkun trúarinnar standist í því ljósi.

Þessu hefur kristnin orðið að sæta á sínum vettvangi um aldir og í raun almennt talað farið vel út úr þeirri samræðu og mikið af henni lært. En hún er jafn rótföst í opinberuninni um að maður og Guð eigi sátt sín á milli fyrir Jesú Krist, og að menn skuli hafa að leiðarljósi hvernig hann leit á náunga sinn og kom fram við fólk. Heimsýn kristinna er opin, opin fyrir náunganum og opin fyrir sköpuninni. Hvort tveggja á sinn sjálfstæða rétt.

Ég meina látum hvorki fasista né bullur; múslima, kristna né aðra í friði með að móta í gettóum sínum andfélagsleg viðhorf, hafa hindurvitni í stað viðurkenndrar og prófaðrar þekkingar né stunda kúgun á sínum né brugga saklausu fólki launráð. Drögum máltilbúnað þeirra fram í dagsljósið og sýnum fram á villu þeirra. Ef það dugar ekki til sendum þá Stefán og félaga á þá og drögum þá til ábyrgðar en stundum endilega að öllu öðru leyti frið við alla menn.


Jesús og síminn

 Úr prédikun sunnudagsins sjá www.domkirkjan.is

Samfélagið má vel taka í hornin á kirkjunni og hjálpa henni að sjá í hverju henni er áfátt en hún getur ekki byggt sig út fyrir grundvöll sinn. Þá hrynur hún eða breytist einfaldlega í geimstöð, án sambands við raunveruleikann. Og sá grundvöllur er Kristur. Við megum alls ekki skola honum út með þvottavatninu þegar við hreinsum kirkjuna okkar, því það er hann sem hreinsar okkur, ekki öfugt. Jesús Kristur er söguleg persóna, gleymum því aldrei. Guð kom til fundar við okkur mennina í þessum smið frá Galíleu fyrir 2000 árum. Umræðuefnið er því hvað hann sagði og gerði. Með því að vega það og meta og skoða í ljósi samtíðar okkar og samhengis hans munum við fá þá vitneskju sem við þurfum til þess að sjá með augum Guðs hvernig hlutunum er varið. Til þess var auglýsing Jóns Gnarrs vel til fallin. Verst að hann skyldi ekki hafa aðra leið en að auglýsa alls óskylt efni í leiðinni.

Samhjálp í verki

Í starfi mínu sem prestur í miðborginni hef ég margsinnis séð í hendi mér mikilvægi kaffistofu samhjálpar og séð ástæðu til að þakka það sem og rekstur þeirra á Gistiskýlinu. Það verður að tryggja áframhaldandi rekstur kaffistofunnar og sömuleiðis að Samhjálparfólk haldi áfram þeim rekstri.

Það getur verið afar dapurlegt að senda frá sér þurfamann án þess að hafa fundið ráð til hjálpar í brjáðum vanda en huggun að vita að hann á vísa saðnigu hjá Samhjálp og möguleika á gistingu á Gistiskýlinu. Það er þó alltof takmörkuð lausn og þarf að þróa frekar.


mbl.is Kaffistofu Samhjálpar lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingin

Jón Gnarr á líklega svolítið erfiða daga. Það var viðbúið en ég finn svolítið til með honum samt. Auglýsingin var smekkleg og vel gerð og augljóslega góður hugur á bak við hjá honum. Hann er að vekja athygli á M3 símanum og fyrir það fær hann borgað, en hann vekur líka athygli á sögunni um Krist og það hefur margsinnis komið fram að hún er Jóni heilagt alvörumál. Píslarsöguna höfum við ekki í flimtingum af því við berum lotningu fyrir Guði, leggjum ekki nafn hans við hégóma og við eigum að bera virðingu fyrir tilfinningum annara. Það er kurteisi og án hennar verður svo hráslagalegt í mannheimum. En kvöldmáltíðin er þó sá þáttur píslarsögunnar sem hefur glaðlegt andlit og þolir meira, held ég, en annað þar.Samt fór hann Jón yfir strikið vegna samhengisins. Þatta er auglýsing, torghróp: “Kaupið Símann. Jesús notar hann. Þú skalt nota hann líka.” Þetta er að nota Jesú til þess að selja eitthvað og ÞAÐ finnst mér ósmekklegt. Samt ekki eins ósmekklegt og það hjá Þangbrandi að nota sverðið við að boða Íslendingum trúan en í sama stíl samt. Einhvern vegin tókst Guði samt að nota séra Þangbrand til góðs og ég er viss um að hann getur og er að nota Jón Gnarr til góðs. Við verðum kristin aftur hér á Íslandi ma. fyrir svona kalla eins og þá tvo!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband