Færsluflokkur: Bloggar

Bágindi í Kenía

Mig langar að vekja athygli á umfjöllun um efnið á slóðinni www.jakob.annall.is Þar er gerð grein fyrir aðstæðum og hjálparstarfi íþróun á okkar vegum.

 


Hver á völdin?

Ég hef spenntur fylgst með þróun mála í Keníu að undanförnu eins og skiljanlegt er af bloggi mínu. Spenna hangir í loftinu um hver muni hafa völdin Odinga forsætisráðherra eða Kibaki forseti. Af því ræðst friðurinn að miklu leyti hvort þeir eru reiðubúnir að deila völdum í samræmi við gert samkomulag. Þeir hafa áður verið saman við stjórnvölinn en það hélst ekki út heilt kjörtímabil svo menn eru alls ekki öruggir með þá nú heldur. Keníabúar eiga mikið í húfi að þessir menn setji málefni þjóðar sinnar í heild ofar hagsmunum sínum og sinna.

Í Rússlandi var kosinn nýr forseti en Pútín sagður hafa alla tauma í hendi sér. Hvernig Medvedev líður með það þegar fram í sækir leiðir tíminn einn í ljós. Klókt þó af Pútín að láta ekki breyta stjórnarskránni sín vegna, lítur sannarlega vel út og tryggir stöðugleika og áhrif hugsjóna hans.

En það lítur ekki vel út í Reykjavík, reyndar hvorki vel né illa. Það er ekkert útlit yfirleitt! Þar er sama fastheldnin á völdin og djúpstæður ágreiningur um þau þó ekki hafi komið til óeirða eða mannfalls. Það er sorglegt að horfa upp á það að menn meti sig svo oftlega mikilvægari en frið og almannaheill, að leyfa að deilur um persónu manns hindri eðlilegan gang stjórnsýslu samfélagsins.

Hvenær munum við sjá mann færa fórn vegna friðar og stöðugleika, vegna framgangs þeirra hugsjóna sem hann hefur bundist og hafa borið hann í valdastöðu? Hvenær mun einhver efla málstað sinn með því að styrkja stöðu annarrar manneskju, breyta henni úr keppinaut í samherja?

Það væri sannarlega tímabært og vel þegið nú.


Aðskilnaður ríkis og kirkju

Ég hef verið fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju um margra ára bil og ritað um það greinar í blöð, fyrst í Mbl. Í ágúst 1986. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mér hafi orðið að ósk minni fyrir tíu árum. Með þjóðkirkjulögunum 1997 og framkvæmd þeirra síðan álit ég að runverulegur aðskilnaður ríkis og kirkju hafi orðið. Þannig hljómar í mínum eyrum það tal að skilja þurfi að ríki og kirkju eins og grammofónplata sem sem gleymst hefur á fóninum all lengi.Hvernig hugsa menn sér frekari aðskilnað?Lítum fyrst á hver tengslin eru í dag.- Þjóðkirkjunnar er getið í stjórnarskrá. Það mundi litlu breyta í raun þó það ákvæði yrði fellt niður, en hugmyndafræðilega þýddi það að löggjafinn þyrfti að koma sér upp nýjum siðgæðislegum viðmiðum, eins og ég og fleiri hafa áður bent á, og móta ákvörðun um hver skuli vera “grundvöllur laga vorra.” Það er ekki vist að menn átti sig á þessu í dag en að því mundi koma að það yrði deginum ljósara.- Þjóðkirkjan nýtur greiðslna á fjárlögum og þær eru tvennskonar. Laun presta koma sem afgjald af eignum sóknanna sem ríkið hefur tekið til sín með samningi frá 1997. Þjóðkirkjan nýtur síðan styrkja líkt og margar aðrar félagslegar stofnanir.Ef fella á niður greiðslu prestlauna á fjárlögum þá hlyti að fylgja að henni yrði skilað aftur eigum hennar eða fyrir þær kæmu eignarnámsbætur. Eignarétturinn er stjórnarskrárvarinn og landeignir sem er uppistaða þessara kirkjueigna hafa hækkað allmjög í verði. Hvað ætli kosti allt land undir Garðabæ í dag? Kirkjan átti það og fleiri verðmætar landeignir sem nú eru komnar undir byggð. Mundi Þjóðkirkjan svo ekki mega vænta styrkja á fjárlögum eins og önnur félög sem leggja fram til almannaheilla, eins og SÁÁ, Götusmiðjan, Ungmennafélag Íslands ofl. ofl?- Það eru sérstök lög um Þjóðkirkjuna. Það eru líka lög um  verkalýðsfélög og margháttaða aðra félagsstarfsemi í þjóðfélaginu. Það eru líka lög um trúfélög. Það hlýtur að vera til hagræðis í augum löggjafans að hafa ekki lagaákvæðin um Þjóðkirkjuna inn í þeim lögum. Í því efni er vart um að ræða breytingar sem máli skipta.- Hvað gætum við aðskilið frekar? Taka krossinn úr fánanum? Guð úr þjóðsöngnum? Jólin úr dagatalinu? Nei, þau eru víst eldri en kristnin, heiðin skilst mér. Ég held að þetta tal um aðskilnað sé rekið af þeim sem í raun vildu alla trúarstarfsemi burt úr samfélaginu. Því markmiði verður aldrei náð svo sem dæmin sanna. Aðrir taka undir þeirra kór af því það er svo “rétt” en vita kannski ekki hvað þeir eru að fara fram á. Alla liðna öld fór aðskilnaðurinn fram samkvæmt hugsunarhætti þeirrar aldar og hann endaði í raun með Þjóðkirkjulögunum og samningi ríkis og Þjóðkirkju 1997 þar sem Þjóðkirkjan tók á sig ábyrgð eigin mála og ríkið tók til sín kirkjueignirnar með loforði um að kosta þá prestsþjónustu sem þá var við líði með reglum sem eru svo sanngjarnar og skynsamlegar að þær gætu verið undan rifjum Þorgeirs ljósvetningagoða runnar. Það er ástæða til að rifja þær upp en þær fela í sér að þjóðin er í raun lýst eigandi eignanna og á meðan þjóðin er að sama hluta í Þjóðkirkjunni nýtur kirkjan ágóðans af eignunum í formi prestlaunanna en gangi fjöldi fólks úr Þjóðkirkjunni fara þessir fjármunir með því úr launasjóði Þjóðkirkjunnar. Þjóðin greiðir þannig atkvæði um þessi hlunnindi með fótunum. Hver og einn hefur virkt atkvæði um þetta. Þetta getur sem sagt ekki orðið lýðræðislegra.Enn kynnu einhverjir að amast við hlut Þjóðkirkjunnar í ýmsum opinberum athöfnum, eins og það að setja Alþingi í kirkju, biðja fyrir forsetanum þegar hann er settur inn í embætti og fara í kirkju af Austuvelli 17. júní.Í Bandaríkjunum er ríki og kirkja eindregið aðskilin, en hvað ósköpunum hefur Billy Graham verið að gera við allar forsetainnsetningar í 30 ár eða meir? Um þátttöku Þjóðkirkjunnar í þjóðlífinu gildir það að hún hlýtur að markast af því að Þjóðkirkjan er almannahreyfing og stendur sem slík á fornum meiði. Hún hlýtur að láta sín getið þar sem hún er. Tölum því um eitthað annað raunhæfara en aðskilnað ríkis og kirkju.

Kristilegt siðgæði

Á Alþingi í gær og í Kastljósi í gærkvöld féllu umhugsunarverð orð af vörum æðstu valdamanna þjóðarinnar um krisilegt siðgæði sem grundvallarviðmiðun siðgæðis. Í stað þess kemur nú í frumvarpstexta laga um menntastofnanir falleg upptalning viðmiða, og flestum getur fundist eins og menntamálaráðherranum þau umskipti litlu skipta. En er nú svo víst að hér sé bitamunur en ekki fjár? Þessi umræða kom upp í Noregi í ráðherratíð Guðmundar Hernes. Hann ver guðfræðingur á stóli menntamálaráðherra, ef ég fer rétt með. Hann gerði sér grein fyrir því að ef hinni kristnu viðmiðun var skipt út þá varð að skilgreina inntak orða eins og umburðarlyndi, jafnrétti og réttlæti. Gera nýjan gildagunn. Þetta þykir ýmsum kannski einkennilegt, en inntak þessara fallegu orða er eins og annara tímanlegt, skilgreinist af menningunni hverju sinni. Samt er það svo að þetta kristilega er það ankeri sem gildin eru fest við. Þau skírast af inntaki kristindómsins, dæmi og orðum Jesú og öllu sínu samhengi. Þau eru ekki á reki. Það að þau skírist með mismunandi blæbrigðum og kannski rúmlega það eftir tiíma og stað er að sínu leyti ávísun á hvernig færi fyrir hinum óbundnu gildum sem nú eru á dagskrá í þrætubók.Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup sendi frá sér gagnmerka pistla í Morgunblaðinu í haust og geyma þeir lærdóm sem vitur maður hefur dregið að reynslu sinni af liðinni öld, öld óheyrilegra blóðsúthellinga, þjóðarmorða og yfirgangs. Hann lýsir ma uppgangi nasismanns og meinvillu kommúnismans sem hvor tveggja tóku öll þessi fallegu gildi frumvarpsins og rangsneru þeim með því að fá þeim valdar viðmiðanir. Þetta ekki aðeins getur gerst aftur heldur mun það gerast. Það er ekki enn runninn sá bjarti dagur handan allra stríða þó friðvænlegt hafi verið með okkur um stund. Mannshugurinn er viðsjárverð vél og samfélög manna pottar sem fleira er í kokkað en heilsufæði. Gáum því að okkur.

Nokkrir þankar um kirkju og skóla

Nokkrir þankar um kirkju og skóla Það er vert að skoða nánar ýmisegt sem hefur verið haft á orði í umræðunni um þessi mál að undanförnu. Fyrst það að aðkoma kirkjunnar að skólastarfi sé nýtilkomin. Það má ef til vill gilda um leikskólann og er enda þar flest nýtt. En um grunnskólann gegnir öðru máli og er skilt skeggið hökunni í þeim efnum þó minna sé en sumir vildu. Nú má ég af sjálfum mér reyna þetta nokkuð. Prestar sátu jafnan í skólanefndum, voru kennarar og prófdómarar í barnæsku minni og helgaðist það af því að þeir höfðu löngum borið ábyrgð á barnafræðslunni í sveitum sínum. Lnagafar mínir tveir voru barnafræðarar og störfuðu á ábyrgð prestanna. Sjálfur kenndi ég talsvert bæði sem guðfræðinemi og prestur. Ég hafði allan aðgang að skólunum sem ég gat við komið enda óskað eftir samstarfi kirkju og skóla þar sem ég starfaði úti á landi. Þetta munu flestir prestar geta tekið undir og velflestum fundist eðlilegt. Það er fyrst á seinni árum að það fer að bera nokkuð á tregðu af hálfu skólans í þessu efni. Á sama tíma eykst mjög viðvera barnanna í skóla. Sá tími sólarhrings sem börn verja með foreldrum sínum og hafa til ráðrúms fyrir tómstundastarf minnkar. Það þrengir um þann tíma sem trúfræðslu verður viðkomið utan skólans. Um leið er jafnt og þétt dregið úr kristinfræðikennslu. Auðvitað verða það eðlileg viðbrögð kirkju og presta að bjóða stuðning og leita leiða til þess að styrkja kristinfræði í skólunum. Í lengdri viðveru grunnskólans hefur skapast rými fyrir þessa fræðslu og hefur það sumsstaðar verið nýtt. Og kirkjan hefur eflt á sama tíma starf sitt í þágu barna og ungmenna. Mér sýnist þetta allt eðlileg viðbrögð. Það er talað um að þessi fræðsla verði að vera á faglegum grunni og látið hljóma eins og prestar og djáknar séu amatörar í þessu starfi. Þetta er allt gagnmenntað fólk og væri nær að líkja þeim við sérkennara í sínu fagi. Starfið er einnig unnið í stærra samhengi safnaðarstarfs og undir umsjá sónarprestsins. Svo er talað um sálnaveiðar eins og börnin séu utan samhengis kirkjunnar. Grundvöllur starfanna er sá að flest börnin tilheyra Þjóðkirkjunni og foreldrarnir samþykkja og óska eftir því að þessi þjónusta sé veitt. Og aðeins um tilhliðrun skólans vegna starfa kirkjunnar. Hvað þá um íþróttastarf og listastarf? Er það ekki bannað líka? Ég held að fólk sem starfar með börnum og unglinum vítt út um landið og í mörgum hverfum höfuðborgarsvæðisins skilji ekki þetta tal. Sveitarfélagið og hverfin eru samfélagsheildir þar sem samhæfing hefur orðið að nauðsyn eftir því sem tilboðum um verkefni og vettvang fyrir ungviðið hefur vaxið og augljósari þörfin að halda utan um það og forða frá illu. Auðvitað er skólinn þátttakandi í þessari tilhliðrun. Hið opinbera er ekki og vill ekki vera neinn “stóribróðir” sem allir aðrir verða að lúta. Umfang hans eitt nægir honum til þess að hafa forgang.

Bágstaddar þjóðir

 Ég las grein Lydíu Geirsdóttur sem var viðbúið framlag í umræðunni um þróunaraðstoð og neyðarhjálp. Það er hægt að taka undir með henni í einu og öllu og leggja inn vinkil sem ég tæpti á í gær. Það er nefnilega svo að við nú eldri menn gleymum því stundum að það er ekki rétt sem okkur var kennt að vísindin efli alla dáð, hugsað í þeirri merkingu að vísindin leysi  allt. - Vísindin geta ekki markað vilja manns. Þau upplýsa að sönnu huga hans og vísa veg að lausnum en ákvörðun manna er rótuð í vilja þeirra. Þess vegna kemur þróunaraðstoð aldrei að fullu gagni. Það verður ekki úr henni nákvæmlega það sem við ætlumst til.Valdamaður á hörmungasvæðum tekur ákvarðanir á sínum forsendum og þær eiga sér aðrar ástæður en okkur þykja liggja í augum uppi. Hjálpin kemur því ekki að fullu gagni. Hvað gerum við þá, vestrænir vísindahyggjumenn? Við gerðum vel í að spyrja nokkurra spurninga og setja okkur betur inn í aðstæður manna. Og við gefumst ekki upp. Réttlætum ekki O,25% okkar með því að segja að það þýði ekkert að reyna að hjálpa þessu fólki.Við skulum kenna þeim sumt af því sem við kunnum. Ekki allt, því ekki er allt okkar hæft til útflutnings. Við lærum af þeim um leið hvernig þau hugsa og meta land sitt og sjá þjóðfélag sitt. Og við kennum þeim líklega ekkert betra en að sjá tilveruna sem sköpun elskandi Guðs og að líta á manninn sömu augum og Jesús frá Nasaret. Ég hef séð með eigin augum hverju það breytir. Ný sýn, nýjir möguleikar og kjarkur til að taka sér nýtt fyrir hendur. Framtíðarsýn hér og handan heims. Kennum þeim svo að bjarga sér betur. Kennum þeim betra verklag og að hirða betur um heilsu sína. Hjálpum þeim að nýta landið betur.Við skulum svo afla okkur þess orðs að við séum manna snöggvastir til að skunda til hjálpar og veita bráðnauðsynlega fyrstu aðstoð. Hér erum boðleiðir styttri en nokkurs staðar í veröldinni. Á tveimur dögum getum við sett á loft flugvél hlaðna hjálpargögnum og hjálparliðum og verið komin á vettvang. Gaman væri a verða fræg af slíku. Það mundi muna meira um okkar litla skerf með þessu móti.Við gefumst ekki upp þótt sum af okkar framlögum komi ekki fyllilega að notum og kippum ekki að okkur hendinni þó hún særist við að rétt fram framlagið.Það er verðug virðing borin fyrir því fólki úr okkar röðum sem hafa gegnið fram fyrir skjöldu að leggja fátækum þjóðum lið og eim stofnunum sem á að því standa.

Um gjafmildi

Fermingarkrakkar eru að ganga í hús þessa dagana. Einn fermingardrengur frá í vor vildi gefa alla ferminagrpeningana sína en foreldrar hans forðuðu honum að nokkru frá þeirri vitleysu! Rauði krossinn er að safna handa fólki í Afríku og Björgunarsveitirnar eru líka að safna. Sumir söfnuðir Þjóðkirkjunnar eru að taka upp þann sið að hafa samskot í messum eins og gjörvöll kirkjan hefur gert frá upphafi. Ég staldra við þetta og rifja upp fyrir mér stórar safnanir sem ég hef komið nærri og hugsa með frænda mínum Sigurði Guðmundssyni nýkomnum frá Malaví að ekki komi nú allt að sama gagni. Ég rekst þá á þessar hugleiðingar sem komu til mín á netinu í gær í samhengi hvor við aðra. Það er Jesús frá Nasaret sem talar í þeirri fyrri: „Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald. Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.“ Lúk 14:12-14
Svo leggur einn hinna fornu kirkjufeðra út textann með þessum hætti: ”Dragið lærdóm af ógæfu annarra og berið hag hinna þurfandi fyrir brjósti, jafnvel þó að hjálpin sé ekki mikil. Fyrir þann sem skortir allt vegur þetta þungt. Sama má segja um Guð ef þið hafið gert það sem þið getið. Verið skjót til að veita hjálp þó að gjöf ykkar sé ekki mikil að vöxtum. Ef þið hafið ekkert fram að færa bjóðið þá tár ykkar. Samúð sem sprettur fram úr hjartanu veitir hinum ógæfusömu mikla huggun og einlæg meðaumkun gæðir beiskju þjáninganna sætleika.” (Heil. Gregoríos frá Nazíanzen 330-390)
 Ég sé hinn samúðarfulla mann í nokkrum vanda, þann mann sem ekki vill ganga framhjá þurfandi fólki. Á samvisku hans hvílir sú vitund að hann skuli hjálpa. Hann skuli ekki láta undir höfuð leggjast, hvorki vegna óvissu um að hjálpin komi að tilætluðu gagni, né af því að hann sé illa aflögufær. Hann gefur því, og af því að hann liggur ekki á liði sínu á hann rétt á að hjálparstofnanir fari með framlag hans af ábyrgð og biður fréttamenn og opinbera eftirlitsaðila að fylgjast með því. En hann gerir meira. Hann tekur þátt í umræðu um það hvernig aðstoð skuli háttað og spyr uppi álit og hagi þeirra sem aðstoðina eiga að þiggja og leggur mat á ásamt öðrum áhugasömum. Og hann gefur ekki hina bágstöddu upp á bátinn þó einhverjum verði á í messunni, því það er óhjákvæmilegt hvort eð er. Þannig er nú mannana verkum einu sinni farið alla jafnan. Af mistökunum lærum við og höldum ótrauð áfram og gefum af meiri ábyrgð en áður. PS Ég vona að alþingismenn verði ekki svo lánlausir að leyfa sölu víns í MATVÖRUVERSLUNUM! ( Ég held að nær sé þá að leyfa sölu hass og amfetamíns í áfengisverslununum!)

Kirkja í vanda

Nú er kirkjuráð búið að marka stöðu í vígslumálum samkynhneigðra. Það er búið að taka tímann sinn og líklega ekki allt búið enn. Það er leitt að heyra hvað sumir una niðurstöðunni illa og eru óánægðir með kirkjuna sína. Það er aftur á móti viðbúið að þau sem hafa að nokkru markað sér stöðu sem ekki meðlimir, þó þeir kannski séu formlega innan garðs, skuli halda áfram að senda út meiningar í þessa veru.Það er ekki hægt að segja að málið hafi ekki verið rannsakað og rætt og nú er komin niðurstaða og hún er fengin með lýðræðislegum hætti. Er ekki það þá félagsleg hugsun að bíta á jaxlinn og reyna að kyngja því? Svo er ekki heldur sannfærandi málflutningurinn sem heldur því fram að Þjóðkirkjan hafi eitthvað út úr því að níðast á samkynhneigðu fólki. Engin athugasemd hefur verið gerð um það þótt samkynhneigt fólk sé í og starfi fyrir kirkjuna. Já, jafnvel í prestembættum, enda er það í góðu lagi. Frá því kirkjan ályktað um samkynhneigð hefur það allt verið í jákvæðum anda.Málið hefur í raun snúist um hjónabandið en ekki samkynhneigð, en við höfum ekki rætt um hvað við höldum um það, eins og bent var á á kirkjuþinginu. Fyrr en við höfum ályktað um hvað það er getum við ekki breytt ályktunum okkar um það. Sjálfsagt förum við nærri um það en við höfum ekki meitlað neitt í stein svosem að heldur. Má nú ekki meta það við Íslensku þjóðkirkjuna að með samþykkt sinni hefur hún gengið lengra en nokkur önnur almenn kirkja? Er það einhver dyggð orðin að sparka í hana? Af hverju sparka menn ekki heldur í ömmur sínar? Það er í flestum tilvikum nærtækara! Sama er uppá teningnum um nýju biblíuþýðinguna. Hver þykist öðrum frægari sem fjargviðrast út í hana. Eigum við nú ekki bara að horfast í augu við að verk okkar eru aldrei betri en við sjálf og sættast við það að betur getur enginn gert en svo. Getum við ekki gert gott úr því besta sem við áorkum? Ákvarðanir og tæki, eins og hér um ræðir, marka heldur ekki allt heldur hvernig er á öllu haldið í framhaldinu.

Las í blöðunum

Að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um hjónavígslu á vegum Siðmenntar í Fríkirkjunni. Prestar Þjóðkirkjunnar hafa haft nokkra skoðun á því máli. Ég er ekki viss um að þeim komi það mikið við hvað sú kirkja gerir í slíkum málum. Samband hennar við Þjóðkirkjuna er reyndar svolítið sérkennilegt. Að sumu leyti er Fríkirkjan eins og hvert annað trúfélag réttarfarslega en hefur samt bundið sig kenningagrunndvelli Þjóðkirkjunnar. Það kemur í ljós í þeirri staðreynd td að ekki fyrir löngu vígði biskup Íslands prest fyrir Fríkirkjusöfnuðinn svo sem venja er til um. Annað virðist biskup ekki hafa með málefni hennar að gera. En það er líka þeirra mál, en það lýsir víðsýni og opnum faðmi Þjóðkirkjunnar að biskup skuli gera þetta fyrir þau umyrðalaust. Honum fer líkt og safnaðarpresti Fríkirkjunnar sem opnar faðm sinn fyrir Siðmennt. Reyndar er nokkuð sem Fríkirkjuprestur hefur oft á orði og ma í Blaðinu í morgun, það að prestar Þjóðkirkjunnar séu ríkisstarfsmenn. Það er rangt og heldur áfram að vera rangt þó hann segi það þúsund sinnum, jafnrangt og að Þjóðkirkjan sé ríkiskirkja. Ég veit ég mun ekki með þessu skrifi breyta skoðunum hans en ég get upplýst hugsanlega lesendur þessa mikið um þetta mál þó ég láti lítið eitt nægja að sinni.Prestslaun eru borin uppi eins og frá upphafi kristni í landinu af eignasafni sem fólkið í kirkjunni hefur lagt til í þessu skyni. Einingar þess hafa kallast brauð af því að það var lifibrauð prestsins og fjölskyldu hans. Með samkomulagi milli ríkis og kirkju frá 1997 var brauðunum steypt saman í eitt safn og afhent ríkinu til frjálsar ráðstöfunar gegn því að ríkið greiddi 138 prestum og 18 öðum starfmönnum þjóðkirkjunnar laun. Sér til hagræðis fer ríkið líkt með presta og aðra starfsmenn ríkisins og sömuleiðis sér til hagræðis og í anda þessa samkomulags er launaskrifstofa presta á biskupsstofu. Þannig eru prestar alls ekki ríkisstarfsmenn þó þeir njóti í ýmsu réttinda ríkisstarfsmanna. Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag sem á mikilvægan samning við ríkið svo sem fræðimenn hafa greint.Samningurinn frá 1997 er merkilegur og í anda Þorgeirs ljósvetningagoða. Það er í honum ákvæði um að þessum 138 embættum skuli fjölga eða fækka fyrir hver 5000 sem bætist eða minnkar í Þjóðkirkjunni. Ekki einusinni Salómon kóngur slær þessa snilli út. Með því er það lagt í hendur (undir fætur) fólksins í landinu hvað það vill að Þjóðkirkjan hafi úr ríkiskassanum. Það greiðir atkvæði þar um með fótunum! Meðan það er í Þjóðkirkjunni nýtur hún þess. Fari það annað geldur hún þess og fólkið fær í gegnum ríkið embættin til annarar ráðstöfunar. Segjum að fjöldaúrsagnir yrðu úr Þjóðkirkjunni og í henni minnkaði um helming. Þá fækkar prestembættum líka um helming og útgjöld ríkisins vegna Þjóðkirkjunnar minnka að sama skapi. Þett finnst mér bæði klókt og réttlátt – afar lýðræðislegt.


Tannlæknavandræði

Hún sonardóttir mín 8 ára varð fyrir því um helgina að það brotnuðu framtennur í henni í Sundlaug Akureyrar. Það var slys af því tagi sem helst ekki eiga að geta orðið en verða því miður af því við erum ekki alltaf til í að fara eftir reglum þó hún séð það nú blessuð jafnan sem og í þetta sinn.

Nú vissu þau foreldrar hennar ekki nema að þau væru að keppa við tímann um að bjarga einhverju blíðasta brosi samtímans og það tók því nokkuð á taugar þeirra að leita eftir tannlækni. En þannig háttar til á Akureyri að ef verður slys af þessu tagi og gildir þá einu hvort bráðavaktin á í hlut ellegar ótýndur almúginn að maður fær í hendur lista yfir þá + 20 tannlækna sem eru á þeim slóðum og svo hringir maður. Þessi er ekki í bænum og því löglega afsakaður, þessi ansar ekki svona nema maður sé hjá honum, þessi er að halda upp á afmæli osfrv. Enginn er á vakt og undursamlegasta bros Norðurlands í hættu!

 Þökk sé henni Regínu sem var rétt að koma í bæinn þá komst broslausa stúlkan í réttar hendur og fékk aðhlynningu og hefði litlu skipt hvort hún komst að augnablikinu fyrr eða síðar, en foreldrar hennar eru þó ágætlega menntuð séu ekki tannlæknar og gátu því ekki vitað neitt um það.

Sætta Akureyringar sig við svona þjónustu, eða var þetta svona af því að um utanbæjarmanneskju var að ræða eins og fyrr var sagt?

Ég ætla ekki að koma með hugleiðingu um þann vitnisburð sem tannlæknar fá almennt af þessu atviki!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband